Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Hvað er erfðamengun?

Sigurður Guðjónsson

Margar tegundir lífvera mynda staðbundna stofna. Stofnar þessir eru oft vel erfðafræðilega aðgreindir frá öðrum slíkum stofnum. Sá munur stafar af erfðafræðilegri einangrun og náttúruvali. Þannig verða stofnar aðlagaðir að því umhverfi sem þeir búa við og gerist sú aðlögun með náttúruvali.

Ef við tökum laxfiska sem dæmi er stofnamyndun vel þekkt hjá þeim. Atlantshafslax á Íslandi greinist í marga stofna og segja má að í hverri á sé sérstakur stofn og fleiri en einn í stærri vatnakerfum. Margvíslega aðlögun má sjá hjá laxi í mismunandi ám. Til dæmis er hrygningartími misjafn á milli stofna og hrygnir lax í hlýjum ám síðar en lax í kaldari ám. Þannig stillir laxinn hrygningu í tíma svo að seiði klekist á réttum tíma í ánni sumarið eftir. Mikilvægt er þá að seiðin finni næga fæðu eftir klakið.

Göngutími laxaseiða til sjávar er misjafn sem og margt annað í atferli og lífsferli laxins. Hér á landi hefur þessi þróun átt sér stað síðan ísöld lauk fyrir um það bil 10.000 árum. Grundvöllur stofnamyndunar hjá laxi er hin mikla ratvísi hans, en lax kemur aftur til hrygningar úr hafi á þann stað sem hann ólst upp á.

Erfðablöndun (e. genetic mixing) er talin mjög lítil í náttúrunni og má ekki verða mjög mikil svo að stofnaaðgreining brotni niður og einungis einn stofn verði til. En maðurinn getur gripið inn í gang náttúrunnar til dæmis með því að sleppa fiski eða missa hann úr eldisstöð út í náttúruna.

Ef framandi stofn kemur í miklum mæli og títt í á og hrygnir þar með heimastofninum glatar heimastofninn sérstöðu sinni. Áhrifin eru þau að heimastofninn með sínum erfðaaðlögunum hverfur sem slíkur og eftir er stofn sem er vanhæfari til að lifa við þau skilyrði sem þar ríkja. Lax getur jafnvel algerlega horfið úr ánni. Sýnileg áhrif þurfa þó ekki að koma strax fram, heldur geta komið fram í kjölfar fátíðra umhverfisatburða svo sem hafíss, flóða, breytinga á hafstraumum eða þegar óvenju kalt er í ári. Því tala sumir um erfðamengun (e. genetic pollution), það er óæskilegar erfðir koma með framandi stofni og mikilvægar erfðir heimastofns glatast.

Þegar dýrategund er tekin í eldi fer fram annað og oft minna val í eldinu en í náttúrunni. Eldisumhverfi er yfirleitt fábreyttara en gengur og gerist úti í náttúrunni. Einnig eru valdir einstaklingar sem vel þrífast í eldinu og oft eru fáir foreldar notaðir til undaneldis. Eftir jafnvel eina kynslóð í eldi getur hluti af erfðamenginu glatast og er það kallað erfðatæring (e. genetic erosion). Með mörgum kynslóðum í eldi eykst hættan á erfðatæringu og þarf að huga að því ef til dæmis fiskur úr eldi er notaður til að rækta upp á eða vatn. Þannig eru villtir stofnar yfirleitt með mikla erfðabreidd meðan svo er ekki hjá eldisstofnum.

Þegar erfðabreyttar plöntur eru notaðar til ræktunar er ákveðin hætta á að þær æxlist með villtum plöntum sömu tegundar eða skyldra tegunda og getur þá hið erfðabreytta erfðaefni borist út í náttúruna. Er það annað form af erfðamengun og mikið í umræðu víða um lönd.

Mynd: Trinity College Dublin - Department of Genetics

Höfundur

fiskifræðingur - framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar

Útgáfudagur

9.12.2002

Spyrjandi

Guðmundur Þórðarson

Tilvísun

Sigurður Guðjónsson. „Hvað er erfðamengun?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2002. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2946.

Sigurður Guðjónsson. (2002, 9. desember). Hvað er erfðamengun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2946

Sigurður Guðjónsson. „Hvað er erfðamengun?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2002. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2946>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er erfðamengun?
Margar tegundir lífvera mynda staðbundna stofna. Stofnar þessir eru oft vel erfðafræðilega aðgreindir frá öðrum slíkum stofnum. Sá munur stafar af erfðafræðilegri einangrun og náttúruvali. Þannig verða stofnar aðlagaðir að því umhverfi sem þeir búa við og gerist sú aðlögun með náttúruvali.

Ef við tökum laxfiska sem dæmi er stofnamyndun vel þekkt hjá þeim. Atlantshafslax á Íslandi greinist í marga stofna og segja má að í hverri á sé sérstakur stofn og fleiri en einn í stærri vatnakerfum. Margvíslega aðlögun má sjá hjá laxi í mismunandi ám. Til dæmis er hrygningartími misjafn á milli stofna og hrygnir lax í hlýjum ám síðar en lax í kaldari ám. Þannig stillir laxinn hrygningu í tíma svo að seiði klekist á réttum tíma í ánni sumarið eftir. Mikilvægt er þá að seiðin finni næga fæðu eftir klakið.

Göngutími laxaseiða til sjávar er misjafn sem og margt annað í atferli og lífsferli laxins. Hér á landi hefur þessi þróun átt sér stað síðan ísöld lauk fyrir um það bil 10.000 árum. Grundvöllur stofnamyndunar hjá laxi er hin mikla ratvísi hans, en lax kemur aftur til hrygningar úr hafi á þann stað sem hann ólst upp á.

Erfðablöndun (e. genetic mixing) er talin mjög lítil í náttúrunni og má ekki verða mjög mikil svo að stofnaaðgreining brotni niður og einungis einn stofn verði til. En maðurinn getur gripið inn í gang náttúrunnar til dæmis með því að sleppa fiski eða missa hann úr eldisstöð út í náttúruna.

Ef framandi stofn kemur í miklum mæli og títt í á og hrygnir þar með heimastofninum glatar heimastofninn sérstöðu sinni. Áhrifin eru þau að heimastofninn með sínum erfðaaðlögunum hverfur sem slíkur og eftir er stofn sem er vanhæfari til að lifa við þau skilyrði sem þar ríkja. Lax getur jafnvel algerlega horfið úr ánni. Sýnileg áhrif þurfa þó ekki að koma strax fram, heldur geta komið fram í kjölfar fátíðra umhverfisatburða svo sem hafíss, flóða, breytinga á hafstraumum eða þegar óvenju kalt er í ári. Því tala sumir um erfðamengun (e. genetic pollution), það er óæskilegar erfðir koma með framandi stofni og mikilvægar erfðir heimastofns glatast.

Þegar dýrategund er tekin í eldi fer fram annað og oft minna val í eldinu en í náttúrunni. Eldisumhverfi er yfirleitt fábreyttara en gengur og gerist úti í náttúrunni. Einnig eru valdir einstaklingar sem vel þrífast í eldinu og oft eru fáir foreldar notaðir til undaneldis. Eftir jafnvel eina kynslóð í eldi getur hluti af erfðamenginu glatast og er það kallað erfðatæring (e. genetic erosion). Með mörgum kynslóðum í eldi eykst hættan á erfðatæringu og þarf að huga að því ef til dæmis fiskur úr eldi er notaður til að rækta upp á eða vatn. Þannig eru villtir stofnar yfirleitt með mikla erfðabreidd meðan svo er ekki hjá eldisstofnum.

Þegar erfðabreyttar plöntur eru notaðar til ræktunar er ákveðin hætta á að þær æxlist með villtum plöntum sömu tegundar eða skyldra tegunda og getur þá hið erfðabreytta erfðaefni borist út í náttúruna. Er það annað form af erfðamengun og mikið í umræðu víða um lönd.

Mynd: Trinity College Dublin - Department of Genetics...