Hvernig ala kengúrur unga sína, af hverju fara þeir í poka móðurinnar, hvernig geta þær stokkið svona langt og margt fleira?Kengúrur eru pokadýr (Marsupialia) sem er einn af þremur meginflokkum spendýra. Kengúrur tilheyra ennfremur ættinni Macropodidae en til hennar teljast alls 47 tegundir. Kengúrur lifa ekki einungis í Ástralíu eins og flestir myndu halda, heldur einnig á Tasmaníu, Papúa-Nýju Gíneu, Bismarck-eyjum og ein tegund hefur verið flutt suður til Nýja-Sjálands og vegnar henni vel.

Kengúrur eignast einn unga árlega. Unginn (á ensku nefnist hann 'joey') er afar vanþroskaður eftir mjög stutta meðgöngu (30 dagar), hann er um 2 cm við fæðingu og vegur um 1 gramm. Unginn skríður í kviðpoka móður sinnar og heldur sig þar og drekkur móðurmjólkina í 7-10 mánuði (breytilegt eftir tegundum). Í kviðpokanum eru fjórir spenar sem næra ungann. Strax eftir að kvenkengúran hefur fætt ungann er hún reiðubúin til mökunar á nýjan leik. Eftir frjóvgun þroskast fóstrið í um eina viku og fer síðan í einhvers konar dvalarstig sem lýkur þegar unginn hefur yfirgefið kviðpoka móður sinnar. Þrjár stærstu tegundirnar tilheyra allar ættkvíslinni Macropus. Þær eru grákengúran (Macropus canguru), hefur einnig verið nefnd á fræðimáli M. giganteus eða M. major, Wallaroo (enska heitið, M. robustus á latínu) og rauðkengúran (M.rufus).


- Strahan, R. (ritstj.). 1995. The mammals of Australia. Smithsonian Institution Press, Washington, D.C.
- Museum Victoria
- The Australian Reptile Park
- Marsupials and Monotremes