Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:37 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:16 • Síðdegis: 22:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:58 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna fara kristnir menn aðeins eftir sumum ákvæðum Gamla testamentisins?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019) og Gunnlaugur A. Jónsson

Það er forn kristin regla að lesa Biblíuna fyrst og fremst í ljósi Jesú Krists. Einn forn höfundur orðaði regluna á þessa leið: „Nýja testamentið liggur hulið í Gamla testamentinu. Gamla testamentið opnast í Nýja testamentinu.“ Það er ljóst af lestri Nýja testamentisins að Jesús kom með nýja túlkun á boðum og fyrirmælum Gamla testamentisins og tefldi fram gegn þeirri túlkun sem tíðkaðist um daga hans.

Jesús lét sig meira skipta andann í lögmáli Drottins en einstök boðorð. Og andinn í lögmálinu er að hans mati kærleikur, elska. Þess vegna dró Jesús merkingu allra ákvæða Gamla testamentisins saman í tvöfalda kærleiksboðorðið: „Elska skalt þú Drottin Guð þinn af allri sálu þinni, öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og elska skalt þú náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þessi boðorð eru raunar bæði til í Gamla testamentinu en eru þar aðskilin.



Í Nýja testamentinu eru elskan til Guðs og náungans sameinuð á skýrari hátt en í Gamla testamentinu. Hvað það þýðir blasir til dæmis við í dæmisögu Jesú af miskunnsama Samverjanum. Einstök boðorð bönnuðu prestum og levítum að snerta lík og saurga sig á blóði. Þess vegna gengu þeir framhjá manninum sem lá særður við veginn. Samverjinn hirti hins vegar ekki um einstök boðorð og sinnti heldur ekki um rótgróinn fjandskap milli Gyðinga og Samverja er bauð honum að skipta sér ekki af særðum Gyðingi. Þvert á móti horfði Samverjinn á neyð mannsins og leysti úr henni og þá breytni mat Jesús rétta.

Boðorðið um skilyrðislausan kærleika stendur þar með ofar öllum einstökum boðorðum. Þetta kom líka fram í afstöðu Jesú til helgi hvíldardagsins. Hann læknaði oft á hvíldardegi vegna þess að neyð fólks krefðist meira af mönnum en ákvæði um helgi hvíldardagsins. „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna en ekki maður vegna hvíldardagsins!“ sagði hann meðal annars(Markúsarguðspjall 2. kapítuli, 27. vers). Þá lýsti hann líka alla fæðu hreina og afnam þar með ákvæði Gamla testamentisins um fæðuforskriftir (sjá Markúsarguðspjall 7.19).

Í ljósi þessa hafa kristnir menn álitið að þeir yrðu að túlka öll ákvæði í lögmáli Gamla testamentisins í ljósi Krists og boðorðsins um kærleika. Þess vegna hafa kristnir menn almennt haft þá afstöðu til veraldlegra mála að þar skuli til þess bær veraldleg yfirvöld setja lög og framkvæma og skuli kristnir menn ganga fram í hlýðni við rétt lög samfélagsins og því aðeins standa gegn lögunum að þau gangi í berhögg við kærleikskröfu lögmálsins því „framar ber að hlýða Guði en mönnum“ (Postulasagan 5.29).

Mynd: The Boston Globe

Höfundar

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.11.2002

Spyrjandi

Þorsteinn Thorarensen

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019) og Gunnlaugur A. Jónsson. „Hvers vegna fara kristnir menn aðeins eftir sumum ákvæðum Gamla testamentisins?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2002, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2915.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019) og Gunnlaugur A. Jónsson. (2002, 28. nóvember). Hvers vegna fara kristnir menn aðeins eftir sumum ákvæðum Gamla testamentisins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2915

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019) og Gunnlaugur A. Jónsson. „Hvers vegna fara kristnir menn aðeins eftir sumum ákvæðum Gamla testamentisins?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2002. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2915>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna fara kristnir menn aðeins eftir sumum ákvæðum Gamla testamentisins?
Það er forn kristin regla að lesa Biblíuna fyrst og fremst í ljósi Jesú Krists. Einn forn höfundur orðaði regluna á þessa leið: „Nýja testamentið liggur hulið í Gamla testamentinu. Gamla testamentið opnast í Nýja testamentinu.“ Það er ljóst af lestri Nýja testamentisins að Jesús kom með nýja túlkun á boðum og fyrirmælum Gamla testamentisins og tefldi fram gegn þeirri túlkun sem tíðkaðist um daga hans.

Jesús lét sig meira skipta andann í lögmáli Drottins en einstök boðorð. Og andinn í lögmálinu er að hans mati kærleikur, elska. Þess vegna dró Jesús merkingu allra ákvæða Gamla testamentisins saman í tvöfalda kærleiksboðorðið: „Elska skalt þú Drottin Guð þinn af allri sálu þinni, öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og elska skalt þú náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þessi boðorð eru raunar bæði til í Gamla testamentinu en eru þar aðskilin.



Í Nýja testamentinu eru elskan til Guðs og náungans sameinuð á skýrari hátt en í Gamla testamentinu. Hvað það þýðir blasir til dæmis við í dæmisögu Jesú af miskunnsama Samverjanum. Einstök boðorð bönnuðu prestum og levítum að snerta lík og saurga sig á blóði. Þess vegna gengu þeir framhjá manninum sem lá særður við veginn. Samverjinn hirti hins vegar ekki um einstök boðorð og sinnti heldur ekki um rótgróinn fjandskap milli Gyðinga og Samverja er bauð honum að skipta sér ekki af særðum Gyðingi. Þvert á móti horfði Samverjinn á neyð mannsins og leysti úr henni og þá breytni mat Jesús rétta.

Boðorðið um skilyrðislausan kærleika stendur þar með ofar öllum einstökum boðorðum. Þetta kom líka fram í afstöðu Jesú til helgi hvíldardagsins. Hann læknaði oft á hvíldardegi vegna þess að neyð fólks krefðist meira af mönnum en ákvæði um helgi hvíldardagsins. „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna en ekki maður vegna hvíldardagsins!“ sagði hann meðal annars(Markúsarguðspjall 2. kapítuli, 27. vers). Þá lýsti hann líka alla fæðu hreina og afnam þar með ákvæði Gamla testamentisins um fæðuforskriftir (sjá Markúsarguðspjall 7.19).

Í ljósi þessa hafa kristnir menn álitið að þeir yrðu að túlka öll ákvæði í lögmáli Gamla testamentisins í ljósi Krists og boðorðsins um kærleika. Þess vegna hafa kristnir menn almennt haft þá afstöðu til veraldlegra mála að þar skuli til þess bær veraldleg yfirvöld setja lög og framkvæma og skuli kristnir menn ganga fram í hlýðni við rétt lög samfélagsins og því aðeins standa gegn lögunum að þau gangi í berhögg við kærleikskröfu lögmálsins því „framar ber að hlýða Guði en mönnum“ (Postulasagan 5.29).

Mynd: The Boston Globe...