Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiHagfræðiEru til íslensk fyrirtæki sem búa við skrifræðisskipulag (bureaucracy) og hefur vegnað vel? Hverjir eru helstu kostir skrifræðis?
Segja má að sérhvert fyrirtæki hafi einhver skrifræðiseinkenni í skipulagi sínu. Það á bæði við um íslensk fyrirtæki og erlend. Í bókum um skipulagsheildir, til dæmis bók Richard L. Daft, Organization Theory and Design, er upplýst að félagsfræðingurinn Max Weber hafi fyrstur manna farið að skoða skipulega hvort bæta mætti árangur af starfsemi skipulagsheilda með skrifræðisskipulagi.
Í bók Daft eru eftirfarandi einkenni á skrifræðisskipulagi rakin til Webers:
reglur og vinnulýsingar
sérhæfing og verkaskipting
stigveldi (valdastigi)
fagþekking
afmörkuð störf
skrifleg boðskipti
Það þarf ekki viðamikla athugun til að sjá að þessi einkenni eru algeng í skipulagi fyrirtækja og stofnana, einkum þar sem notast er við svokallað starfaskipulag, sjá nánari umfjöllun í bókinni Skipulag fyrirtækja.
Helstu kostir mikils skrifræðis eru þeir að starfsemi skipulagsheilda verður fyrirsjáanleg og starfskröftum er beint þangað sem þeir nýtast best. Áherslan er á lóðrétta valdbraut, það er samband yfirmanns og
undirmanna. Starfsmannaval fer fram á grundvelli fagþekkingar og færni. Litið er fram hjá persónu viðkomandi, fjölskylduböndum og hagsmunatengslum. Skrifleg fyrirmæli og skráð samskipti auðvelda yfirfærslu þekkingar milli einstaklinga og framvindu venjubundinnar starfsemi.
Þessir kostir geta skilað skipulagsheild ávinningi, einkum skilvirkni og góðri nýtingu aðfanga, ef starfsemin fer fram í stöðugu, fyrirsjáanlegu og einföldu umhverfi. Það er vegna þess að skipulag með mikil skrifræðiseinkenni er afar fastmótað og starfsemin verður eins vélræn og hægt er í skipulagsheild, samanber hugmyndir Henry Mintzberg um „vélrænt skipulag“, ('machine organization') í bókinni The Structuring of Organizations, og umræðu Gareth Morgan um svipað efni ('the mechanistic organization') í bókinni Images of Organizations.
Lykilspurningin er því ekki hvort til sé íslenskt fyrirtæki sem býr við skrifræðisskipulag heldur hvort til sé íslenskt fyrirtæki með mikil skrifræðiseinkenni. Svarið við þeirri spurningu er líklega jákvætt. Hvort slíku fyrirtæki vegni vel veltur fyrst og fremst á því hvort það býr við einfalt, fyrirsjáanlegt og stöðugt umhverfi.
Hins vegar er það einnig lykilatriði að færa má rök fyrir því að þeim fyrirtækjum og stofnunum sem búa við stöðugt, fyrirsjáanlegt og einfalt umhverfi fari mjög fækkandi og það er mikið vafamál hvort vélrænt og ósveigjanlegt skipulag sé til þess fallið að færa skipulagsheildum ávinning í því viðskiptaumhverfi sem ríkir í dag.
Mynd:
Runólfur Smári Steinþórsson. „Eru til íslensk fyrirtæki sem búa við skrifræðisskipulag (bureaucracy) og hefur vegnað vel? Hverjir eru helstu kostir skrifræðis?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2000, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=319.
Runólfur Smári Steinþórsson. (2000, 4. apríl). Eru til íslensk fyrirtæki sem búa við skrifræðisskipulag (bureaucracy) og hefur vegnað vel? Hverjir eru helstu kostir skrifræðis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=319
Runólfur Smári Steinþórsson. „Eru til íslensk fyrirtæki sem búa við skrifræðisskipulag (bureaucracy) og hefur vegnað vel? Hverjir eru helstu kostir skrifræðis?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2000. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=319>.