Sólin Sólin Rís 09:59 • sest 17:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:19 • Sest 11:34 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:02 • Síðdegis: 18:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 12:21 • Síðdegis: 24:23 í Reykjavík

Hvað er raunverulegt?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Spurningin er svona í fullri lengd:
Hvað er raunverulegt og hver getur ákveðið hvað er raunverulegt og hvað ekki?
Orðið raunverulegt er gjarnan notað yfir allt sem er til og það sem er ekki til er þá ekki raunverulegt. Þetta dugar þó skammt sem svar við spurningunni enda liggur þá beint við að spyrja “Hvað er til?”. Við þeirri spurningu eru til margvísleg svör en þessum svörum má skipta í tvo flokka eftir því hvernig við skiljum spurninguna. Annars vegar má spyrja hvaða hlutir það eru sem eru til. Þannig má til dæmis spyrja hvort álfar og huldufólk séu til, guðir, geimverur og jólasveinar. Hins vegar má spyrja hvað átt er við með því að eitthvað “sé til”. Hvers eðlis er þessi tilvist sem eignuð er sumum hlutum en ekki öðrum? Svörin úr þessum tveimur flokkum geta svo verið skyld og ef til vill eru leiðirnar tvær til að skilja spurninguna ekkert annað en tvær hliðar á sama peningnum.

Samkvæmt hughyggju er öll tilvist huglæg þannig að það að vera til er það sama og að vera til í huga einhvers. Samkvæmt henni er því allt sem er til í hugum okkar raunverulegt. Önnur kenning, hluthyggja, gerir hins vegar greinarmun á því sem er aðeins til í hugum okkar og því sem er til utan þeirra eða óháð þeim.

Þegar spurt er hvort eitthvað sé raunverulegt, eða til “í raun og veru,” er oft átt við það hvort það sé til óháð hugsunum okkar. Þegar einhver spyr “eru draugar raunverulegir?” er til dæmis ólíklegt að hann eigi við það hvort til séu hugsanir um drauga eða hvort draugar séu til í hugum okkar, þar sem svarið við slíkri spurningu hlyti að blasa við þeim sem legði hana fram. Væntanlega vill viðkomandi fá að vita hvort draugar séu til óháð hugarheimi okkar.

Spyrjandinn spyr líka hver það er sem ákveður hvað er raunverulegt og hvað ekki. Hughyggjusinninn gæti kannski sagt að hver sem er geti ákveðið að gera eitthvað raunverulegt með því að hugsa um það. Svarið færi þó eftir því hvernig hughyggjan er útfærð. Hluthyggjusinninn mundi hins vegar svara því að það væri ekki undir okkar ákvörðunum komið hvað er raunverulegt og hvað ekki. Ef hluthyggjusinninn tryði á guðlegar verur gæti hann kannski sagt að það væru þær sem réðu hvað væri raunverulegt. Svo má auðvitað segja að stundum getum við gert hluti raunverulega með því að búa þá til. Allir hlutir sem búnir hafa verið til eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tíma aðeins verið til í hugum þeirra sem bjuggu þá svo til.

Nú skulum við skoða hina hliðina á peningnum: Hvaða hlutir eru það svo sem eru til? Svarið við þessu hlýtur að fara eftir því hver svarandinn er. Ef spurt er hvað er til frá sjónarhorni vísindanna má kannski segja að það sem er til séu efnislegir hlutir og það sem þeim fylgir. Ef við lítum til raunvísindanna sjáum við til dæmis að líffræðingar fjalla um lífverur af ýmsum stærðum og gerðum, jarðfræðingar um jörðina undir fótum okkar og efnafræðingar um eiginleika efna. Ef horft er til hugvísinda má nefna málfræðinga sem skoða tungumálið, bókmenntafræðinga sem rýna í bókmenntaverk og sagnfræðinga sem fjalla um atburði liðinna tíma og fólkið sem upplifði þá. Innan félagsvísindanna er svo mannleg hegðun skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.

Þótt þessi viðfangsefni vísindanna séu margvísleg eiga þau það sameiginlegt að við getum tengt þau reynsluheimi okkar á einn eða annan hátt, ýmist beint eða óbeint. Vissulega skynjum við ekki frumeindir eða þaðan af minni eindir en þær falla samt inn í sama kerfi og hlutirnir sem við skynjum beint. Þetta er það kerfi sem lýtur lögmálum náttúrunnar og er gjarnan kallað “efnisheimurinn”. Eins má benda á að það sem birtist okkur í bókmenntum fellur ekki endilega undir náttúrulögmál en það fellur samt inn í kerfið þar sem fjallað er um bókmenntirnar sem afrakstur mannshugans. Tengsl mannshugans við mannslíkamann nánar tiltekið eru svo ein af þeim ráðgátum sem vísindin leitast við að varpa ljósi á, meðal annars bæði innan heimspeki og sálarfræði.

Til að forðast misskilning er rétt að ítreka að það sem tengist mannlegri reynslu óbeint á ýmsa vegu getur líka verið viðfangsefni hinna ýmsu vísindagreina. Það er langt í frá að vísindi og fræði fáist aðeins við það sem okkar takmörkuðu skilningarvit ná að skynja. Sem dæmi má benda á að eðlisfræðingar fást við öreindir sem eru allt of smáar til að við getum skynjað þær, hagfræðingar tala um vöruskiptajöfnuð og verga þjóðarframleiðslu sem eru tæpast áþreifanlegir hlutir og heimspekingar velta því fyrir sér hvort hlutur sé aðeins safn eiginleika sinna eða eitthvað umfram það. Samt sem áður getum við fundið öllum þessum hlutum stað í sama kerfi og reynsla okkar fellur inn í og þar með höfum við tengt þessi ólíku viðfangsefni við náttúruna og skynreynslu okkar. Undantekningar frá þessu eru kannski rökfræði og stærðfræði en segja má að þær fjalli fremur um forsendur kerfisins en að þær falli inn í það.

Það sem er yfirnáttúrulegt er, samkvæmt skilgreiningu, það sem náttúrulögmál ná ekki yfir og fellur því ekki inn í það kerfi sem er viðfangsefni vísindanna. Því ætti að vera ljóst að spurningum um tilvist yfirnáttúrulegra fyrirbæra verður ekki svarað af hálfu vísindanna. Þetta þýðir ekki endilega að vísindamenn fullyrði að hið yfirnáttúrulega sé ekki til, heldur hitt að hið yfirnáttúrulega sé einfaldlega ekki innan þeirra verksviðs. Eðli málsins samkvæmt geta vísindin hvorki sannað né afsannað tilvist þess sem er yfirnáttúrulegt. Ef það félli inn í kerfi vísindanna væri það ekki yfir-náttúrulegt lengur.

Hægt er að tína til óendanlegan fjölda hluta sem hvorki er hægt að sanna né afsanna að séu til. Það er til dæmis alltaf mögulegt að heimurinn sé fullur af óskynjanlegum verum, að litlir ósýnilegir álfar hnupli þeim hlutum sem við týnum og að við séum ekkert annað en heilar í tilraunaglösum sem stjórnað er af einhverjum verum sem við getum ekki einu sinni ímyndað okkur.

Oftast lætur fólk þó duga að trúa á tilvist þeirra hluta sem það telur sig hafa einhvers konar vísbendingar um að séu til, hvort sem þær eru skynjanlegar, rökfræðilegar eða jafnvel byggðar á tilfinningum og innsæi, enda yrði tilveran æði flókin ef við ættum að fara að gera ráð fyrir öllum hugsanlegum möguleikum.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

16.1.2003

Spyrjandi

Ingólfur Arnar

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er raunverulegt?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2003. Sótt 4. febrúar 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=3016.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 16. janúar). Hvað er raunverulegt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3016

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er raunverulegt?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2003. Vefsíða. 4. feb. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3016>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er raunverulegt?
Spurningin er svona í fullri lengd:

Hvað er raunverulegt og hver getur ákveðið hvað er raunverulegt og hvað ekki?
Orðið raunverulegt er gjarnan notað yfir allt sem er til og það sem er ekki til er þá ekki raunverulegt. Þetta dugar þó skammt sem svar við spurningunni enda liggur þá beint við að spyrja “Hvað er til?”. Við þeirri spurningu eru til margvísleg svör en þessum svörum má skipta í tvo flokka eftir því hvernig við skiljum spurninguna. Annars vegar má spyrja hvaða hlutir það eru sem eru til. Þannig má til dæmis spyrja hvort álfar og huldufólk séu til, guðir, geimverur og jólasveinar. Hins vegar má spyrja hvað átt er við með því að eitthvað “sé til”. Hvers eðlis er þessi tilvist sem eignuð er sumum hlutum en ekki öðrum? Svörin úr þessum tveimur flokkum geta svo verið skyld og ef til vill eru leiðirnar tvær til að skilja spurninguna ekkert annað en tvær hliðar á sama peningnum.

Samkvæmt hughyggju er öll tilvist huglæg þannig að það að vera til er það sama og að vera til í huga einhvers. Samkvæmt henni er því allt sem er til í hugum okkar raunverulegt. Önnur kenning, hluthyggja, gerir hins vegar greinarmun á því sem er aðeins til í hugum okkar og því sem er til utan þeirra eða óháð þeim.

Þegar spurt er hvort eitthvað sé raunverulegt, eða til “í raun og veru,” er oft átt við það hvort það sé til óháð hugsunum okkar. Þegar einhver spyr “eru draugar raunverulegir?” er til dæmis ólíklegt að hann eigi við það hvort til séu hugsanir um drauga eða hvort draugar séu til í hugum okkar, þar sem svarið við slíkri spurningu hlyti að blasa við þeim sem legði hana fram. Væntanlega vill viðkomandi fá að vita hvort draugar séu til óháð hugarheimi okkar.

Spyrjandinn spyr líka hver það er sem ákveður hvað er raunverulegt og hvað ekki. Hughyggjusinninn gæti kannski sagt að hver sem er geti ákveðið að gera eitthvað raunverulegt með því að hugsa um það. Svarið færi þó eftir því hvernig hughyggjan er útfærð. Hluthyggjusinninn mundi hins vegar svara því að það væri ekki undir okkar ákvörðunum komið hvað er raunverulegt og hvað ekki. Ef hluthyggjusinninn tryði á guðlegar verur gæti hann kannski sagt að það væru þær sem réðu hvað væri raunverulegt. Svo má auðvitað segja að stundum getum við gert hluti raunverulega með því að búa þá til. Allir hlutir sem búnir hafa verið til eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tíma aðeins verið til í hugum þeirra sem bjuggu þá svo til.

Nú skulum við skoða hina hliðina á peningnum: Hvaða hlutir eru það svo sem eru til? Svarið við þessu hlýtur að fara eftir því hver svarandinn er. Ef spurt er hvað er til frá sjónarhorni vísindanna má kannski segja að það sem er til séu efnislegir hlutir og það sem þeim fylgir. Ef við lítum til raunvísindanna sjáum við til dæmis að líffræðingar fjalla um lífverur af ýmsum stærðum og gerðum, jarðfræðingar um jörðina undir fótum okkar og efnafræðingar um eiginleika efna. Ef horft er til hugvísinda má nefna málfræðinga sem skoða tungumálið, bókmenntafræðinga sem rýna í bókmenntaverk og sagnfræðinga sem fjalla um atburði liðinna tíma og fólkið sem upplifði þá. Innan félagsvísindanna er svo mannleg hegðun skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.

Þótt þessi viðfangsefni vísindanna séu margvísleg eiga þau það sameiginlegt að við getum tengt þau reynsluheimi okkar á einn eða annan hátt, ýmist beint eða óbeint. Vissulega skynjum við ekki frumeindir eða þaðan af minni eindir en þær falla samt inn í sama kerfi og hlutirnir sem við skynjum beint. Þetta er það kerfi sem lýtur lögmálum náttúrunnar og er gjarnan kallað “efnisheimurinn”. Eins má benda á að það sem birtist okkur í bókmenntum fellur ekki endilega undir náttúrulögmál en það fellur samt inn í kerfið þar sem fjallað er um bókmenntirnar sem afrakstur mannshugans. Tengsl mannshugans við mannslíkamann nánar tiltekið eru svo ein af þeim ráðgátum sem vísindin leitast við að varpa ljósi á, meðal annars bæði innan heimspeki og sálarfræði.

Til að forðast misskilning er rétt að ítreka að það sem tengist mannlegri reynslu óbeint á ýmsa vegu getur líka verið viðfangsefni hinna ýmsu vísindagreina. Það er langt í frá að vísindi og fræði fáist aðeins við það sem okkar takmörkuðu skilningarvit ná að skynja. Sem dæmi má benda á að eðlisfræðingar fást við öreindir sem eru allt of smáar til að við getum skynjað þær, hagfræðingar tala um vöruskiptajöfnuð og verga þjóðarframleiðslu sem eru tæpast áþreifanlegir hlutir og heimspekingar velta því fyrir sér hvort hlutur sé aðeins safn eiginleika sinna eða eitthvað umfram það. Samt sem áður getum við fundið öllum þessum hlutum stað í sama kerfi og reynsla okkar fellur inn í og þar með höfum við tengt þessi ólíku viðfangsefni við náttúruna og skynreynslu okkar. Undantekningar frá þessu eru kannski rökfræði og stærðfræði en segja má að þær fjalli fremur um forsendur kerfisins en að þær falli inn í það.

Það sem er yfirnáttúrulegt er, samkvæmt skilgreiningu, það sem náttúrulögmál ná ekki yfir og fellur því ekki inn í það kerfi sem er viðfangsefni vísindanna. Því ætti að vera ljóst að spurningum um tilvist yfirnáttúrulegra fyrirbæra verður ekki svarað af hálfu vísindanna. Þetta þýðir ekki endilega að vísindamenn fullyrði að hið yfirnáttúrulega sé ekki til, heldur hitt að hið yfirnáttúrulega sé einfaldlega ekki innan þeirra verksviðs. Eðli málsins samkvæmt geta vísindin hvorki sannað né afsannað tilvist þess sem er yfirnáttúrulegt. Ef það félli inn í kerfi vísindanna væri það ekki yfir-náttúrulegt lengur.

Hægt er að tína til óendanlegan fjölda hluta sem hvorki er hægt að sanna né afsanna að séu til. Það er til dæmis alltaf mögulegt að heimurinn sé fullur af óskynjanlegum verum, að litlir ósýnilegir álfar hnupli þeim hlutum sem við týnum og að við séum ekkert annað en heilar í tilraunaglösum sem stjórnað er af einhverjum verum sem við getum ekki einu sinni ímyndað okkur.

Oftast lætur fólk þó duga að trúa á tilvist þeirra hluta sem það telur sig hafa einhvers konar vísbendingar um að séu til, hvort sem þær eru skynjanlegar, rökfræðilegar eða jafnvel byggðar á tilfinningum og innsæi, enda yrði tilveran æði flókin ef við ættum að fara að gera ráð fyrir öllum hugsanlegum möguleikum.

...