Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Smættun (e. reduction) er þegar hugtak eða kenning er skýrð eða skilgreind með öðru hugtaki eða kenningu sem er talin liggja henni til grundvallar. Tæmandi grein er gerð fyrir lögmálum á einu sviði með lögmálum á öðru sviði eða ákveðnum hlut eða fyrirbæri lýst sem fyrirbæri á öðru sviði. Dæmi um setningar sem fela í sér smættun eru “Ljós er rafsegulbylgjur” og “Manneskjan er safn sameinda.”
Smættarkenning eða smættarhyggja (e. reductionism) um ákveðinn hlut eða ákveðna tegund fyrirbæra er sú kenning að viðkomandi fyrirbæri séu smættanleg. Með öðrum orðum er smættarhyggja um A sú kenning að hægt sé að skipta út staðhæfingum um A fyrir staðhæfingar um B. Smættarhyggja getur snúið að ýmiss konar hlutum og mismunandi gerðir smættarhyggju þurfa ekki að eiga margt sameiginlegt annað en þetta grundvallarmynstur. Meðal annars er til smættarhyggja af ýmsum gerðum um vísindi, smættarhyggja um félagsleg fyrirbæri og smættarhyggja um hugarferli.
Sem dæmi um smættarhyggju um vísindi má nefna kenningu svokallaðra rökfræðilegra raunhyggjumanna, eða pósitívista, heimspekihreyfingar sem náði hámarki sínu um miðja 20. öld, um að allar vísindagreinar væru smættanlegar í eðlisfræði. Pósitívistar töldu að öllu því sem vísindin fjölluðu um mætti á endanum lýsa með lögmálum eðlisfræðinnar og það sem stæðist ekki það próf ætti ekki að teljast til vísinda. Hugmyndin var til að mynda sú að það sem félagsvísindin fjalla um væri smættanlegt í hegðun einstaklinga sem aftur væri smættanleg í taugaferli í líkamanum sem væru svo smættanleg í efnafræðileg ferli sem enn væru smættanleg á svið eðlisfræðinnar.
Segja má að þessi vísindalega smættarhyggja pósitívistanna hafi verið eins víðtæk og mögulegt er, enda aðhylltust þeir líka víðtæka smættarhyggju á öðrum sviðum. Þannig töldu pósitívistar að allar merkingarbærar staðhæfingar væru smættanlegar í staðhæfingar um það sem sannreyna má með skynreynslu og rökfræðilegar klifananir.
Smættarhyggja þarf að sjálfsögðu ekki að vera jafn víðtæk og hjá rökfræðilegum raunhyggjumönnum og vel er hægt að hafa til dæmis þá skoðun að efnafræði sé smættanleg í eðlisfræði án þess að telja að félagsvísindi séu smættanleg í raunvísindi.
Þegar talað er um smættarhyggju um mannshugann er yfirleitt átt við annað af tvennu. Annars vegar er átt við svokallaða atferlishyggju (e. behaviorism) en samkvæmt henni eru hugarferli á borð við gleði og sársauka ekkert umfram þá hegðun sem viðkomandi einstaklingar sýna. Hins vegar, og kannski oftar nú á dögum, er átt við svokallaða smættarefnishyggju (e. reductive materialism) en samkvæmt henni er hugarferli, til dæmis gleði, ekkert annað en ákveðið ferli í heila og miðtaugakerfi.
Smættarhyggja snýst oft um að smætta ákveðið fyrirbæri í hluta sína þannig að leitast er við að skipta staðhæfingum um heildina út fyrir staðhæfingar um hlutana sem hún byggist upp af. Andstæða slíkrar smættarhyggju kallast heildarhyggja (e. holism). Samkvæmt heildarhyggju gildir eitthvað um heildina sem gildir ekki um hluta hennar og þannig er ekki hægt að gera fullnægjandi grein fyrir heildinni með því að lýsa hlutum hennar. Heildin hefur eitthvað til að bera umfram hluta sína. Sem dæmi um heildarhyggju má nefna kenningar Karl Marx og Émile Durkheims um að hegðun hópa lúti ákveðnum lögmálum sem hegðun einstaklinga lýtur ekki. Smættarhyggja í félagsvísindum er því sú kenning að hegðun hópa sé smættanleg í hegðun einstaklinga.
Eins og dæmin hér að ofan sýna getur smættarkenning fjallað um nánast hvað sem er. Það sem helst má alhæfa um smættarhyggju er að hún felur í sér ákveðna leið til að skilgreina eða hugsa um hina ýmsu hluti. Kannski má segja að þegar sagt er að eitthvað sé “ekkert annað en” eitthvað annað séu allar líkur á að um smættun sé að ræða.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er smættarkenning?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2002, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2859.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 13. nóvember). Hvað er smættarkenning? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2859