
Núna er auðvitað nákvæmlega á þessari stundu, það er að segja þegar þetta er skrifað ... eða kannski alveg eins þegar þetta er lesið. Núna er eitt af þeim orðum sem kölluð hafa verið ábendingarorð (e. indexicals) og eru þeim eiginleikum gædd að merking þeirra ræðst af því hver segir þau, hvar og hvenær. Með öðrum orðum ræðst merking ábendingarorða af samhengi og aðstæðum. Meðal annarra slíkra orða má nefna hérna, ég, þú, hún, hann, þetta, í gær og reyndar. Að sjálfsögðu má segja um flest orð að samhengi og aðstæður hafi einhver áhrif á merkingu þeirra en þegar um ábendingarorð er að ræða má segja að merkingin sé með öllu óljós ef ekki er vitað um aðstæður þess sem þau mælir. Ef ég heyri til dæmis sagt “Ég er hér” gefur það mér nákvæmlega engar upplýsingar nema ég hafi einhverja hugmynd um hver það er sem talar og hvar viðkomandi er.
