Heitið djöflaskötur nær bæði yfir ætt brjóskfiska, Mobulidae, og eina tegund þeirrar ættar, Manta birostris, sem er hin eiginlega djöflaskata og er stærst sinnar ættar.
Djöflaskötur hafa allt að 7 metra uggahaf og geta orðið 1300 kg á þyngd. Þær nærast á svifi (krabbadýrum og seiðum) og lifa einkum í heitum sjó. Ekki er nákvæmlega vitað um útbreiðslu djöflaskötunnar eða fjölda.
Djöflaskötur hafa langa, vænglaga eyrugga sem stundum ná alveg fram fyrir haus og eru til þess að beina fæðunni í munninn.
Heimildir og mynd:- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Tiscali Reference
- Cayman.org
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.