Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru 7 dagar í viku en ekki 9 eða 10?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Stutta svarið er það að þetta er ekki vitað alveg til hlítar en líklegast er að talan sjö hafi orðið fyrir valinu af því að þá tekur hvert tunglkvartil sem næst eina viku. Sjö daga vikan festist síðan í sessi af sögulegum og menningarlegum ástæðum.

Þetta er merkileg spurning sem á sér ýmsar hliðar. Á sumum tungumálum mundi hún hljóma undarlegar en á íslensku því að þar vísar heiti vikunnar beint til þess að hún sé sjö dagar. Á þessum málum mundi spurningin því hljóma svipað og ef við spyrðum: ,,Af hverju eru sjö dagar í sjöund (sem er fornt heiti á vikunni)?" eða þá: ,,Af hverju eru tvö dægur í tvídægru?"

Til þess að komast hjá þessum vandræðum skilgreininganna getum við endursagt spurninguna sem hér segir:
Af hverju hafa menn valið tímaeininguna sem er á milli dagsins og mánaðarins að lengd sem sjö daga viku en ekki eitthvað annað?
Svarið við þessu er það í stuttu máli að við vitum þetta kannski ekki alveg til hlítar en höfum þó ýmislegt um það að segja.



Svo virðist sem eðlilegast eða æskilegast hefði verið að velja þessa tímaeiningu þannig að lengd hennar gengi upp í lengd tunglmánaðarins og jafnvel ársins líka. Mánuðurinn er hins vegar 29,53 dagar og þess vegna býsna fjarri því að vera heil tala. En heila talan sem hann kemst næst er 30. Honum hefði því mátt skipta með sæmilega skilvirkum hætti annaðhvort í 6 fimm daga "vikur" eða í 5 sex daga "vikur". Þessar tölur hefðu farið nær mánuðinum en talan 4*7 = 28 sem hefur orðið ofan á hjá langflestum þjóðum heims. Auk þess hefði árið orðið sléttar 73 vikur ef fimm daga vika hefði orðið fyrir valinu.

Hér er líka á það að líta að tunglmánuðurinn skiptist á mjög náttúrlegan hátt í tvo jafna hluta, annan meðan tunglið er vaxandi og hinn meðan það er að minnka. Þess vegna er væntanlega eðlilegra að fjöldi "vikna" í mánuði sé slétt tala. Þau rök duga gegn því að hafa 5 sex daga vikur en ekki gegn fimm daga vikunni.

Við getum þó enn gert því skóna að mönnum hafi þótt þægilegast að lýsa mánaðarlegri breytingu tunglsins, sem við köllum kvartilaskipti, með því að vísa sérstaklega til þess þegar tungl er hálft, auk sem það verður bæði nýtt og fullt. Þar með er fengin tiltölulega náttúrleg skipting tunglmánaðarins í fjóra hluta sem eru nokkurn veginn jafnstórir hverju sinni. Lengd þeirra í sólarhringum er nálægt heilu tölunni sjö og þannig væri fengin náttúrleg skýring á þessari tölu. Hún þýðir það til dæmis að nýtt tungl, hálft tungl og vaxandi, fullt tungl og hálft minnkandi tungl falla öll á nokkurn veginn sama vikudag innan sama mánaðar.

Rétt er hins vegar að taka fram að við höfum ekki sögulegar heimildir fyrir því að sagan hafi gerst með þessum hætti; þetta eru aðeins rökstuddar getgátur. Rökin eru ekki heldur sterkari en svo að þess er að vænta að þetta hafi ekki orðið algilt enda er sú raunin því að önnur tala hefur verið notuð í ýmsum samfélögum bæði fyrr og síðar.



Þannig höfðu Forn-Egyptar 10 daga viku og Frakkar reyndu að koma slíkri viku á eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789. Sovétmenn reyndu fyrir sér með bæði 5 og 6 daga viku kringum 1930 en létu af slíkum tilraunum árið 1940. Hinir fornamerísku Majar notuðu bæði 13 og 20 daga vikur og Litháar höfðu 9 daga viku áður en þeir tóku kristni.

Sjö daga vikan er afar útbreidd nú á dögum í heiminum. Hún er til dæmis notuð bæði hjá þjóðum eða í ríkjum þar sem menn aðhyllast gyðingatrú, kristni, íslam og hindúatrú, þó að fyrirkomulagið sé mismunandi þegar betur er skoðað. Skýringar á því að sjö daga vikan hefur breiðst svo mjög út eru ekki síst sögulegar sem kallað er, það er að segja að þær byggjast á því að þetta komst nú einu sinni á með tilteknum hætti og því var síðan unnið fylgi með talsverðum þunga.

Elstu ritheimildir um sjö daga viku eru í sköpunarsögu Gamla testamentisins sem er sem kunnugt er trúarbók Gyðinga og talsvert eldri en kristni. Við munum öll að talan sjö fær þarna mikla áherslu og sagan af dögunum sjö er bæði hrífandi og minnisstæð. Þar sem bæði kristnir menn og múslímar játa að hluta til sömu trú og Gyðingar fluttist sjö daga vikan til þeirra þegar þeim fór að vaxa fiskur um hrygg, og þessi tvö trúfélög urðu að lokum miklu fjölmennari en Gyðingar eins og við vitum.

En hvorki kristnir menn né múslímar vildu samt hafa vikuna nákvæmlega eins og Gyðingar. Það kemur meðal annars fram í því að helgasti dagur vikunnar er laugardagur hjá Gyðingum (hvíldardagur sköpunarsögunnar), sunnudagur hjá kristnum mönnum (upprisudagur Krists) og föstudagur hjá múslímum. Segja sumir að Múhameð spámaður og fylgismenn hans hafi einfaldlega viljað velja sér annan helgidag en hinir sem höfðu þegar valið.



Annað atriði sem hefur styrkt sjö daga vikuna í sessi, auk sköpunarsögunnar, felst í tengslum tölunnar sjö við stjörnufræði og stjörnuspeki. Á himninum eru sjö hnettir sem hreyfast miðað við fastastjörnurnar og sjást með berum augum. Þeir hafa verið nefndir föruhnettir á íslensku og eru nánar tiltekið Satúrnus, Júpíter, Mars, sólin, Venus, Merkúríus og tunglið, og er þeim þá raðað eftir minnkandi umferðartíma miðað við jörð og sól.

Þessi röð þeirra er lögð til grundvallar með tilteknum hætti í viku stjörnuspekinnar og í þeirri viku er dagur Satúrnusar, laugardagurinn, fyrsti dagur vikunnar. Hinir eru helgaðir sól, tungli, Mars, Merkúríusi, Júpíter og Venusi í þessari röð og má sjá merki um þessi fornu tengsl föruhnatta og vikudaga í nöfnum vikudaganna í mörgum tungumálum nú á dögum. Meðal annars á þetta við um norrænu daganöfnin sem vísa til Týs, Óðins, Þórs og Freyju sem koma þar í stað samsvarandi guða í rómverskri goðafræði.

Heimildir og lesefni:

Vefsetur um tímatal (calendars) á vegum Institute for Dynamic Educational Advancement (IDEA) og WebExhibits.

Eviatar Zerubavel, 1989. The Seven Day Circle: The History and Meaning of the Week. Chicago: The University of Chicago Press.

Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli 1. Reykjavík: Mál og menning, 1986.

Mynd af jörð og tungli: legislative.nasa.gov

Mynd af Sfinxi og pýramída: A Visit to the Pyramids and Temples of Ancient Egypt

Listaverkið Sköpunin afhjúpuð: Solar Voyager

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

11.2.2003

Spyrjandi

Þórdís Jónsdóttir, f. 1992
Dagmar Snorradóttir, f. 1990
Hreindís Garðarsdóttir, f. 1989
Særún Sigurpálsdóttir, f. 1997

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru 7 dagar í viku en ekki 9 eða 10?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2003, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3130.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 11. febrúar). Af hverju eru 7 dagar í viku en ekki 9 eða 10? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3130

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru 7 dagar í viku en ekki 9 eða 10?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2003. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3130>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru 7 dagar í viku en ekki 9 eða 10?
Stutta svarið er það að þetta er ekki vitað alveg til hlítar en líklegast er að talan sjö hafi orðið fyrir valinu af því að þá tekur hvert tunglkvartil sem næst eina viku. Sjö daga vikan festist síðan í sessi af sögulegum og menningarlegum ástæðum.

Þetta er merkileg spurning sem á sér ýmsar hliðar. Á sumum tungumálum mundi hún hljóma undarlegar en á íslensku því að þar vísar heiti vikunnar beint til þess að hún sé sjö dagar. Á þessum málum mundi spurningin því hljóma svipað og ef við spyrðum: ,,Af hverju eru sjö dagar í sjöund (sem er fornt heiti á vikunni)?" eða þá: ,,Af hverju eru tvö dægur í tvídægru?"

Til þess að komast hjá þessum vandræðum skilgreininganna getum við endursagt spurninguna sem hér segir:
Af hverju hafa menn valið tímaeininguna sem er á milli dagsins og mánaðarins að lengd sem sjö daga viku en ekki eitthvað annað?
Svarið við þessu er það í stuttu máli að við vitum þetta kannski ekki alveg til hlítar en höfum þó ýmislegt um það að segja.



Svo virðist sem eðlilegast eða æskilegast hefði verið að velja þessa tímaeiningu þannig að lengd hennar gengi upp í lengd tunglmánaðarins og jafnvel ársins líka. Mánuðurinn er hins vegar 29,53 dagar og þess vegna býsna fjarri því að vera heil tala. En heila talan sem hann kemst næst er 30. Honum hefði því mátt skipta með sæmilega skilvirkum hætti annaðhvort í 6 fimm daga "vikur" eða í 5 sex daga "vikur". Þessar tölur hefðu farið nær mánuðinum en talan 4*7 = 28 sem hefur orðið ofan á hjá langflestum þjóðum heims. Auk þess hefði árið orðið sléttar 73 vikur ef fimm daga vika hefði orðið fyrir valinu.

Hér er líka á það að líta að tunglmánuðurinn skiptist á mjög náttúrlegan hátt í tvo jafna hluta, annan meðan tunglið er vaxandi og hinn meðan það er að minnka. Þess vegna er væntanlega eðlilegra að fjöldi "vikna" í mánuði sé slétt tala. Þau rök duga gegn því að hafa 5 sex daga vikur en ekki gegn fimm daga vikunni.

Við getum þó enn gert því skóna að mönnum hafi þótt þægilegast að lýsa mánaðarlegri breytingu tunglsins, sem við köllum kvartilaskipti, með því að vísa sérstaklega til þess þegar tungl er hálft, auk sem það verður bæði nýtt og fullt. Þar með er fengin tiltölulega náttúrleg skipting tunglmánaðarins í fjóra hluta sem eru nokkurn veginn jafnstórir hverju sinni. Lengd þeirra í sólarhringum er nálægt heilu tölunni sjö og þannig væri fengin náttúrleg skýring á þessari tölu. Hún þýðir það til dæmis að nýtt tungl, hálft tungl og vaxandi, fullt tungl og hálft minnkandi tungl falla öll á nokkurn veginn sama vikudag innan sama mánaðar.

Rétt er hins vegar að taka fram að við höfum ekki sögulegar heimildir fyrir því að sagan hafi gerst með þessum hætti; þetta eru aðeins rökstuddar getgátur. Rökin eru ekki heldur sterkari en svo að þess er að vænta að þetta hafi ekki orðið algilt enda er sú raunin því að önnur tala hefur verið notuð í ýmsum samfélögum bæði fyrr og síðar.



Þannig höfðu Forn-Egyptar 10 daga viku og Frakkar reyndu að koma slíkri viku á eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789. Sovétmenn reyndu fyrir sér með bæði 5 og 6 daga viku kringum 1930 en létu af slíkum tilraunum árið 1940. Hinir fornamerísku Majar notuðu bæði 13 og 20 daga vikur og Litháar höfðu 9 daga viku áður en þeir tóku kristni.

Sjö daga vikan er afar útbreidd nú á dögum í heiminum. Hún er til dæmis notuð bæði hjá þjóðum eða í ríkjum þar sem menn aðhyllast gyðingatrú, kristni, íslam og hindúatrú, þó að fyrirkomulagið sé mismunandi þegar betur er skoðað. Skýringar á því að sjö daga vikan hefur breiðst svo mjög út eru ekki síst sögulegar sem kallað er, það er að segja að þær byggjast á því að þetta komst nú einu sinni á með tilteknum hætti og því var síðan unnið fylgi með talsverðum þunga.

Elstu ritheimildir um sjö daga viku eru í sköpunarsögu Gamla testamentisins sem er sem kunnugt er trúarbók Gyðinga og talsvert eldri en kristni. Við munum öll að talan sjö fær þarna mikla áherslu og sagan af dögunum sjö er bæði hrífandi og minnisstæð. Þar sem bæði kristnir menn og múslímar játa að hluta til sömu trú og Gyðingar fluttist sjö daga vikan til þeirra þegar þeim fór að vaxa fiskur um hrygg, og þessi tvö trúfélög urðu að lokum miklu fjölmennari en Gyðingar eins og við vitum.

En hvorki kristnir menn né múslímar vildu samt hafa vikuna nákvæmlega eins og Gyðingar. Það kemur meðal annars fram í því að helgasti dagur vikunnar er laugardagur hjá Gyðingum (hvíldardagur sköpunarsögunnar), sunnudagur hjá kristnum mönnum (upprisudagur Krists) og föstudagur hjá múslímum. Segja sumir að Múhameð spámaður og fylgismenn hans hafi einfaldlega viljað velja sér annan helgidag en hinir sem höfðu þegar valið.



Annað atriði sem hefur styrkt sjö daga vikuna í sessi, auk sköpunarsögunnar, felst í tengslum tölunnar sjö við stjörnufræði og stjörnuspeki. Á himninum eru sjö hnettir sem hreyfast miðað við fastastjörnurnar og sjást með berum augum. Þeir hafa verið nefndir föruhnettir á íslensku og eru nánar tiltekið Satúrnus, Júpíter, Mars, sólin, Venus, Merkúríus og tunglið, og er þeim þá raðað eftir minnkandi umferðartíma miðað við jörð og sól.

Þessi röð þeirra er lögð til grundvallar með tilteknum hætti í viku stjörnuspekinnar og í þeirri viku er dagur Satúrnusar, laugardagurinn, fyrsti dagur vikunnar. Hinir eru helgaðir sól, tungli, Mars, Merkúríusi, Júpíter og Venusi í þessari röð og má sjá merki um þessi fornu tengsl föruhnatta og vikudaga í nöfnum vikudaganna í mörgum tungumálum nú á dögum. Meðal annars á þetta við um norrænu daganöfnin sem vísa til Týs, Óðins, Þórs og Freyju sem koma þar í stað samsvarandi guða í rómverskri goðafræði.

Heimildir og lesefni:

Vefsetur um tímatal (calendars) á vegum Institute for Dynamic Educational Advancement (IDEA) og WebExhibits.

Eviatar Zerubavel, 1989. The Seven Day Circle: The History and Meaning of the Week. Chicago: The University of Chicago Press.

Þorsteinn Vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli 1. Reykjavík: Mál og menning, 1986.

Mynd af jörð og tungli: legislative.nasa.gov

Mynd af Sfinxi og pýramída: A Visit to the Pyramids and Temples of Ancient Egypt

Listaverkið Sköpunin afhjúpuð: Solar Voyager

...