Þýska tónskáldið Johann Sebastian Bach (1685-1750) eignaðist tuttugu börn í tveimur hjónaböndum. Með fyrri eiginkonu sinni, Maríu Barböru Bach, átti hann sjö börn og með þeirri síðari, Önnu Magdalenu Wilcke, eignaðist hann 13. Af tuttugu börnum tónskáldsins dóu alls tíu í æsku.
Þrír synir Bachs voru kunn tónskáld og stóð faðirinn í skugga þeirra í lifanda lífi. Wilhelm Friedemann Bach (1710-84) var elsti sonur Bachs, hann var kunnur orgelleikari. Carl Philipp Emanuel Bach (1714-88) lék tónlist við hirð Friðriks mikla og samdi fjölmörg píanóverk. Johann Christian Bach (1735-82) var yngsti sonur tónskáldsins, hann hefur verið nefndur enski Bach eða Lundúna-Bach þar sem hann bjó í Lundúnum.
Á meðal þekktra verka eftir Bach má nefnda Jóhannesarpassíuna, Jólaóratoríuna og Brandenborgarkonsertana.Heimildir og mynd
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Britannica
- Enchanted Learning
- Spectrum: Home and School Network
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.