Já, kameljón finnast í eyðimörkum. Heimkynni tegundarinnar Chamaeleo calyptratus, á ensku ‘veiled chameleon’, eða blæjukameljón eins og mætti kalla hana, er í Jemen og suðurhluta Sádi-Arabíu. Í augum flestra tegunda kameljóna er eyðimörkin þó ekki kjörstaður því fætur kameljóna eru sérstaklega lagaðir til að klifra í trjám. Þar eltast þau við skordýr og stærri tegundir sækja jafnvel í smáfugla.
Einkenni kameljóna eru hliðflatur skrokkur, kambur á baki og löng, slímug tunga. Augun eru afar útstæð og hreyfast óháð hvort öðru.
Litaskipti kameljóna eru fræg en þau verða fyrir áhrif hita, birtu og geðbrigða, ekki vegna lita í umhverfinu eins og margir halda. Flest kameljón eru um 17-25 cm á lengd og þau finnast í Afríku, Vestur-Asíu, Indlandi og á Spáni.
Heimildir og mynd:- Kameljón á vef Encyclopædia Britannica
- Kameljón á vef Enchanted Learning
- Um blæjukameljón, algeng gæludýr
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.