Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðin „ófreskja” og „skrímsl[i]” eru ekki vísindaleg hugtök. Í Íslenskri orðabók stendur að ófreskja merki „hræðileg skepna”. Orðið tengist líka hinu dulræna og yfirnáttúrulega, „ófreski” er skyggni eða skyggnigáfa. Ófreskjur tilheyra því frekar heimi bókmennta, trúarbragða og dulspeki en vísinda.
Í bókmenntum og kvikmyndum er hægt að greina á milli tvenns konar ófreskja eftir því hvaða viðbrögð þau vekja með sögupersónum. Önnur á heima í ævintýrum og goðsögum. Þar á hún sinn sess, er náttúruleg og eðlileg í augum sögupersóna, og gjarnan þannig að lesandinn/áhorfandinn óskar sér eða lætur sem að hún sé til. Grýla er gott dæmi um slíka ófreskju.
Hin gerðin býr í heimi hrollvekjunnar og er óeðlileg á einhvern hátt og skapar viðbjóð með sögupersónum. Fjölmörg dæmi um slíkar ófreskjur er að finna í hryllingsmyndum og nægir að nefna Frankenstein-skrímslið, varúlfa, vampírur, allskyns stökkbreytla og önnur þvílík kvikindi. Ekki má þó gleyma því að í flestum tilfellum býr einhverskonar rökfræði að baki eðli skrímslanna, hvort sem hún á sér stoð til dæmis í goðafræði eða vísindalegu brjálæði.
Þrátt fyrir að vísindin marki ófreskjum bás ímyndunaraflsins, er þó ein grein raunvísinda sem hefur þær að viðfangsefni. Hún nefnist 'cryptozoology' á ensku sem snara mætti sem duldýrafræði á íslensku. (Þórbergur Þórðarson hefði líklega kallað greinina skrímslafræði!) Duldýrafræði er ekki kennd í skólum og er heldur litin hornauga af „alvöru” vísindamönnum. En duldýrafræði er svið sem fræðimenn, til dæmis líffræðingar og dýrafræðingar, geta snúið sér að eftir almennt (eða sérhæft) nám, ef þeir hafa áhuga á ófreskjum.
Bókstaflega merkir 'cryptozoology' „rannsókn falinna dýra” og er tiltölulega ný grein, hefur aðeins verið til síðan á seinni hluta 20. aldar. Verkefni fræðigreinarinnar er að rannsaka dýralíf sem venjuleg vísindi hafa afskrifað vegna skorts á sönnunum og er aðeins til í óstaðfestum sögusögnum eða á óskýrum myndum. Markmiðið er að finna vísindalegar sannanir fyrir tilvist slíkra skepna sem um leið myndu færast úr flokki duldýrafræðinnar yfir í hefðbunda dýralíffræði. Heimildir um ófreskjur eru margar hverjar staðfestar en teljast ekki vera vísindalegar sannanir. Um leið og staðfest sönnun fæst fyrir tilveru ófreskju hættir hún að vera ófreskja.
Undir duldýrafræðigreinina falla dýr sem alls ekki eru ófreskjur en allar ófreskjur teljast til dulinna dýra. Mörg dæmi eru til um dýr sem enginn hafði hugmynd að væru til en skutu svo óvænt upp kollinum. Meðal frægra slíkra má nefna pandabjörninn og górilluapann, dýr sem aðeins hafa verið þekkt vísindalega í rúma öld. Einnig má nefna dýr sem talin hafa verið útdauð, eins og fiskinn coelacanth (á íslensku bláfiskur) en hann fannst sprækur á lífi eftir að hafa verið „fjarverandi” í um 65 milljón ár.
Frægasta viðfangsefni duldýrafræðinnar nú á dögum er líklega Stórifótur, hinn meinti norður-ameríski mannapi, en skammt á eftir kemur alvöru ófreskja, Loch Ness skrímslið. Loch Ness skrímslið er sígilt dæmi um ófreskju, dýr sem á alls ekki heima í viðkomandi vistkerfi. Við Íslendingar eigum okkar Lagarfljótsorm, en líklega er Loch Ness skrímslið það dulda dýr sem hvað oftast hefur verið myndað, jafnvel kvikmyndað, og til er ógrynni frásagna meintra sjónarvotta. Myndirnar af skrímslinu hafa yfirleitt reynst falsaðar en umræðan er enn í fullum gangi og útskýringa leitað. Helstu tilgátur um Loch Ness skrímslið hljóða upp á að það sé forsöguleg risaeðla, forsögulegur hvalur, eða jafnvel óvenju stór styrja. Kannski að einhver tilgátanna reynist rétt en þangað til á Loch Ness skrímslið heima í veröld dulrænna fyrirbrigða ásamt öllum hinum ófreskjunum, líkt og geimverur, álfar og draugar.
Ófreskjur tengjum við venjulega dýrum en orðið hefur líka verið notað yfir menn. Sirkusum, á árum áður, fylgdu gjarnan skrímslasýningar, svonefnd 'freak show'. Þar voru til sýnis óvenjuleg dýr en einnig fólk sem á einhvern hátt var frábrugðið „venjulegu” fólki. Dvergar, risar, skeggjaðar konur voru algeng fyrirbrigði en vinsælust voru mannleg skrímsli, fólk með allskyns meðfædda útlitsgalla, til dæmis títuprjónshausar (á ensku 'pinheads') og því um líkt. Yfirleitt var lítið gert út á andlega eða líkamlega hæfileika þessa fólks, skrímslasýningarnar þóttu niðrandi og hafa þess vegna lagst af. Skrímslasýningarnar reyndust þó oft vera athvarf, sá hluti heimsins þar sem „ófreskjurnar” gátu náð sáttum við útlit sitt og unnið fyrir sér á viðurkenndan hátt. Í þessu samhengi hefur náttúran alltaf gefið af sér ófreskjur, hvort sem um menn eða dýr eða ræða. Hvort við notum það orð yfir erfðafræðilega galla, lýtur lögmálum samfélagsins fremur en líffræðinnar.
Frægastur mannófreskjanna er líklega Fílamaðurinn. Hans rétta nafn var John Merrick og undir ófrýnilegri ásjónu leyndist hinn eðlilegasti maður eins og sjá má í mynd David Lynchs The Elephant Man. Myndin er gott dæmi um hvernig áherslan í nútímanum hefur færst frá líkömum mannlegra ófreskja yfir á hið andlega svið. Nútímaófreskjan er andlegt skrímsli, rað- eða fjöldamorðingi, oftast hin venjulegasta í útliti. Hitler og Stalín eru oft kallaðir ófreskjur eða skrímsli, og ein vinsælasta persóna nútímakvikmynda er Hannibal Lecter. Ómennska ofangreindra er þó oft gefin til kynna með líkamlegum hætti. Yfirskegg Hitlers hefur orðið að einkennistákni ómennskunnar sem enginn karlmaður lætur sjá sig með nema í gríni. Hin fræga gríma Lecters gerir hann líka að skrímsli (eins og sjá má á myndinni hér að ofan). Tengslin milli andlegrar og líkamlegrar ófreskju eru þvi enn sterk þótt á þeim hafi slaknað.
Heimildir og myndir:
Loren Coleman og Jerome Clark, Cryptozoology A to Z: The Encyclopedia of Loch Monsters, Sasquatch, Chupacabras, and Other Authentic Mysteries of Nature, Fireside, New York 1999.
Íslensk Orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002.
David J. Skal, The Monster Show: A Cultural History of Horror, Plexus, London 1993.
Unnar Árnason. „Eru til einhverjar staðfestar heimildir um ófreskjur?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2002, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2897.
Unnar Árnason. (2002, 23. nóvember). Eru til einhverjar staðfestar heimildir um ófreskjur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2897
Unnar Árnason. „Eru til einhverjar staðfestar heimildir um ófreskjur?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2002. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2897>.