Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða orð eiga Íslendingar yfir snjó?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Upphafleg spurning var á þessa leið:
Ínúítar eiga mörg orð yfir snjó, snjókomu og ís. Hvað eiga Íslendingar mörg, hver eru þau og hvernig er hægt að þekkja eina snjótegund frá annarri?
Oft er á það minnst að Grænlendingar eigi í máli sínu mörg orð um snjó. Það er mjög eðlilegt þar sem snjórinn er svo nátengdur daglegu lífi þeirra að þörfin á orðum er meiri en hjá öðrum þjóðum sem minna sjá af snjó. Þetta á við um margt annað í veðurfari og náttúru. Íslendingar eiga til dæmis fjölda orða um þoku, til dæmis brýla, brækja, dumba, móða, móska, mugga, skodda, sorti og ýmis fleiri, en þau eru ekki notuð jafnt um allt land enda þokan misalgeng eftir landshlutum.

Í íslensku eru til mörg orð um snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér áður fyrr, þegar fólk fór landshluta á milli ýmist gangandi eða á hestum, að lýsing á færi í snjó væri sem gleggst. Mjöll er notað um nýfallinn snjó og ef snjórinn er mjög laus í sér er talað um lausamjöll. Nýfallinn snjór er líka nefndur nýsnævi. Harðfrosin snjóbreiða er nefnd hjarn. Skari er notað ef efsta lag snjóbreiðu er frosið, og fari menn eða skepnur í gegnum lagið er talað um áfreða, brota, ísskel eða fastalæsing. Djúpur snjór er kallaður kafsnjór, kafald og kafaldi og smágert kafald kallast líka kafaldshjastur. Mjög blautur, djúpur snjór er stundum nefndur bleytuslag og hálfbráðinn snjór kallast krap og blotasnjó.

Él er skammvinn snjókoma oft með vindi og dimmt él er sums staðar kallað moldél. Snjógangur er éljagangur eða snjókoma með hléum en snjóhraglandi er kalsanæðingur með slyddu eða hagli og þekkist líka um það orðið snjóbörlingur. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk. Hríð er snjókoma í vindi og þykkt hríðarveður er fyrir norðan nefnt kaskahríð. Lenjuhríð þekkist einnig fyrir norðan um fremur litla hríð en blotahríð er slyddu- eða krapahríð. Ofankoma er notað um hvers kyns úrkomu en oftast um snjókomu, él og slyddu en ofanhríð er haft um mikla snjókomu án þess að það skafi. Smáúrkoma eða él er kallað fukt og þá er sagt að hann fukti.

Bylur er stormur með ákafri snjókomu, og einnig eru notuð um það kafaldsbylur og kafaldshríð en moldbylur er alveg svartabylur þannig að ekki sér út úr augum, í senn stormur, ofankoma og skafrenningur.

Skafrenningur er snjór, sem fýkur með jörðu, líka nefndur neðanbylur, skafald, skafkafald, snjófok, snjódrif og kóf. Fjúk, snjódríf, drift, fjúkburður og fýlingur eru orð notuð yfir skafrenning ef vindur er hægur. Skafbylur, skafhríð, skafmold og skafningur eru öll notuð um skafrenning í miklum vindi og fyrir vestan þekkist sviðringsbylur um hið sama.

Þegar ofan fellur mjög blautur snjór, sem oft er nær því að vera rigning, er talað um slyddu, bleytukafald, klessing eða slytting.

Af því sem nú hefur verið dregið saman má sjá að íslenska er rík af orðum sem lýsa snjó í lofti og á jörðu og án efa geta einhverjir bætt við þennan lista orðum sem mér eru ekki kunn eða ég man ekki eftir í svipinn. Ekki eru öll orðin notuð um allt land, sum eru staðbundin, það er þau eru aðeins notuð á ákveðnu svæði á landinu, en öll eru þau hluti af íslenskum orðaforða.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

27.1.2003

Spyrjandi

Sigurður Haraldsson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvaða orð eiga Íslendingar yfir snjó?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2003, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3068.

Guðrún Kvaran. (2003, 27. janúar). Hvaða orð eiga Íslendingar yfir snjó? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3068

Guðrún Kvaran. „Hvaða orð eiga Íslendingar yfir snjó?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2003. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3068>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða orð eiga Íslendingar yfir snjó?
Upphafleg spurning var á þessa leið:

Ínúítar eiga mörg orð yfir snjó, snjókomu og ís. Hvað eiga Íslendingar mörg, hver eru þau og hvernig er hægt að þekkja eina snjótegund frá annarri?
Oft er á það minnst að Grænlendingar eigi í máli sínu mörg orð um snjó. Það er mjög eðlilegt þar sem snjórinn er svo nátengdur daglegu lífi þeirra að þörfin á orðum er meiri en hjá öðrum þjóðum sem minna sjá af snjó. Þetta á við um margt annað í veðurfari og náttúru. Íslendingar eiga til dæmis fjölda orða um þoku, til dæmis brýla, brækja, dumba, móða, móska, mugga, skodda, sorti og ýmis fleiri, en þau eru ekki notuð jafnt um allt land enda þokan misalgeng eftir landshlutum.

Í íslensku eru til mörg orð um snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér áður fyrr, þegar fólk fór landshluta á milli ýmist gangandi eða á hestum, að lýsing á færi í snjó væri sem gleggst. Mjöll er notað um nýfallinn snjó og ef snjórinn er mjög laus í sér er talað um lausamjöll. Nýfallinn snjór er líka nefndur nýsnævi. Harðfrosin snjóbreiða er nefnd hjarn. Skari er notað ef efsta lag snjóbreiðu er frosið, og fari menn eða skepnur í gegnum lagið er talað um áfreða, brota, ísskel eða fastalæsing. Djúpur snjór er kallaður kafsnjór, kafald og kafaldi og smágert kafald kallast líka kafaldshjastur. Mjög blautur, djúpur snjór er stundum nefndur bleytuslag og hálfbráðinn snjór kallast krap og blotasnjó.

Él er skammvinn snjókoma oft með vindi og dimmt él er sums staðar kallað moldél. Snjógangur er éljagangur eða snjókoma með hléum en snjóhraglandi er kalsanæðingur með slyddu eða hagli og þekkist líka um það orðið snjóbörlingur. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk. Hríð er snjókoma í vindi og þykkt hríðarveður er fyrir norðan nefnt kaskahríð. Lenjuhríð þekkist einnig fyrir norðan um fremur litla hríð en blotahríð er slyddu- eða krapahríð. Ofankoma er notað um hvers kyns úrkomu en oftast um snjókomu, él og slyddu en ofanhríð er haft um mikla snjókomu án þess að það skafi. Smáúrkoma eða él er kallað fukt og þá er sagt að hann fukti.

Bylur er stormur með ákafri snjókomu, og einnig eru notuð um það kafaldsbylur og kafaldshríð en moldbylur er alveg svartabylur þannig að ekki sér út úr augum, í senn stormur, ofankoma og skafrenningur.

Skafrenningur er snjór, sem fýkur með jörðu, líka nefndur neðanbylur, skafald, skafkafald, snjófok, snjódrif og kóf. Fjúk, snjódríf, drift, fjúkburður og fýlingur eru orð notuð yfir skafrenning ef vindur er hægur. Skafbylur, skafhríð, skafmold og skafningur eru öll notuð um skafrenning í miklum vindi og fyrir vestan þekkist sviðringsbylur um hið sama.

Þegar ofan fellur mjög blautur snjór, sem oft er nær því að vera rigning, er talað um slyddu, bleytukafald, klessing eða slytting.

Af því sem nú hefur verið dregið saman má sjá að íslenska er rík af orðum sem lýsa snjó í lofti og á jörðu og án efa geta einhverjir bætt við þennan lista orðum sem mér eru ekki kunn eða ég man ekki eftir í svipinn. Ekki eru öll orðin notuð um allt land, sum eru staðbundin, það er þau eru aðeins notuð á ákveðnu svæði á landinu, en öll eru þau hluti af íslenskum orðaforða....