.jpg)
Grænlandshákarl (Somniosus microcephalus).
Hákarlinn er grannvaxinn og sívalur. Haus er stuttur og digur, trjóna er stutt og snubbótt. Kjaftur er víður og með hvössum tönnum í mörgum röðum á skoltum. Tennur í efri skolti eru smáar og oddhvassar en breiðar og skásettar í neðra skolti. Innstreymisop eru í meðallagi stór. Augu eru smá. Tálknaop eru einnig smá. Bolur er langur. Uggar eru frekar smáir nema sporðuggi. Bakuggar eru tveir og er fremri bakuggi miðja vega milli eyrugga og kviðugga en aftari bakuggi er andspænis aftanverðum kviðuggum. Bakuggar eru gaddalausir en aðrar háfisktegundir sömu ættar á Íslandsmiðum eru allar með gadd í framanverðum bakuggum. Raufarugga vantar. Húðgaddar eru gisnirÁ sumrin er grænlandshákarlinn algengur á dýptarbilinu 180-730 metrar samkvæmt rannsóknum, en á veturna er hann nær yfirborðinu. Sérstaklega er líklegt að rekast á hann við ísröndina þar sem hann á það til að hremma sel ef heppnin er með honum. Það kemur mjög á óvart að grænlandshákarlinn skuli leggja sér til munns dýr á borð við smokkfisk, loðnu, lax, steinbít, hlýra og margar aðrar tegundir beinfiska og brjóskfiska, þar sem hann er ákaflega silalegur í hreyfingum. Að öllum líkindum veiðir hann úr launsátri enda eyðir hann megninu af lífi sínu liggjandi á hafsbotninum og bíður þess að eitthvert dýr syndi fram hjá. Þá tekur hákarlinn snöggt viðbragð og hremmir bráðina. Reyndar má segja að grænlandshákarlinn éti allt sem að kjafti kemur. Í maga hans hafa fundist leifar af smáhvölum, meðal annars hnísu og höfrungum, einnig marglyttur og sjófuglar. Að auki hafa einhverra hluta vegna fundist ýmis landdýr í maga grænlandshákarls, svo sem hundar, kettir og hross! Þess má einnig geta að hann sækir í hræ líkt og margar aðrar hákarlategundir, svo sem upptalningin hér að framan bendir til. Með hjálp afar næms þefskyns leitar hákarlinn uppi úldnandi bráð. Engar heimildir eru til um að grænlandshákarlinn hafi ráðist á menn. Fyrir utan manninn eru háhyrningar helstu óvinir grænlandshákarlsins, en þeir eiga það til að ráðast á einstaka hákarl og geta auðveldlega drepið hann. Á hornhimnu hákarlsins er algengt að finna smávaxið krabbadýr (copepoda) sem nefnist á latínu Ommatakoita elongata. Norskur sjávarlíffræðingur, Bjorn Berland að nafni, sýndi fram á að stór hluti hákarla (86%) sem veiddir voru undan ströndum Austur-Grænlands, voru með þessi krabbadýr í sjáöldrum sínum. Samkvæmt Berland býr krabbadýrstegundin yfir lífljómun, sem að hans mati laðar að sér dýr, og auðveldar hákarlinum að hremma bráð sem syndir nærri gini hans. Berland bendir á að um er að ræða samhjálp milli þessara tegunda en ekki sníkjulíferni krabbadýrsins á hákarlinum. Þetta tiltekna atriði gæti útskýrt af hverju hraðsyndar tegundir eins og lax lendir í kjaftinum á hákarlinum. Krabbadýrið laðar bráðina einfaldlega að kjafti hákarlsins. Mótrök hafa komið frá bandarískum líffræðingi, George Benz. Hann hefur sérhæft sig í sníkjudýrum sem lifa á hákörlum. Eftir rannsóknum Benz að dæma hefur krabbadýr þetta ekki lífljómunarhæfileika, sem veikir kenningu Berlands um veiðiatferli hákarlsins mjög. Frekari rannsóknir Benz og annars líffræðings, Boruzhincka að nafni, hafa sýnt að krabbadýrið eyðileggi hægt og sígandi hornhimnu hákarlsins og valdi meðal annars uppsöfnun utanfrumuvökva í hornhimnunni. Að þeirra mati er hér klárlega um sníkjulíferni að ræða. Kenning Benz er sú að veiðiaðferðir grænlandshákarlsins minni mjög á veiðiaðferðir krókódíla, það er að segja að hákarlinn geti synt mjög nálægt sjávarbakka þar sem nægjanlegt dýpi er, og gripið þaðan þurrlendisdýr sem ekki gá að sér, til dæmis hreindýr, en hreindýraskrokkar hafa fundist í maga hákarlsins. Ef þessi kenning Benz stenst, er hákarlinn langt í frá eins mikill silakeppur og menn hafa áður talið. Ekki er til nein vísindaleg sönnun fyrir þessu atferli grænlandshákarlsins en Benz byggir kenningu sína á sjónarvottum, nokkrum kanadískum náttúrufræðingum sem hafa dvalist lengi á heimskautasvæðum Kanada við rannsóknir. Lítið er vitað um æxlunarhætti grænlandshákarlsins enda fara þau atlot fram á miklu dýpi um vetur. Kvendýrið gýtur ungum sem eru við fæðingu um 40 cm á lengd og geta verið allt að 10 afkvæmi í einu goti.

Á sumrin er grænlandshákarlinn algengur á dýptarbilinu 180-730 metrar samkvæmt rannsóknum, en á veturna er hann nær yfirborðinu.
- Gunnar Jónsson, Íslenskir fiskar, 2. útg. aukin, Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1992
- Hagskýrslur Íslands: Útvegur 2001, Hagstofa Íslands, Reykjavík 2002
- Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir, 3.bindi, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1993
- Reefquest Expeditions
- Grand Manan & White Head Islands.
- expl9984 | Deep sea fish. A Greenland shark | Flickr. (Sótt 17.4.2018).