Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru urriðar í Veiðivötnum af sama stofni og urriðar í Þingvallavatni?

Þegar ísöld lauk fyrir tólf þúsund árum og jökulhellan hopaði, þá hélt urriðinn (Salmo trutta) norður á bóginn og nam land í aurvötnum sem mynduðust þegar jöklar bráðnuðu. Erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að þetta landnám gerðist í tvennu lagi. Landris og aðrar jarðfræðilegar breytingar á landslagi hafa síðan orðið til þess að urriðar í Þingvallavatni og Veiðivötnum einangruðust landfræðilega.

Urriðar í Þingvallavatni og Veiðivötnum eru taldir vera afsprengi sjóbirtinga af fyrra landnámi tegundarinnar. Þeir eru semsagt skyldir og það hefur verið staðfest með erfðafræðilegum rannsóknum. Það sem einkennir þessa stofna, umfram ættingja þeirra á láglendi, er hraður vöxtur og síðbúinn kynþroski sem leiðir til þess að fiskurinn nær háum aldri og mikilli stærð. Urriðinn í Veiðivötnum er talinn ná 40 cm lengd og verða um 1 kg að þyngd áður en hann verður kynþroska. Það gerist þegar hann er á bilinu 7 til 9 ára gamall.Vistfræðilega er tegund hópur einstaklinga sem getur æxlast saman og átt frjótt afkvæmi en af hverri tegund eru aftur til margir stofnar. Fiskistofn er tilgreindur sem hópur einstaklinga sem hrygnir á ákveðnum stað og á tilteknum tíma og æxlast ekki í neinum mæli við aðra hópa sömu tegundar.

Segja má að urriðar í Veiðivötnum og í Þingvallavatni séu upprunalega af sama stofni fiskanna sem lögðu yfir hafið í lok ísaldarinnar en hafi snemma orðið fyrir æxlunarlegri einangrun vegna landfræðilegra hindrana og mismunandi lífsskilyrða. Vegna þessa hafa þeir smám saman aðlagað sig að ólíkum aðstæðum í vötnunum tveimur og þannig orðið að mismunandi stofnum.

Heimildir og mynd
  • Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson, Fiskar í ám og vötnum, Landvernd, Reykjavík 1996.
  • Loftur Atli Eiríksson og fleiri, Fluguveiðar á Íslandi, Íslendingasagnaútgáfan, Reykjavík 2001.
  • Össur Skarphéðinsson, Urriðadans, Mál og menning, Reykjavík 1996.
  • Veiðivötn á Landmannaafrétti

Útgáfudagur

20.11.2002

Spyrjandi

Þórólfur Sveinsson

Höfundur

sjávarútvegsfræðingur

Tilvísun

Kristján Freyr Helgason. „Af hverju eru urriðar í Veiðivötnum af sama stofni og urriðar í Þingvallavatni? “ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2002. Sótt 24. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=2880.

Kristján Freyr Helgason. (2002, 20. nóvember). Af hverju eru urriðar í Veiðivötnum af sama stofni og urriðar í Þingvallavatni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2880

Kristján Freyr Helgason. „Af hverju eru urriðar í Veiðivötnum af sama stofni og urriðar í Þingvallavatni? “ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2002. Vefsíða. 24. jún. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2880>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Karl G. Kristinsson

1953

Karl G. Kristinsson er prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að útbreiðslu og áhættuþáttum sýklalyfjaónæmis, pneumókokkum, pneumókokkasýkingum og áhrifum bólusetninga á þær, sýkingum af völdum streptókokka af flokki A og erfðafræði þeirra.