Hvað er sannleikur? Er hann það sem gerðist, hvernig atburðurinn er túlkaður eða hvernig við munum hann?Þessa spurningu má orða á ofurlítið annan hátt en hér er gert: Er sönn lýsing á atburði sú lýsing sem lýsir atburðinum, túlkar hann, eða gerir grein fyrir því hvernig munað er eftir honum? En þá lendir maður strax í þeim vanda að túlkun eða upprifjun eru hvort fyrir sig einhverskonar lýsing. Á endanum situr maður líklega uppi með eina spurningu: Hvað felst í sannri túlkun, sannri lýsingu eða sannri upprifjun á atburði? Hverjir eru eiginleikar túlkana, lýsinga og upprifjana sem leyfa okkur að segja að þær séu sannar frekar en ósannar? Til eru kenningar um hvað geri setningu sanna sem vísa til samhengis hennar við aðrar setningar eða annarra einkenna hennar. Ég ætla hinsvegar að sleppa öllum vangaveltum um slíkar kenningar og gera ráð fyrir að sannleikur setningar felist í einföldum hlut: Samsvörun hennar við það sem hún er um. Þannig er lýsing sönn, túlkun sönn, upprifjun sönn eða rétt ef það sem sagt er samsvarar atburðinum, eða hlutnum, eða því sem túlkunin, upprifjunin, lýsingin er um. En nú er augljóst að það er ekki sama hvort við erum að tala um túlkun, lýsingu eða upprifjun þegar við skerum úr um sannindi eða ósannindi. Ef ég set til dæmis fram túlkun á hegðun fólks sem er á ferli í kringum mig, þá legg ég skilning í athafnir þess sem kann að vera réttur eða rangur og í mörgum tilfellum kann að vera ómögulegt að skera úr um hvort tiltekin túlkun er sönn eða ósönn. Upprifjun er alltaf háð túlkun og því er hún ekki síður erfið að eiga við en túlkun. Þegar vel er að gáð er hætt við að lýsing sé sömu annmörkum háð: Stundum er auðvelt að skera úr um hvort lýsing er sönn eða ósönn, stundum er það erfitt eða jafnvel ókleift. Því er ekki hægt að svara spurningunni með því að velja einn kostinn af þremur: Hvað sannleikur er varðar eiginleika þess sem sagt er, hvort sem um er að ræða lýsingu, upprifjun eða túlkun, en það er engin leið að segja almennt eða fortakslaust að lýsing, túlkun eða upprifjun sé sannleikur. Um mörg svið veruleikans er lítils virði að gera sannleikann að helsta mælikvarða þess sem sagt er. Í vísindum er til dæmis iðulega verið að fást við kenningar sem eru sannanlegar einungis í ljósi tilrauna og reynslu. Annað hvort virka kenningarnar eða ekki. Þegar beitt er skýringarhugtökum er oft erfitt að halda því fram að ein setning sé sönn frekar en önnur því að hugtakið sjálft felur í sér hugmyndir um tengsl fyrirbæra hvers við annað sem er hluti skýringarinnar sjálfrar. Ef ég held því til dæmis fram að tunglið valdi sjávarföllum þá er ég að halda fram hugmynd um tengsl tveggja náttúrlegra fyrirbæra samkvæmt viðurkenndri hugmynd um möguleg tengsl á milli þeirra. Öll hugtök eru háð samhengi sínu, notkun og merkingarsviði og því hlýtur hver lýsing alltaf í einhverjum skilningi að byggjast á orðræðunni sem hún sprettur úr, ekki síður en umhverfi, atburðum eða hlutum sem hún er um. Innan trúarbragða á borð við kristni eru flókin hugtakakerfi notuð til að lýsa tengslum hins yfirnáttúrlega við jarðneskar verur. Þetta varðar meðal annars spurningar á borð við þá hvers konar hugsun eða hegðun samræmist kennisetningum kristninnar og hvað ekki. En augljóslega eru hugtök á borð við synd, náð Guðs og fleira merkingarlaus fyrir þeim sem ekki deila hugarheimi kristninnar. Á sama hátt sækja fullyrðingar og skýringar merkingu sína til viðeigandi orðræðu. Það er sama hver hún er og sama hve víðtæk: Engin orðræða er fastur hluti heimsins eða gefin fyrirfram. Þetta merkir ekki að sannleikurinn sé afstæður en það merkir að öll þekking er afstæð. Sannleikurinn er tvennt í senn: Annarsvegar sá hversdagslegi eiginleiki þess sem við höldum fram, trúum og förum eftir; hinsvegar óræður og næstum yfirnáttúrlegur hlutur: samsvörun þess sem sagt er við það sem er í raun og veru og sem er alveg óháð því sem sagt er.
Hvað er sannleikur?
Útgáfudagur
24.1.2003
Spyrjandi
Þormóður Símonarson
Tilvísun
Jón Ólafsson. „Hvað er sannleikur?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2003, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3053.
Jón Ólafsson. (2003, 24. janúar). Hvað er sannleikur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3053
Jón Ólafsson. „Hvað er sannleikur?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2003. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3053>.