
Íslendingar fengu forræði yfir utanríkismálum sínum með fullveldinu 1. desember 1918. Þau voru þó enn í framkvæmd dönsku utanríkisþjónustunnar, en stefnan ákveðin af íslensku ríkisstjórninni. Utanríkismál heyrðu upphaflega undir Forsætisráðuneytið (forsætisráðherra 1918 var Jón Magnússon) og árið 1929 var sett á fót sérstök utanríkismáladeild innan Forsætisráðuneytisins. Eftir innrás Þjóðverja í Danmörku 9. apríl 1940, tóku Íslendingar utanríkismál alfarið í sínar hendur og degi síðar var utanríkismáladeildin gerð að utanríkisráðuneyti. Sú dagsetning markar upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar. Utanríkismálin heyrðu þó enn undir forsætisráðuneytið, þar til 8. júlí sama ár, að Stefán Jóh. Stefánsson var skipaður utanríkisráðherra og bráðabirgðalög sett um utanríkisþjónustuna. 15. febrúar 1941 voru svo sett lög um Utanríkisráðuneytið. Beint svar við spurningunni er því að Stefán Jóh. Stefánsson teljist fyrsti utanríkisráðherra Íslands. Til hliðar má geta þess að á fyrsta starfsári utanríkisþjónustunnar voru sendiráð þrjú talsins, ræðisskrifstofa ein og starfsmenn samtals 20, þar af 15 erlendis. Mynd:
- Stjórnarráð Íslands. Sótt 26.2.2003.