Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Verður Leoníta-loftsteinaregnið sýnilegt frá Íslandi, 18. nóvember?

Sævar Helgi Bragason

Svarið er tvímælalaust já, ef veður leyfir. Skömmu eftir miðnætti dagana 17. til 19. nóvember, þegar stjörnumerkið Ljónið er fyrir ofan sjóndeildarhringinn hér á landi, mun Leoníta-loftsteinaregnið, eða loftsteinadrífan, gera vart við sig. Talið er að regnið nái hámarki hjá okkur aðfaranótt 19. nóvember, milli klukkan þrjú og fimm um morguninn.



Í nóvember á hverju ári, fer jörðin í gegnum sveim loftsteina sem nefndir eru Leonítar og draga nafn sitt af stjörnumerkinu Leo eða Ljóninu. Ástæðan fyrir því er sú að geislapunktur loftsteinanna, það svæði þar sem loftsteinarnir virðast stefna frá, liggur í Ljónsmerkinu, eins og sjá má af myndinni hér að ofan. Leonítar sjást frá 15. til 20. nóvember en hámarkið er venjulega um 17. nóvember. Á þessu ári telja vísindamenn hins vegar að hámarkið verði 19. nóvember.

Uppruni Leonítanna er rakinn til lítillar halastjörnu, Temple-Tuttle, og á 33 ára fresti hafa mikil loftsteinaregn orðið hennar vegna. Loftsteinarnir sem við sjáum þá eru leifar halans á halastjörnunni sem jörðin síðan ferðast í gegnum. Mikill fjöldi Leoníta sáust árin 1799, 1833, 1866, 1966 og nú síðast 1999 og 2001. Fjöldinn hefur þó verið misjafn í gegnum tíðina, en heimildir frá árinu 1833 benda til þess að loftsteinaregnið þá hafi verið líkast snjókomu. Það ár vöknuðu margir aðfaranóttina 17. nóvember við öskur frá fólki sem taldi heimsendi á næsta leyti. Þann 17. nóvember, 1966, töldu menn allt að 100.000 Leoníta á einungis 40 mínútna tímabili.

Stundum gerist það að jörðin fer beint í gegnum loftsteinasveiminn. Þegar það gerist eru loftsteinasveimurinn mun þéttari. Í ár fer jörðin beint í gegnum tvö ólík loftsteinaský sem halastjarnan skildi eftir sig árin 1767 og 1866. Hún mun einnig fara nálægt skýjunum sem halastjarnan skildi eftir sig árin 1800 og 1833.

Þetta ár er síðasta árið í langan tíma sem braut jarðar liggur beint í gegnum loftsteinasveiminn. Í raun mun braut jarðar og halastjörnunnar Temple-Tuttle ekki raða sér svona vel upp fyrr en árin 2098 og 2131.

Loftsteinaregnin síðustu ár, frá 1999 til 2001, hafa valdið mönnum nokkrum vonbrigðum og því er allt eins búist við miklu regni í ár. Það gæti því orðið afar spennandi að fylgjast með þessum viðburði, því það er ekki á hverjum degi sem við verðum vitni af þúsundum loftsteinum á fáeinum klukkustundum. Fyrir þá sem ætla sér að fylgjast með á vísindalegan hátt er bent á vefsíður Space.com og stjörnufræðitímaritsins Sky & Telescope, en þar er að finna upplýsingar um hvernig best sé að fá sem mest út úr skoðuninni. En fyrir þá sem vilja einungis fylgjast með og njóta sýningarinnar er ráðlagt að klæða sig mjög vel, koma sér vel fyrir á dimmum stað undir teppi (ef til vill liggjandi á sólstól eða einhverju slíku), með eitthvað heitt að drekka við höndina og einfaldlega horfa til himinis. Slíkt getur verið mjög gefandi og fróðlegt en umfram allt skemmtilegt.

Við viljum þess vegna að endingu hvetja sem flesta til að fylgjast með Leonítunum. Fyrir áhugasama viljum við benda á að Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness áformar að halda stutt erindi 18. nóvember næstkomandi um Leonítana og loftsteinaskoðun. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðu félagsins.

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

13.11.2002

Spyrjandi

Sturlaugur Garðarsson
f. 1984

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Verður Leoníta-loftsteinaregnið sýnilegt frá Íslandi, 18. nóvember?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2002. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2854.

Sævar Helgi Bragason. (2002, 13. nóvember). Verður Leoníta-loftsteinaregnið sýnilegt frá Íslandi, 18. nóvember? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2854

Sævar Helgi Bragason. „Verður Leoníta-loftsteinaregnið sýnilegt frá Íslandi, 18. nóvember?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2002. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2854>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Verður Leoníta-loftsteinaregnið sýnilegt frá Íslandi, 18. nóvember?
Svarið er tvímælalaust já, ef veður leyfir. Skömmu eftir miðnætti dagana 17. til 19. nóvember, þegar stjörnumerkið Ljónið er fyrir ofan sjóndeildarhringinn hér á landi, mun Leoníta-loftsteinaregnið, eða loftsteinadrífan, gera vart við sig. Talið er að regnið nái hámarki hjá okkur aðfaranótt 19. nóvember, milli klukkan þrjú og fimm um morguninn.



Í nóvember á hverju ári, fer jörðin í gegnum sveim loftsteina sem nefndir eru Leonítar og draga nafn sitt af stjörnumerkinu Leo eða Ljóninu. Ástæðan fyrir því er sú að geislapunktur loftsteinanna, það svæði þar sem loftsteinarnir virðast stefna frá, liggur í Ljónsmerkinu, eins og sjá má af myndinni hér að ofan. Leonítar sjást frá 15. til 20. nóvember en hámarkið er venjulega um 17. nóvember. Á þessu ári telja vísindamenn hins vegar að hámarkið verði 19. nóvember.

Uppruni Leonítanna er rakinn til lítillar halastjörnu, Temple-Tuttle, og á 33 ára fresti hafa mikil loftsteinaregn orðið hennar vegna. Loftsteinarnir sem við sjáum þá eru leifar halans á halastjörnunni sem jörðin síðan ferðast í gegnum. Mikill fjöldi Leoníta sáust árin 1799, 1833, 1866, 1966 og nú síðast 1999 og 2001. Fjöldinn hefur þó verið misjafn í gegnum tíðina, en heimildir frá árinu 1833 benda til þess að loftsteinaregnið þá hafi verið líkast snjókomu. Það ár vöknuðu margir aðfaranóttina 17. nóvember við öskur frá fólki sem taldi heimsendi á næsta leyti. Þann 17. nóvember, 1966, töldu menn allt að 100.000 Leoníta á einungis 40 mínútna tímabili.

Stundum gerist það að jörðin fer beint í gegnum loftsteinasveiminn. Þegar það gerist eru loftsteinasveimurinn mun þéttari. Í ár fer jörðin beint í gegnum tvö ólík loftsteinaský sem halastjarnan skildi eftir sig árin 1767 og 1866. Hún mun einnig fara nálægt skýjunum sem halastjarnan skildi eftir sig árin 1800 og 1833.

Þetta ár er síðasta árið í langan tíma sem braut jarðar liggur beint í gegnum loftsteinasveiminn. Í raun mun braut jarðar og halastjörnunnar Temple-Tuttle ekki raða sér svona vel upp fyrr en árin 2098 og 2131.

Loftsteinaregnin síðustu ár, frá 1999 til 2001, hafa valdið mönnum nokkrum vonbrigðum og því er allt eins búist við miklu regni í ár. Það gæti því orðið afar spennandi að fylgjast með þessum viðburði, því það er ekki á hverjum degi sem við verðum vitni af þúsundum loftsteinum á fáeinum klukkustundum. Fyrir þá sem ætla sér að fylgjast með á vísindalegan hátt er bent á vefsíður Space.com og stjörnufræðitímaritsins Sky & Telescope, en þar er að finna upplýsingar um hvernig best sé að fá sem mest út úr skoðuninni. En fyrir þá sem vilja einungis fylgjast með og njóta sýningarinnar er ráðlagt að klæða sig mjög vel, koma sér vel fyrir á dimmum stað undir teppi (ef til vill liggjandi á sólstól eða einhverju slíku), með eitthvað heitt að drekka við höndina og einfaldlega horfa til himinis. Slíkt getur verið mjög gefandi og fróðlegt en umfram allt skemmtilegt.

Við viljum þess vegna að endingu hvetja sem flesta til að fylgjast með Leonítunum. Fyrir áhugasama viljum við benda á að Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness áformar að halda stutt erindi 18. nóvember næstkomandi um Leonítana og loftsteinaskoðun. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðu félagsins.

...