Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvers vegna þarf minna vatn í eggjasuðuvél eftir því sem eggin eru fleiri?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Spyrjandi hefur í huga eggjasuðuvélar sem hafa komið á markað á síðari árum og svo heppilega vill til að höfundur þessa svars á slíka vél og hefur hugsað út í þetta og rætt við fróða menn í kringum sig. En til fróðleiks fyrir lesendur sem hafa kannski ekki séð svona tæki er rétt að rifja upp grundvallaratriðin í notkun þess:
Í vélinni er grunn panna sem vatn er sett í. Stungið er gat á eggin með stuttum prjóni og þau síðan sett í sérstaka grind þar sem þau standa upp á endann með góðu bili milli sín, án þess að snerta vatnið. Yfir öllu saman er glær hálfkúluhjálmur eða -lok með opi á stærð við fingurgóm efst til að hleypa gufunni út. Eggjasuðunni lýkur þegar vatnið er búið og tækið slekkur þá á sér sjálft.

Tækinu fylgir mæliglas sem segir til um hversu mikið vatn eigi að nota, eftir því hversu harðsoðin eggin eiga að verða og eftir því hve mörg þau eru. Eins og við mátti búast á að nota því meira vatn sem eggin eiga að verða harðari. En hitt kemur kannski á óvart að það á að nota minna vatn eftir því sem eggin eru fleiri!
Skýring okkar á þessu er sú að vatn losnar úr eggjunum og kemur í staðinn fyrir hluta vatnsins sem sett er á pönnuna.

Eggin eru soðin í gufunni sem myndast og hún er við fastan hita, um 100 oC. Gufan fyllir rýmið undir lokinu og því sjóða eggin algerlega óháð hvert öðru; ef þau eru fá fer bara meiri orka til spillis. Þess vegna er suðutíminn líka einráður um það hversu harðsoðin eggin verða, rétt eins og þegar við sjóðum egg á venjulegan hátt í sjóðandi vatni.

Afköst eða afl rafhitarans í pönnunni eru föst þannig að hún sýður tiltekið vatnsmagn á tímaeiningu, sbr. svar sama höfundar við spurningunni Hve mikla varmaorku þarf til að hita 1 kg af vatni frá 0oC upp í 100oC? Tíminn sem það tekur að sjóða vatnið er í beinu hlutfalli við vatnsmagnið í kerfinu, undir lokinu. Orkan sem þarf til að sjóða vatnið sem er inni í egginu er jafnmikil og þarf til að sjóða jafnmikið vatn á pönnunni, og kemur frá sömu upptökum, vatnshitaranum. Ef ekki væri sett minna vatn á pönnuna þegar eggin eru fleiri mundi tækið sjóða meira vatn í heild og það mundi taka lengri tíma og eggin yrðu harðsoðnari.

Til þess að suða vatnsins inni í egginu verði eðlileg er nauðsynlegt að stinga gat á það eins og áður var lýst. Ef það væri ekki gert mundi þetta vatn þenjast út og leitast við að breytast í gufu og eggið mundi springa. Gatið opnar gufunni hins vegar greiða leið út úr egginu. Vert er að taka eftir því að ekki er þörf á þessu þegar eggin eru soðin í vatni því að þá leitar vatnið inni í þeim ekki út í sama mæli.

Því er svo enn við að bæta til frekari skýringar og rökstuðnings að það er býsna mikið af vatni í eggi, um það bil 75% af ætilegum hluta þess.

Höfundur þakkar Magnúsi Má Kristjánssyni og Birni Sigurði Gunnarssyni fróðlegar umræður um þetta svar.

Mynd: buildingequality.org

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

27.1.2003

Spyrjandi

Víðir Sigrúnarson

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna þarf minna vatn í eggjasuðuvél eftir því sem eggin eru fleiri?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2003. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3072.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 27. janúar). Hvers vegna þarf minna vatn í eggjasuðuvél eftir því sem eggin eru fleiri? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3072

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna þarf minna vatn í eggjasuðuvél eftir því sem eggin eru fleiri?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2003. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3072>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna þarf minna vatn í eggjasuðuvél eftir því sem eggin eru fleiri?
Spyrjandi hefur í huga eggjasuðuvélar sem hafa komið á markað á síðari árum og svo heppilega vill til að höfundur þessa svars á slíka vél og hefur hugsað út í þetta og rætt við fróða menn í kringum sig. En til fróðleiks fyrir lesendur sem hafa kannski ekki séð svona tæki er rétt að rifja upp grundvallaratriðin í notkun þess:

Í vélinni er grunn panna sem vatn er sett í. Stungið er gat á eggin með stuttum prjóni og þau síðan sett í sérstaka grind þar sem þau standa upp á endann með góðu bili milli sín, án þess að snerta vatnið. Yfir öllu saman er glær hálfkúluhjálmur eða -lok með opi á stærð við fingurgóm efst til að hleypa gufunni út. Eggjasuðunni lýkur þegar vatnið er búið og tækið slekkur þá á sér sjálft.

Tækinu fylgir mæliglas sem segir til um hversu mikið vatn eigi að nota, eftir því hversu harðsoðin eggin eiga að verða og eftir því hve mörg þau eru. Eins og við mátti búast á að nota því meira vatn sem eggin eiga að verða harðari. En hitt kemur kannski á óvart að það á að nota minna vatn eftir því sem eggin eru fleiri!
Skýring okkar á þessu er sú að vatn losnar úr eggjunum og kemur í staðinn fyrir hluta vatnsins sem sett er á pönnuna.

Eggin eru soðin í gufunni sem myndast og hún er við fastan hita, um 100 oC. Gufan fyllir rýmið undir lokinu og því sjóða eggin algerlega óháð hvert öðru; ef þau eru fá fer bara meiri orka til spillis. Þess vegna er suðutíminn líka einráður um það hversu harðsoðin eggin verða, rétt eins og þegar við sjóðum egg á venjulegan hátt í sjóðandi vatni.

Afköst eða afl rafhitarans í pönnunni eru föst þannig að hún sýður tiltekið vatnsmagn á tímaeiningu, sbr. svar sama höfundar við spurningunni Hve mikla varmaorku þarf til að hita 1 kg af vatni frá 0oC upp í 100oC? Tíminn sem það tekur að sjóða vatnið er í beinu hlutfalli við vatnsmagnið í kerfinu, undir lokinu. Orkan sem þarf til að sjóða vatnið sem er inni í egginu er jafnmikil og þarf til að sjóða jafnmikið vatn á pönnunni, og kemur frá sömu upptökum, vatnshitaranum. Ef ekki væri sett minna vatn á pönnuna þegar eggin eru fleiri mundi tækið sjóða meira vatn í heild og það mundi taka lengri tíma og eggin yrðu harðsoðnari.

Til þess að suða vatnsins inni í egginu verði eðlileg er nauðsynlegt að stinga gat á það eins og áður var lýst. Ef það væri ekki gert mundi þetta vatn þenjast út og leitast við að breytast í gufu og eggið mundi springa. Gatið opnar gufunni hins vegar greiða leið út úr egginu. Vert er að taka eftir því að ekki er þörf á þessu þegar eggin eru soðin í vatni því að þá leitar vatnið inni í þeim ekki út í sama mæli.

Því er svo enn við að bæta til frekari skýringar og rökstuðnings að það er býsna mikið af vatni í eggi, um það bil 75% af ætilegum hluta þess.

Höfundur þakkar Magnúsi Má Kristjánssyni og Birni Sigurði Gunnarssyni fróðlegar umræður um þetta svar.

Mynd: buildingequality.org...