Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig verða kórallar til?

Jón Már Halldórsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Kórallur er hart kalkkennt efni sem svonefnd kóralladýr mynda og hlaða utan um sig og gegnir hlutverki ytra stoðkerfis. Orðið kórallur er líka notað um kóralladýrin sjálf.

Kórallar tilheyra flokkinum Anthozoa en til hans telst einnig sæfjöður og nokkrir aðrir hópar holdýra. Hinir eiginlegu kórallar eru síðan flokkaðir í undirflokkanna Octocorallia (meðal annars gorgorian-kórallar, stundum kallaðir hyrndir kórallar) og Hexacorallia en til þess undirflokks heyrir meðal annars ættbálkurinn Scleractina eða steinkórallar upp á íslensku. Í þessum undirflokki eru ættbálkar sem byggja upp mikil kórallarif svo sem kórallarifið mikla við norðausturströnd Ástralíu en það er að mestu gert úr steinkóröllum.

Fjöldi tegunda í ættbálkum er mjög misjafn. Til ættbálks steinkóralla teljast yfir 1.000 tegundir, í ættbálki þyrnikóralla og svartkóralla (Antipatharia) eru 100 tegundir en í ættbálki blákóralla (Coenothecalia) er aðeins þekkt ein núlifandi tegund.

Mjúki hlutinn í kóralladýrinu nefnist sepi (polyp) og er sívalur að lögun. Neðri hlutinn er fastur við hart undirlag en á efri endanum er munnopið umlukið þreifiöngum. Sepinn skiptist í nokkur vefjalög og nefnist ysta vefjalagið epidermis. Hjá steinkóröllum eru það frumur í epidermis-laginu, sem staðsettar eru á neðri helmingi sepans og við neðra borð hans, sem seyta kalsíumkarbónat-samböndum (CaC3).

Skipta má hlutverki kalsíumkarbónatsins í þrennt. Það myndar undirlag sem dýrin standa á, það er byggingarefni í stoðgrind þeirra og er einnig mikilvæg vörn. Margar tegundir kóralla, til dæmis steinkórallar, lifa í sambýli og byggja þá allir separnir í sambýlinu upp stóran sameiginlegan kórall sem með tímanum getur orðið að kórallarifi.

Kóralladýr fjölga sér með því að spýta eggjum og sæðisfrumum út í vatnið umhverfis sig. Sepunum fjölgar líka oft með knappskoti. Separ steinkóralla eru yfirleitt ekki stórir, oftast frá 1-3 mm í þvermál. Hjá mörgum kóralladýrum sem lifa ein og sér en ekki í sambýli geta separnir þó orðið allt að 25 mm í þvermál.

Á meðan kórallasambýlið lifir seyta separnir kalsíum efnasamböndunum. Það gerist þó ekki jafnt yfir árið heldur fer það mjög eftir hitastigi hafsins. Birta og straumar hafa líka áhrif á vaxtarhraðann. Vaxtarhraðinn er misjafn milli tegunda en er gjarnan mældur í millimetrum á ári. Til dæmis getur vaxtarhraðinn hjá hnöttóttum kóröllum og diskkóröllum verið á bilinu 0,3 - 2 mm á ári.

Að seyta kalsíumkarbón efnasamböndum er víða þekkt meðal sjávarhryggleysingja, meðal annars hjá lindýrum (samlokur), rörmyndandi burstaormum (Sedentaria), mosadýrum (Bryozoa) og götungum (Foraminifera). Þegar dýrin drepast þá stendur þessi stoðgrind ein eftir og í tilviki sambýliskóralla verður eftir margþætt kalsíumkarbónatbygging, sem brotnar svo niður með tímanum.

Kórallabyggingar eru oft étnar af öðrum dýrum sem leggjast á kóralla hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi. Einnig eru ýmsir sjávarhryggleysingjar sem bora sig inn í kórallanna og skapa sér skjól fyrir ýmsum afræningjum. Þetta eru til dæmis ýmsar tegundir lindýra svo sem samlokur.



Stærsta kórallarif í heimi er hið mikla kóralrif undan austurströnd Ástralíu. Það er um 2.000 km á lengd og yfir 140 km á breidd og verður að teljast eitt magnaðasta og tegundaauðugasta vistkerfi jarðar. Það tekur kórallarif aldir eða árþúsundir að myndast og að öllum líkindum mynduðust helstu kórallarif sem við þekkjum í dag eftir lok síðustu ísaldar.

Í einu kórallarifi er oft að finna margar mismunandi tegundir kóralla sem gegna hver um sig sérstöku hlutverki í heildarbyggingu rifsins. Náttúrufræðingar nítjándu aldar tóku eftir ýmsum sérkennilegum atriðum í gerð kórallarifja, svo sem að þau koma fyrir á talsvert mismunandi sjávardýpi en ná samt ekki langt upp úr sjó. Charles Darwin (1809-1882) gerði skarplegar athuganir á kórallarifjum í frægri ferð sinni kringum hnöttinn með herskipinu Beagle (Veiðihundinum), og notaði þessar athuganir meðal annars þegar hann var að byggja upp þróunarkenninguna og leiða rök að henni.

Þess má að lokum geta að beyging orðsins kórallur hefur verið á reiki í íslensku, en hér hefur verið valin sú beyging sem mælt er með í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá árinu 2002. Orðið beygist samkvæmt þessu sem hér segir:
kórallur - kórall - kóralli - kóralls
kórallar - kóralla - kóröllum - kóralla
Þessi beyging er að okkar mati sjálfri sér samkvæm og jafnframt í samræmi við svipuð orð. Meðal annars gera íslenskir eðlisfræðingar sér far um að beygja orðið kristallur á sama hátt.

Heimild:

Barnes, Robert D. 1987. Invertebrate zoology 5th ed. Saunders College Publishing. Orlando. USA.

Mynd af kóröllum: unifr.ch

Mynd af dreifingu kórallarifja: SeaWorld.org

Höfundar

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

15.1.2003

Spyrjandi

Óþekktur spyrjandi

Tilvísun

Jón Már Halldórsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig verða kórallar til?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3004.

Jón Már Halldórsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 15. janúar). Hvernig verða kórallar til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3004

Jón Már Halldórsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig verða kórallar til?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3004>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig verða kórallar til?
Kórallur er hart kalkkennt efni sem svonefnd kóralladýr mynda og hlaða utan um sig og gegnir hlutverki ytra stoðkerfis. Orðið kórallur er líka notað um kóralladýrin sjálf.

Kórallar tilheyra flokkinum Anthozoa en til hans telst einnig sæfjöður og nokkrir aðrir hópar holdýra. Hinir eiginlegu kórallar eru síðan flokkaðir í undirflokkanna Octocorallia (meðal annars gorgorian-kórallar, stundum kallaðir hyrndir kórallar) og Hexacorallia en til þess undirflokks heyrir meðal annars ættbálkurinn Scleractina eða steinkórallar upp á íslensku. Í þessum undirflokki eru ættbálkar sem byggja upp mikil kórallarif svo sem kórallarifið mikla við norðausturströnd Ástralíu en það er að mestu gert úr steinkóröllum.

Fjöldi tegunda í ættbálkum er mjög misjafn. Til ættbálks steinkóralla teljast yfir 1.000 tegundir, í ættbálki þyrnikóralla og svartkóralla (Antipatharia) eru 100 tegundir en í ættbálki blákóralla (Coenothecalia) er aðeins þekkt ein núlifandi tegund.

Mjúki hlutinn í kóralladýrinu nefnist sepi (polyp) og er sívalur að lögun. Neðri hlutinn er fastur við hart undirlag en á efri endanum er munnopið umlukið þreifiöngum. Sepinn skiptist í nokkur vefjalög og nefnist ysta vefjalagið epidermis. Hjá steinkóröllum eru það frumur í epidermis-laginu, sem staðsettar eru á neðri helmingi sepans og við neðra borð hans, sem seyta kalsíumkarbónat-samböndum (CaC3).

Skipta má hlutverki kalsíumkarbónatsins í þrennt. Það myndar undirlag sem dýrin standa á, það er byggingarefni í stoðgrind þeirra og er einnig mikilvæg vörn. Margar tegundir kóralla, til dæmis steinkórallar, lifa í sambýli og byggja þá allir separnir í sambýlinu upp stóran sameiginlegan kórall sem með tímanum getur orðið að kórallarifi.

Kóralladýr fjölga sér með því að spýta eggjum og sæðisfrumum út í vatnið umhverfis sig. Sepunum fjölgar líka oft með knappskoti. Separ steinkóralla eru yfirleitt ekki stórir, oftast frá 1-3 mm í þvermál. Hjá mörgum kóralladýrum sem lifa ein og sér en ekki í sambýli geta separnir þó orðið allt að 25 mm í þvermál.

Á meðan kórallasambýlið lifir seyta separnir kalsíum efnasamböndunum. Það gerist þó ekki jafnt yfir árið heldur fer það mjög eftir hitastigi hafsins. Birta og straumar hafa líka áhrif á vaxtarhraðann. Vaxtarhraðinn er misjafn milli tegunda en er gjarnan mældur í millimetrum á ári. Til dæmis getur vaxtarhraðinn hjá hnöttóttum kóröllum og diskkóröllum verið á bilinu 0,3 - 2 mm á ári.

Að seyta kalsíumkarbón efnasamböndum er víða þekkt meðal sjávarhryggleysingja, meðal annars hjá lindýrum (samlokur), rörmyndandi burstaormum (Sedentaria), mosadýrum (Bryozoa) og götungum (Foraminifera). Þegar dýrin drepast þá stendur þessi stoðgrind ein eftir og í tilviki sambýliskóralla verður eftir margþætt kalsíumkarbónatbygging, sem brotnar svo niður með tímanum.

Kórallabyggingar eru oft étnar af öðrum dýrum sem leggjast á kóralla hvort sem þeir eru dauðir eða lifandi. Einnig eru ýmsir sjávarhryggleysingjar sem bora sig inn í kórallanna og skapa sér skjól fyrir ýmsum afræningjum. Þetta eru til dæmis ýmsar tegundir lindýra svo sem samlokur.



Stærsta kórallarif í heimi er hið mikla kóralrif undan austurströnd Ástralíu. Það er um 2.000 km á lengd og yfir 140 km á breidd og verður að teljast eitt magnaðasta og tegundaauðugasta vistkerfi jarðar. Það tekur kórallarif aldir eða árþúsundir að myndast og að öllum líkindum mynduðust helstu kórallarif sem við þekkjum í dag eftir lok síðustu ísaldar.

Í einu kórallarifi er oft að finna margar mismunandi tegundir kóralla sem gegna hver um sig sérstöku hlutverki í heildarbyggingu rifsins. Náttúrufræðingar nítjándu aldar tóku eftir ýmsum sérkennilegum atriðum í gerð kórallarifja, svo sem að þau koma fyrir á talsvert mismunandi sjávardýpi en ná samt ekki langt upp úr sjó. Charles Darwin (1809-1882) gerði skarplegar athuganir á kórallarifjum í frægri ferð sinni kringum hnöttinn með herskipinu Beagle (Veiðihundinum), og notaði þessar athuganir meðal annars þegar hann var að byggja upp þróunarkenninguna og leiða rök að henni.

Þess má að lokum geta að beyging orðsins kórallur hefur verið á reiki í íslensku, en hér hefur verið valin sú beyging sem mælt er með í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá árinu 2002. Orðið beygist samkvæmt þessu sem hér segir:
kórallur - kórall - kóralli - kóralls
kórallar - kóralla - kóröllum - kóralla
Þessi beyging er að okkar mati sjálfri sér samkvæm og jafnframt í samræmi við svipuð orð. Meðal annars gera íslenskir eðlisfræðingar sér far um að beygja orðið kristallur á sama hátt.

Heimild:

Barnes, Robert D. 1987. Invertebrate zoology 5th ed. Saunders College Publishing. Orlando. USA.

Mynd af kóröllum: unifr.ch

Mynd af dreifingu kórallarifja: SeaWorld.org...