Kaþólska kirkjan tekur menn í dýrlingatölu eftir ákveðna rannsókn á verðleikum manna. Rannsóknin er framkvæmd eftir reglum sem hafa verið til síðan á 10. öld. Reglurnar voru síðast endurskoðaðar 1983 af Jóhannesi Páli II páfa. Það nefnist að „kanónísera” þegar menn eru settir á dýrlingaskrá kaþólsku kirkjunnar.
Kanónísering hefst eftir dauða hins trúaða kaþólikka og þá er dýrlingshæfni hans er rannsökuð af næsta biskup. Nefnd guðfræðinga í Vatíkaninu metur skýrslu biskupsins og þegar hún er samþykkt, lýsir páfinn því yfir að hinn látni sé blessaður, eða „helgur maður”. Ef hinn látni var ekki píslarvottur verður að koma fram sönnun á því að tvö kraftaverk hafi átt sér stað, eftir dauða hans, fyrir milligöngu hans frá himnaríki. Þá getur páfinn tekið hann í dýrlingatölu, kanóníserað hann. Ef hinn látni var píslarvottur og helgur maður, þarf aðeins að sanna eitt kraftaverk áður en hann er gerður dýrlingur.
Til er einn íslenskur dýrlingur, Þorlákur Þórhallsson sem Þorláksmessa er kennd við. Að auki telst Jón Ögmundsson helgur maður.
Heimildir og mynd:- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Um dýrlinga
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.