Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Getur segulorka leyst orkuvandamálin, og eru til upplýsingar um rannsóknir á því?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Leó Kristjánsson (1943-2020)

Svarið er nei, eftir því sem við vitum best. --- Í fyrsta lagi er segulorka tæmanleg auðlind en ekki endurnýjanleg eins og orka fallvatna. Um segulorkuna gildir hið fornkveðna að eyðist það sem af er tekið. Það er allsendis óvíst að við kærðum okkur um að eyða segulorkunni með þeim afleiðingum sem það hefði, jafnvel þótt við kynnum einhverjar hentugar aðferðir til þess. --- Í öðru lagi sýnist okkur að segulorkan sé alltof lítil til þess að nýting hennar mundi breyta neinu.

Hér ber væntanlega að skilja orðið "segulorku" svo að átt sé við orku sem tengist seglum og segulsviði. Í seglum og segulsviði er vissulega fólgin tiltekin orka umfram það sem væri ef járnið væri ekki segulmagnað eða ef ekkert segulsvið væri á viðkomandi stað. Þessa orku er meira að segja oft hægt að reikna út eða áætla. Hins vegar er ekki þar með sagt að unnt sé, æskilegt eða hagkvæmt að virkja hana, það er að segja að breyta henni í aðrar orkumyndir sem menn gætu nýtt sér í umsvifum sínum.


Segulorka er tæmanleg auðlind en ekki endurnýjanleg eins og orka fallvatna.

Kannski verður einhvern tímann í framtíðinni hægt að afsegla járn með þeim hætti að orka ynnist við það. Hætt er þó við að snúningasamt yrði að gera þetta í stórum stíl og lítið kæmi í aðra hönd. Það er væntanlega þess vegna sem fáum hefur dottið í hug að reyna þetta svo að okkur sé kunnugt.

Eins væri til dæmis hægt að hugsa sér að unnt væri að afsegla jörðina með því draga smám saman úr rafstraumunum í iðrum jarðar sem halda segulsviðinu við. En þá hlyti sú spurning að gera illilega vart við sig, hvort slíkt væri æskilegt eða hagkvæmt. Mennirnir hafa lagað sig að því að jörðin hafi segulsvið og nýtt sér það með ýmsu móti. Fuglar og önnur dýr gera það líka og yrði varla talið æskilegt að trufla þau með svo grimmilegum hætti. Það yrði til dæmis ekki lítil umhverfistruflun ef fuglar misstu ratvísi sína!

Hins vegar er tilbúið segulsvið notað sem geymsla fyrir orku í ýmsum raftækjum og tólum nú á dögum. Þegar við hleypum rafstraumi á spólu myndast segulsvið í henni og þar byggist upp orka. Við getum síðan látið spóluna skila þessari orku aftur til dæmis með því að raðtengja viðnám við hana. Straumurinn um spóluna minnkar þá smám saman en viðnámið hitnar. Orkan sem fólgin var í segulsviðinu í spólunni breytist í varmaorku í viðnáminu. En þetta er að sjálfsögðu ekki lausn á neinum orkuvandamálum því að við þurftum að nota orku í upphafi til að koma á rafstraumi í spólunni.

Til frekari rökstuðnings því sem hér hefur verið sagt höfum við gert grófa útreikninga sem benda til að segulorka í einum rúmmetra (ca. 8 tonnum) af járni sem er segulmagnað að mettun sé um 10kJ en það er álíka mikil orka og einn hraðsuðuketill notar á 5-10 sekúndum. Orkan í segulsviði jarðar sýnist okkur vera á borð við eina Sigölduvirkjun í 10 þúsund ár. Virkjun segulsviðsins yrði því skammgóður vermir fyrir mannkynið í heild.

Af því sem hér hefur verið sagt er vonandi ljóst að menn sjá ekki fyrir sér að segulorka muni leysa orkuvandamál. Það er væntanlega skýringin á því að engar verulegar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu.

Mynd:

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Leó Kristjánsson (1943-2020)

jarðeðlisfræðingur við Raunvísindastofnun

Útgáfudagur

5.9.2002

Spyrjandi

Jens Gíslason

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Leó Kristjánsson (1943-2020). „Getur segulorka leyst orkuvandamálin, og eru til upplýsingar um rannsóknir á því?“ Vísindavefurinn, 5. september 2002. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=284.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Leó Kristjánsson (1943-2020). (2002, 5. september). Getur segulorka leyst orkuvandamálin, og eru til upplýsingar um rannsóknir á því? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=284

Þorsteinn Vilhjálmsson og Leó Kristjánsson (1943-2020). „Getur segulorka leyst orkuvandamálin, og eru til upplýsingar um rannsóknir á því?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2002. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=284>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur segulorka leyst orkuvandamálin, og eru til upplýsingar um rannsóknir á því?
Svarið er nei, eftir því sem við vitum best. --- Í fyrsta lagi er segulorka tæmanleg auðlind en ekki endurnýjanleg eins og orka fallvatna. Um segulorkuna gildir hið fornkveðna að eyðist það sem af er tekið. Það er allsendis óvíst að við kærðum okkur um að eyða segulorkunni með þeim afleiðingum sem það hefði, jafnvel þótt við kynnum einhverjar hentugar aðferðir til þess. --- Í öðru lagi sýnist okkur að segulorkan sé alltof lítil til þess að nýting hennar mundi breyta neinu.

Hér ber væntanlega að skilja orðið "segulorku" svo að átt sé við orku sem tengist seglum og segulsviði. Í seglum og segulsviði er vissulega fólgin tiltekin orka umfram það sem væri ef járnið væri ekki segulmagnað eða ef ekkert segulsvið væri á viðkomandi stað. Þessa orku er meira að segja oft hægt að reikna út eða áætla. Hins vegar er ekki þar með sagt að unnt sé, æskilegt eða hagkvæmt að virkja hana, það er að segja að breyta henni í aðrar orkumyndir sem menn gætu nýtt sér í umsvifum sínum.


Segulorka er tæmanleg auðlind en ekki endurnýjanleg eins og orka fallvatna.

Kannski verður einhvern tímann í framtíðinni hægt að afsegla járn með þeim hætti að orka ynnist við það. Hætt er þó við að snúningasamt yrði að gera þetta í stórum stíl og lítið kæmi í aðra hönd. Það er væntanlega þess vegna sem fáum hefur dottið í hug að reyna þetta svo að okkur sé kunnugt.

Eins væri til dæmis hægt að hugsa sér að unnt væri að afsegla jörðina með því draga smám saman úr rafstraumunum í iðrum jarðar sem halda segulsviðinu við. En þá hlyti sú spurning að gera illilega vart við sig, hvort slíkt væri æskilegt eða hagkvæmt. Mennirnir hafa lagað sig að því að jörðin hafi segulsvið og nýtt sér það með ýmsu móti. Fuglar og önnur dýr gera það líka og yrði varla talið æskilegt að trufla þau með svo grimmilegum hætti. Það yrði til dæmis ekki lítil umhverfistruflun ef fuglar misstu ratvísi sína!

Hins vegar er tilbúið segulsvið notað sem geymsla fyrir orku í ýmsum raftækjum og tólum nú á dögum. Þegar við hleypum rafstraumi á spólu myndast segulsvið í henni og þar byggist upp orka. Við getum síðan látið spóluna skila þessari orku aftur til dæmis með því að raðtengja viðnám við hana. Straumurinn um spóluna minnkar þá smám saman en viðnámið hitnar. Orkan sem fólgin var í segulsviðinu í spólunni breytist í varmaorku í viðnáminu. En þetta er að sjálfsögðu ekki lausn á neinum orkuvandamálum því að við þurftum að nota orku í upphafi til að koma á rafstraumi í spólunni.

Til frekari rökstuðnings því sem hér hefur verið sagt höfum við gert grófa útreikninga sem benda til að segulorka í einum rúmmetra (ca. 8 tonnum) af járni sem er segulmagnað að mettun sé um 10kJ en það er álíka mikil orka og einn hraðsuðuketill notar á 5-10 sekúndum. Orkan í segulsviði jarðar sýnist okkur vera á borð við eina Sigölduvirkjun í 10 þúsund ár. Virkjun segulsviðsins yrði því skammgóður vermir fyrir mannkynið í heild.

Af því sem hér hefur verið sagt er vonandi ljóst að menn sjá ekki fyrir sér að segulorka muni leysa orkuvandamál. Það er væntanlega skýringin á því að engar verulegar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu.

Mynd:...