Lengi vel var kirkjan Ægisif (Hagia Sophia) í Istanbúl (Konstanínópel, Miklagarði) stærsta kirkja heims. Keisari Rómaveldis, Konstantínus, lét byggja hana árið 325 og í 916 ár var hún notuð sem kirkja en sem moska í 481 ár eftir það. Kirkjan var gerð að safni árið 1934. Á sínum tíma var Ægisif ein stærsta bygging heims, aðeins Kínamúrinn og píramítarnir í Egyptalandi voru stærri.
Ægisif var stærsta kirkja í heimi þar til Péturskirkjan í Vatíkaninu var reist. Hún er höfuðkirkja rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Péturskirkjan er 213,4 m að lengd og 138 m á hæð. Júlíus 2. páfi lét brjóta niður hina eldri Péturskirkju frá 4. öld árið 1506, og hóf byggingu hinnar nýju Péturskirkju. Var hún tilbúin árið 1615 í tíð Páls 5. páfa. Upphaflega teikningar voru gerðar af D. Bramante og voru af miðjukirkju, í laginu eins og grískur kross. Seinna komu ýmsir arkitektar að hönnuninni, meðal annara G. da Sangallo, sem breytti lögun kirkjunnar úr grískum krossi í latneskan, Fra Giocondo og Rafael. Michelangelo hannaði hvolfþakið og á mestan heiður af endanlegu útliti kirkjunnar. Í Péturskirkju eru meðal annars grafir og minnisvarðar páfa, bronsstytta af Pétri postula og höggmynd Michelangelos, Pietá. Undir Péturskirkju hefur fundist stórt grafhýsi frá 2.- 4. öld en þar er talin vera gröf Péturs postula.
Allt þar til nýlega var St. Péturskirkjan stærst allra kirkna, eða þar til Frúarkirkjan í Yamoussoukro á Fílabeinsströndinni var reist. Hún er nú talin vera hæsta og stærsta kirkja heims. Frúarkirkjan var byggð á árunum 1986 til 1989 og vígð 10. september 1990, en hornsteinn hennar var blessaður af Jóhanni Páli 2. páfa 10. ágúst 1985. St. Péturskirkjan er lausleg fyrirmynd að byggingarlagi Frúarkirkjunnar í Yamoussoukro, sem er eins og latneskur kross, með hvolfþaki og súlnagöngum. Hæð kirkjunnar nær 149 metrum þegar hjálmhvelfingin ofan á hvolfþakinu er talin með, hvolfþakið sjálft er 60 m hátt og 90 m að þvermáli. Flatarmál kirkjunnar er 70.000 m2, allt lagt marmara, og alls getur hún hýst 18.000 sálir.

Að byggja glæsilegustu og stærstu kirkju í heimi var hugarsmíð þáverandi forseta Fílabeinsstrandarinnar, Felix Houphouet-Boigny, sem lét byggja hana í heimabæ sínum, Yamoussoukro. Þá borg hafði hann gert að höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar í stað Abidjan. Byggingarstarfið gekk ekki án gagnrýni því þrátt fyrir að efnahagur Fílabeinsstrandarinnar teljist í góðu ástandi á afrískan mælikvarða, þótti tilkostnaður alltof mikill miðað við það að aðeins um 1/5 þjóðarinnar, sem telur 15 milljón manns, er kristinn og kaþólikkar líklega um helmingurinn af þeim. Hægt væri að koma öllum kaþólikkum Fílabeinsstrandarinnar (og fleiri til) fyrir á torginu innan við súlnagöngin sem umkringja kirkjuna! Heimildir og myndir:
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Mynd af Ægisif
- Um Ægisif
- Mynd og umfjöllun um Frúarkirkjuna
- Um Yamoussoukro og Frúarkirkjuna á Encyclopædia Britannica
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.