Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Ef það er sannað að ákveðin heilahvel stjórni ákveðnum tilfinningum, er þá ekki hægt að útiloka sálina?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Eins og kemur fram í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað þýðir orðið sál getur orðið sál þýtt ýmislegt. Meðal annars er það notað yfir "andlegt líf manns, hugsun, viðbrögð og tilfinningar" og það að heilinn stjórni tilfinningum útilokar auðvitað ekki tilvist hugsunarinnar. Við gerum því ráð fyrir að hér sé spurt um sálina sem einhvers konar sjálfstætt fyrirbæri sem ekki lýtur efnislegum lögmálum, það er í þeim skilningi sem trúarbrögðin fjalla um sálina.

Sú kenning að líkami og sál (eða hugur) séu eðlisólík er kölluð tvíhyggja (sjá svar Atla Harðarsonar við Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?). Samkvæmt hefðbundinni tvíhyggju sem oft er kennd við franska heimspekinginn René Descartes (1596-1650) eru líkami og hugur tvær sjálfstæðar verundir eða hlutir. Líkaminn lýtur lögmálum náttúrunnar, hann er efnislegur, en sálin eða hugurinn lýtur annars konar lögmálum sem við getum kallað andleg. Líkaminn hefur efnislega eiginleika á borð við massa og rúmtak en hugurinn hefur ekki slíka eiginleika.

Sú kenning að jafnt hugarstarf sem allt annað sé í eðli sínu efnislegt og lúti þeim lögmálum sem náttúruvísindin fjalla um er hins vegar kölluð efnishyggja. Efnishyggja hefur á undanförnum áratugum verið ríkjandi kenning meðal hugfræðinga (cognitive scientists) sem fást við að skoða starf mannshugans.

Ein af þeim spurningum sem vakna með tilliti til tvíhyggjunnar er spurningin um það hvernig sambandi líkama og sálar á að vera háttað. Flestir tvíhyggjusinnar líta svo á að gagnkvæmt orsakasamband sé milli sálar og líkama þannig að það sem fer fram í líkamanum hefur áhrif á sálina og öfugt. Óneitanlega bendir allt til þess að svo sé og þarf ekki uppgötvanir á innra starfi heilans til þótt þær styrki auðvitað þessa mynd. Í aldanna rás hefur fólk til dæmis tekið eftir því hvernig ástand líkama okkar hefur áhrif á líðan okkar á ýmsa vegu, hvernig við notum líkama okkar til að skynja veröldina í kringum okkur og afla þannig upplýsinga sem hugurinn moðar úr og svona mætti lengi telja.

Ef hægt er að benda á ákveðna staði í heilanum sem stjórna ákveðnum tilfinningum skýrir tvíhyggjusinninn það þannig að það sem gerist þarna í heilanum hafi ákveðin orsakaáhrif á sálina og valdi þannig ákveðnu ástandi í henni. Samkvæmt þekkingu nútíma vísinda á starfi heilans snýst málið ekki aðeins um tilfinningar heldur hefur hinum ýmsu hugarferlum verið fundinn staður í heilanum.

Hér má benda á tvö vandamál fyrir tvíhyggjusinnann. Annars vegar er það að ef sálinni er ætlað að eiga sjálfstæða tilvist þannig að hún geti lifað eftir dauða líkamans má spyrja hvað eigi að framkalla viðkomandi hugarferli í sálinni þegar líkaminn og þar með heilastarfsemin er ekki lengur til staðar. Þessu er kannski hægt að svara með því að þrátt fyrir að við núverandi aðstæður sjái heilinn um að valda þessum hugarferlum þá geti aðrir hlutir valdið þeim líka, til dæmis eitthvað í sálinni sjálfri.

Hitt vandamálið, sem er kannski alvarlegra, er það hvernig hin efnislegu heilaferli eiga að geta orsakað andleg ferli sem lúta samkvæmt skilgreiningu ekki efnislegum lögmálum. Og almennt má spyrja “hvernig getur efnislegur líkami staðið í orsakasambandi við andlega sál ef þau lúta ekki sömu lögmálum?”. Að einhverju leyti hljóta efnið og andinn að lúta sömu lögmálum ef einhver tengsl eða samband milli þeirra á að vera mögulegt. Ef tvíhyggjan á að geta staðist þarf á einhvern hátt að vera hægt að gera grein fyrir þessu.

Stærsti vandinn fyrir tvíhyggjuna snýst svo um orsakasambandið í hina áttina, það er hvernig hugarferli stjórna efnislegum líkamanum. Flest erum við sammála um það að hugsanir, langanir, tilfinningar og svo framvegis hljóti að eiga þátt í að stjórna ýmsum líkamlegum athöfnum okkar. Ég sé vinkonu mína hinumegin við götuna, ákveð að veifa til hennar og þá lyftist hönd mín og ég veifa. Stínu langar í súkkulaði og það verður til þess að hún borðar súkkulaðistykki. Almennt teljum við það augljóst að hugarferli okkar hafi orsakaáhrif á líkamlegar athafnir.

Vandinn er sá að svo virðist sem hvert efnislegt ferli, og þar með hver líkamleg athöfn, eigi sér fullnægjandi efnislega skýringu. Þegar ég veifa getum við gert ráð fyrir að hægt sé að gera fulla grein fyrir orsökum handahreyfingarinnar með því að vísa í efnisleg ferli í líkama mínum. Orsökum af einhverri annarri gerð virðist einfaldlega ofaukið. Ef hugarferli á borð við ákvarðanir og langanir eru sömu ferli og efnisleg heilaferli, eins og efnishyggja gefur til kynna (eða að minnsta kosti sumar útgáfur hennar), er þetta ekki vandamál. Sú ákvörðun mín að veifa til vinkonu minnar yfir götuna er einfaldlega ferli í heilanum sem er hluti af orsakaskýringu þess að hönd mín lyftist og hreyfist. En samkvæmt tvíhyggjunni er ákvörðunin ekki efnislegt ferli heldur eitthvað annað.

Þótt tvíhyggjusinninn geti ef til vill komið með skýringu á því hvernig efnisleg heilaferli gætu valdið hinni andlegu ákvörðun veitir það enga hjálp við að skýra hvernig þessi andlega ákvörðun getur síðan valdið líkamlegri athöfn sem á sér þegar fullnægjandi efnislegar skýringar, til dæmis í heilaferlunum sem tvíhyggjusinninn segir vera orsök ákvörðunarinnar.



Hefðbundin tvíhyggja sem gerir ráð fyrir sál og líkama sem tveimur mismunandi verundum hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarna áratugi, bæði innan heimspeki og hugfræða. Til er önnur gerð tvíhyggju, svokölluð eiginleikatvíhyggja, sem lifir enn innan þessara greina þótt hún sé vissulega minnihlutaskoðun. Samkvæmt eiginleikatvíhyggju er aðeins um eina gerð hluta eða verunda að ræða og sál eða hugur og líkami eru því ekki tveir aðskildir hlutir. Hins vegar hefur manneskjan tvær gerðir eiginleika, efnislega og andlega, sem eru eðlisólíkir.

Eiginleikatvíhyggjan kemst hjá sumum þeim vandamálum sem fylgja hefðbundinni tvíhyggju, til dæmis gerir hún ekki ráð fyrir sjálfstæðu lífi sálarinnar og þarf því ekki að gera grein fyrir möguleikanum á því. Samt situr hún uppi með sama orsökunarvandann og hefðbundin tvíhyggja. Ein hugsanleg lausn á orsökunarvandanum er að segja að andlegir eiginleikar séu afurð heilaferlanna en hafi sem slíkir engin orsakaáhrif. Þeir eru þá það sem kallað er aukageta (e. epiphenomena). Kosturinn við þessa lausn er að ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af því hvernig andleg ferli geti orsakað eitthvað efnislegt; þau hafa einfaldlega ekki orsakaáhrif. Gallinn er hins vegar sá að það virðist hreinlega ganga gegn almennri skynsemi að hugarferli hafi ekki orsakaáhrif. Jafnframt fylgja því ýmis vandkvæði að gera ráð fyrir eiginleikum án orsakaáhrifa. Hvernig getum við til dæmis orðið vör við þessa eiginleika ef þeir geta ekki verið orsök skynjunar okkar á þeim eða vitundar okkar um þá?

Svarið við spurningunni er því að þáttur heilans í hugarferlum okkar skapar vissulega vandræði fyrir tvíhyggju um sál og líkama. Hins vegar er ekki útilokað að tvíhyggjusinnar geti leyst úr þeim vandræðum og þannig varið kenningu sína. Því er kannski óþarfi að útiloka möguleikann á sál sem sjáfstæðri verund þótt mörgum kunni að þykja hugmyndin ósennileg.

Mynd af Descartes: Homéopathe International

Mynd 2: HB

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

7.3.2003

Spyrjandi

Halldór Heiðar Bjarnason

Efnisorð

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Ef það er sannað að ákveðin heilahvel stjórni ákveðnum tilfinningum, er þá ekki hægt að útiloka sálina?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2003, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3213.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 7. mars). Ef það er sannað að ákveðin heilahvel stjórni ákveðnum tilfinningum, er þá ekki hægt að útiloka sálina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3213

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Ef það er sannað að ákveðin heilahvel stjórni ákveðnum tilfinningum, er þá ekki hægt að útiloka sálina?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2003. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3213>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Ef það er sannað að ákveðin heilahvel stjórni ákveðnum tilfinningum, er þá ekki hægt að útiloka sálina?
Eins og kemur fram í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað þýðir orðið sál getur orðið sál þýtt ýmislegt. Meðal annars er það notað yfir "andlegt líf manns, hugsun, viðbrögð og tilfinningar" og það að heilinn stjórni tilfinningum útilokar auðvitað ekki tilvist hugsunarinnar. Við gerum því ráð fyrir að hér sé spurt um sálina sem einhvers konar sjálfstætt fyrirbæri sem ekki lýtur efnislegum lögmálum, það er í þeim skilningi sem trúarbrögðin fjalla um sálina.

Sú kenning að líkami og sál (eða hugur) séu eðlisólík er kölluð tvíhyggja (sjá svar Atla Harðarsonar við Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?). Samkvæmt hefðbundinni tvíhyggju sem oft er kennd við franska heimspekinginn René Descartes (1596-1650) eru líkami og hugur tvær sjálfstæðar verundir eða hlutir. Líkaminn lýtur lögmálum náttúrunnar, hann er efnislegur, en sálin eða hugurinn lýtur annars konar lögmálum sem við getum kallað andleg. Líkaminn hefur efnislega eiginleika á borð við massa og rúmtak en hugurinn hefur ekki slíka eiginleika.

Sú kenning að jafnt hugarstarf sem allt annað sé í eðli sínu efnislegt og lúti þeim lögmálum sem náttúruvísindin fjalla um er hins vegar kölluð efnishyggja. Efnishyggja hefur á undanförnum áratugum verið ríkjandi kenning meðal hugfræðinga (cognitive scientists) sem fást við að skoða starf mannshugans.

Ein af þeim spurningum sem vakna með tilliti til tvíhyggjunnar er spurningin um það hvernig sambandi líkama og sálar á að vera háttað. Flestir tvíhyggjusinnar líta svo á að gagnkvæmt orsakasamband sé milli sálar og líkama þannig að það sem fer fram í líkamanum hefur áhrif á sálina og öfugt. Óneitanlega bendir allt til þess að svo sé og þarf ekki uppgötvanir á innra starfi heilans til þótt þær styrki auðvitað þessa mynd. Í aldanna rás hefur fólk til dæmis tekið eftir því hvernig ástand líkama okkar hefur áhrif á líðan okkar á ýmsa vegu, hvernig við notum líkama okkar til að skynja veröldina í kringum okkur og afla þannig upplýsinga sem hugurinn moðar úr og svona mætti lengi telja.

Ef hægt er að benda á ákveðna staði í heilanum sem stjórna ákveðnum tilfinningum skýrir tvíhyggjusinninn það þannig að það sem gerist þarna í heilanum hafi ákveðin orsakaáhrif á sálina og valdi þannig ákveðnu ástandi í henni. Samkvæmt þekkingu nútíma vísinda á starfi heilans snýst málið ekki aðeins um tilfinningar heldur hefur hinum ýmsu hugarferlum verið fundinn staður í heilanum.

Hér má benda á tvö vandamál fyrir tvíhyggjusinnann. Annars vegar er það að ef sálinni er ætlað að eiga sjálfstæða tilvist þannig að hún geti lifað eftir dauða líkamans má spyrja hvað eigi að framkalla viðkomandi hugarferli í sálinni þegar líkaminn og þar með heilastarfsemin er ekki lengur til staðar. Þessu er kannski hægt að svara með því að þrátt fyrir að við núverandi aðstæður sjái heilinn um að valda þessum hugarferlum þá geti aðrir hlutir valdið þeim líka, til dæmis eitthvað í sálinni sjálfri.

Hitt vandamálið, sem er kannski alvarlegra, er það hvernig hin efnislegu heilaferli eiga að geta orsakað andleg ferli sem lúta samkvæmt skilgreiningu ekki efnislegum lögmálum. Og almennt má spyrja “hvernig getur efnislegur líkami staðið í orsakasambandi við andlega sál ef þau lúta ekki sömu lögmálum?”. Að einhverju leyti hljóta efnið og andinn að lúta sömu lögmálum ef einhver tengsl eða samband milli þeirra á að vera mögulegt. Ef tvíhyggjan á að geta staðist þarf á einhvern hátt að vera hægt að gera grein fyrir þessu.

Stærsti vandinn fyrir tvíhyggjuna snýst svo um orsakasambandið í hina áttina, það er hvernig hugarferli stjórna efnislegum líkamanum. Flest erum við sammála um það að hugsanir, langanir, tilfinningar og svo framvegis hljóti að eiga þátt í að stjórna ýmsum líkamlegum athöfnum okkar. Ég sé vinkonu mína hinumegin við götuna, ákveð að veifa til hennar og þá lyftist hönd mín og ég veifa. Stínu langar í súkkulaði og það verður til þess að hún borðar súkkulaðistykki. Almennt teljum við það augljóst að hugarferli okkar hafi orsakaáhrif á líkamlegar athafnir.

Vandinn er sá að svo virðist sem hvert efnislegt ferli, og þar með hver líkamleg athöfn, eigi sér fullnægjandi efnislega skýringu. Þegar ég veifa getum við gert ráð fyrir að hægt sé að gera fulla grein fyrir orsökum handahreyfingarinnar með því að vísa í efnisleg ferli í líkama mínum. Orsökum af einhverri annarri gerð virðist einfaldlega ofaukið. Ef hugarferli á borð við ákvarðanir og langanir eru sömu ferli og efnisleg heilaferli, eins og efnishyggja gefur til kynna (eða að minnsta kosti sumar útgáfur hennar), er þetta ekki vandamál. Sú ákvörðun mín að veifa til vinkonu minnar yfir götuna er einfaldlega ferli í heilanum sem er hluti af orsakaskýringu þess að hönd mín lyftist og hreyfist. En samkvæmt tvíhyggjunni er ákvörðunin ekki efnislegt ferli heldur eitthvað annað.

Þótt tvíhyggjusinninn geti ef til vill komið með skýringu á því hvernig efnisleg heilaferli gætu valdið hinni andlegu ákvörðun veitir það enga hjálp við að skýra hvernig þessi andlega ákvörðun getur síðan valdið líkamlegri athöfn sem á sér þegar fullnægjandi efnislegar skýringar, til dæmis í heilaferlunum sem tvíhyggjusinninn segir vera orsök ákvörðunarinnar.



Hefðbundin tvíhyggja sem gerir ráð fyrir sál og líkama sem tveimur mismunandi verundum hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarna áratugi, bæði innan heimspeki og hugfræða. Til er önnur gerð tvíhyggju, svokölluð eiginleikatvíhyggja, sem lifir enn innan þessara greina þótt hún sé vissulega minnihlutaskoðun. Samkvæmt eiginleikatvíhyggju er aðeins um eina gerð hluta eða verunda að ræða og sál eða hugur og líkami eru því ekki tveir aðskildir hlutir. Hins vegar hefur manneskjan tvær gerðir eiginleika, efnislega og andlega, sem eru eðlisólíkir.

Eiginleikatvíhyggjan kemst hjá sumum þeim vandamálum sem fylgja hefðbundinni tvíhyggju, til dæmis gerir hún ekki ráð fyrir sjálfstæðu lífi sálarinnar og þarf því ekki að gera grein fyrir möguleikanum á því. Samt situr hún uppi með sama orsökunarvandann og hefðbundin tvíhyggja. Ein hugsanleg lausn á orsökunarvandanum er að segja að andlegir eiginleikar séu afurð heilaferlanna en hafi sem slíkir engin orsakaáhrif. Þeir eru þá það sem kallað er aukageta (e. epiphenomena). Kosturinn við þessa lausn er að ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af því hvernig andleg ferli geti orsakað eitthvað efnislegt; þau hafa einfaldlega ekki orsakaáhrif. Gallinn er hins vegar sá að það virðist hreinlega ganga gegn almennri skynsemi að hugarferli hafi ekki orsakaáhrif. Jafnframt fylgja því ýmis vandkvæði að gera ráð fyrir eiginleikum án orsakaáhrifa. Hvernig getum við til dæmis orðið vör við þessa eiginleika ef þeir geta ekki verið orsök skynjunar okkar á þeim eða vitundar okkar um þá?

Svarið við spurningunni er því að þáttur heilans í hugarferlum okkar skapar vissulega vandræði fyrir tvíhyggju um sál og líkama. Hins vegar er ekki útilokað að tvíhyggjusinnar geti leyst úr þeim vandræðum og þannig varið kenningu sína. Því er kannski óþarfi að útiloka möguleikann á sál sem sjáfstæðri verund þótt mörgum kunni að þykja hugmyndin ósennileg.

Mynd af Descartes: Homéopathe International

Mynd 2: HB...