Gíraffar eru hæstu dýr jarðarinnar. Karldýrin geta orðið rúmlega 4 metra há (20 fet). Hæðina má þakka löngum fótum gíraffans en hálsinn er líka óvenju langur, á lengd við fullorðinn mann. Merkilegt má telja að í hálsinum eru aðeins sjö hálsliðir, jafn margir og í okkur mönnunum. Hver liður er mjög langur sem hefur í för með sér að háls gíraffans er stirður og hann á erfitt með beygja sig niður eftir vatni.
Hæð gíraffans gerir honum kleift að ná til laufblaða hárra trjáa og hann getur því lifað góðu lífi á hálfþurrum svæðum eða staktrjáasléttum í Afríku, þar sem lítið er um gras og annan jarðargróður en nóg er af trjám. Gíraffinn jórtrar og sefur standandi.
Heimildir og mynd:- Íslensk alfræðiorðabók, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Um gíraffa á Encyclopædia Britannica
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.