
Eins og getið er um í svari sömu höfunda við spurningunni Af hverju er leir við hveri mismunandi á litinn? eru helstu lofttegundirnar sem streyma upp á háhitasvæðum koltvísýringur og brennisteinsvetni, og á vissum svæðum einnig vetni. Tvær þær fyrrnefndu eru þyngri en andrúmsloftið og hafa því tilhneigingu til þess að setjast í lægðir í kyrru veðri. Brennisteinsvetnið er mjög varhugavert. Það er litlaus lofttegund með óþægilega lykt og flokkast undir eitraðar lofttegundir. Það er auk þess eldfimt. Eituráhrif brennisteinsvetnis eru eftirfarandi (ppm=milljónustu hlutar):
0,01-0,3 ppm | Lyktarmörk, lykt af lofttegundinni fer að finnast |
0,3 ppm | Getur valdið ógleði og höfuðverk, lykt greinileg |
0,1-0,7 ppm | Lyktarskyn minnkar |
0,7-7,0 ppm | Erting í augum og þreyta |
2,7-5,3 ppm | Lykt óþægileg og nokkuð sterk |
10-15 ppm | Mengunarmörk Vinnueftirlitsins |
10-20 ppm | Ertandi áhrif á augu |
20-33 ppm | Lykt sterk en ekki óþolandi |
50-100 ppm | Alvarlegur augnskaði, lyktarskyn hverfur á fáum mínútum |
150-250 ppm | Lyktarskyn lamast |
300-500 ppm | Lungnabjúgur, lífshættulegt ástand |
500-1000 ppm | Sterk áhrif á taugakerfi, öndunarlömun |
1000-2000 ppm | Maður hnígur samstundir niður, öndunarlömun |