Uglan var eitt af kennitáknum viskugyðjunnar Aþenu í grískri goðafræði. Aþena átti að sögn að hafa hrifist af hátíðlegu og íbyggnu yfirbragði uglunnar og þess vegna gert hana að sínu kennitákni.
Aþena var einnig stríðsgyðja, gyðja handiðnar og skynsemi. Hún var líka verndari grísku borgarinnar Aþenu. Öll grísku goðin áttu sín kennitákn. Kennitákn Seifs, æðsta guðsins á Ólympíu, voru örn og þrumufleygur.
Kennitákn guðanna áttu oft að tákna persónuleika þeirra. Hinn útsmogni hefði til dæmis getað haft að kennitákni snák eða slöngu því þær eru taldar útsmognar, samanber til dæmis kristnu söguna af höggorminum sem lét Evu bragða á forboðnu aldini. Kennitáknin eru líka merki um krafta viðkomandi guðs eða gyðju. Kennitákn sjávarguðs eða gyðju gat verið fiskur, höfrungur, hvalur eða eitthvað annað sem tengist sjó. Gyðjur tónlistar gætu haft að kennitákni hljóðfæri eða eitthvað annað sem tengist tónlist.
Heimild og mynd- Ulrika Andersson, Hver eru kennitákn grísku goðanna?
- The Owl Pages.
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.