Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Þekkist fíkn hjá dýrum?

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Þekkist fíkn hjá dýrum (þ.e. stjórnlaus neysla einhvers sem kemur þeim í annarlegt ástand og er þeim hættuleg)?
Ein saga barst höfundi til eyrna fyrir nokkrum árum, af kúreka nokkrum í Norður-Ameríku á 19. öld sem hélt björn sem gæludýr. Það væri ekki í frásögur færandi nema hvað bangsa þessum þótti fátt betra en bjór!

Þegar líða fer á haust á tempruðum svæðum jarðar, taka ber og aðrir ávextir að gerjast. Haustin eru einmitt hábjargræðistími villtra dýra á tempruðu svæðunum og þá keppast þau við að éta orkuríka ávexti til að safna varaforða fyrir veturinn. Skógardýr eiga því til að éta ofgnótt af slíkum gerjuðum ávöxtum og komast í vímu. Margar sögur eru til frá Skandinavíu um ölvaða elgi sem ráfa um skóga, eða bjarndýr sem liggja afvelta undir tré. Þó að þetta kunni að hljóma spaugilega, skapast oft mikil hætta þegar dýrin verða ölvuð. Oft hafa þau valdið alvarlegum slysum á fólki og tjóni á eignum. Kannski laðaðist bjórþyrsti bangsinn frá Norður-Ameríku að bragðinu af bjórnum fremur en ástandinu sem öldrykkjan olli, en um það er ekki gott að segja.
Að ölvunarástand þekkist meðal dýra, svarar þó ekki spurningunni um hvort fíklar finnist í þeirra röðum eður ei. Ærið oft finnst það hjá dýrum sem finnst meðal okkar mannfólksins. Eitt samfélagslega mikilvægt dæmi er samkynhneigð (sjá nánar í svari sama höfundar við spurningunni Geta dýr verið samkynhneigð, eins og fólk?) og hvers vegna þá ekki fíkn?

Á rannsóknarstofum hefur tekist að gera dýr að fíklum, svo hörðum að þau tóku fíkniefnið fram yfir mat og vatn. Við ættum því að geta gefið okkur þá staðreynd að fíkn sé til hjá dýrum. Hún drægi hinsvegar mjög úr hæfni þeirra í náttúrunni. Fíkinn skógarbjörn myndi til dæmis verða undir í baráttunni um fæðu og maka við önnur og heilbrigðari bjarndýr, eins og dýrin á rannsóknarstofunum urðu greinilega. Regla Darwins um náttúruval ætti því að koma í veg fyrir að fíkn erfist milli kynslóða, eða að minnsta kosti gera það ólíklegra.

Fíkniefni eru flestöll annað hvort búin til af manninum eða unnin af honum úr náttúrunni. Dýr hafa því ekki sama aðgang að slíkum efnum í verulegu magni eins og maðurinn nema fyrir milligöngu hans. Svarið við spurningunni má því einfalda í já, fíkn þekkist hjá dýrum, en hún er sjaldgæf í villtri náttúrunni og vímuástand virðist einstakt og jafnvel árstíðabundið atferli frekar en áunnin vani.

Um fíkn og vanabindandi efni má lesa frekar um í svari við spurningunni Eru tölvuleikir vanabindandi?

Heimildir og mynd:

Útgáfudagur

7.2.2003

Spyrjandi

Davíð Þór Jónsson

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Þekkist fíkn hjá dýrum?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2003. Sótt 24. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=3115.

Jón Már Halldórsson. (2003, 7. febrúar). Þekkist fíkn hjá dýrum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3115

Jón Már Halldórsson. „Þekkist fíkn hjá dýrum?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2003. Vefsíða. 24. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3115>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Berglind Rós Magnúsdóttir

1973

Berglind er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður námsbrautarinnar Menntunarfræði og margbreytileiki. Rannsóknir hennar snúast um félagslegt réttlæti í menntun með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna, kynferðis og sértækra menntunarþarfa á gæði og jafnrétti í uppeldi og menntun.