Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hver er uppruni og merking orðasambandsins að vera með böggum hildar?

Orðasambandið að vera með böggum hildar merkir að ‘vera kvíðinn, áhyggjufullur’, til dæmis „Jón var með böggum hildar í nokkra daga áður en hann fór í bílprófið.“ Elstu dæmi um það í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru frá upphafi 19. aldar úr riti Guðmundar Jónssonar, Safn af íslenzkum orðskviðum (1830). Þetta er safn málshátta og orðtaka sem Guðmundur safnaði úr 18. aldar málsháttasöfnum. Þar er Guðmundur með annan málshátt sem hlýtur að tengjast hinum: Hann ann böggum Hildar, en Hildi ekki sjálfri.

Halldór Halldórsson (1954) gat sér þess til að að baki liggi týnd saga um einhverja Hildi og bagga hennar. Skýringin á að unna böggum Hildar væri þá að ágirnast eigur Hildar en láta sér fátt um konuna sjálfa. Hann taldi sennilegast að Hildur hefði verið förukona og að baggar hennar hefðu verið eigur hennar sem hún hafði áhyggjur af. Þannig hefði sambandið baggar Hildar fengið merkinguna ‘áhyggjur‘. En allt er þetta óljóst á meðan engin saga finnst.


Að baki orðasambandinu að vera með böggum Hildar gæti legið týnd saga um Hildi sem Halldór Halldórsson telur að hafi verið förukona. Baggar Hildar hefðu þá verið eigur hennar sem hún hafði áhyggjur af. Myndin er af konum í Kínahverfinu í San Franciso.

Hildur merkir í skáldamáli ‘bardagi, orrusta, viðureign’. Í Íslenskri orðabók (2002: 582) er orðasambandið að vera með böggum hildar sett undir flettuna hildur í þessari merkingu. Hugsunin er ef til vill að baggar orrustunnar séu áhyggjurnar af því hvernig fer.

Heimild:
  • Halldór Halldórsson. 1954. Íslenzk orðtök. Bls. 104–105. Reykjavík.

Mynd:

Útgáfudagur

9.5.2008

Spyrjandi

Ásgeir Ingvarsson
Magnús Axelsson
Fjóla Helgadóttir

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni og merking orðasambandsins að vera með böggum hildar?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2008. Sótt 21. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=30632.

Guðrún Kvaran. (2008, 9. maí). Hver er uppruni og merking orðasambandsins að vera með böggum hildar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30632

Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni og merking orðasambandsins að vera með böggum hildar?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2008. Vefsíða. 21. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30632>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gísli Pálsson

1949

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni.