Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Afbrotafræðin er ein grein félagsvísinda sem styðst við viðurkenndar aðferðir til rannsókna á afbrotum og viðbrögðum samfélagsins við þeim. Afbrotafræðin er vísindaleg rannsókn á afbrotum, afbrotahegðan og viðurlögum. Mikilvægt einkenni afbrotafræðinnar er þverfaglegt eðli hennar. Afbrotafræðingar koma úr ýmsum viðurkenndum fræðigreinum, svo sem félagsfræði, sálfræði, lögfræði, hagfræði og jafnvel úr náttúruvísindum. Sem dæmi má taka Ítalann Cesare Lombroso (1835-1909) sem nefndur hefur verið „faðir afbrotafræðinnar“ en hann var læknir að mennt og starfaði sem fangelsislæknir.
Viðfangsefni og sérsvið afbrotafræðinnar eru fjölbreytt. Mælingar á tíðni afbrota (e. criminal statistics) er þekkt undirsvið þar sem meðal annars er stuðst við gögn lögreglu eða dóma til að meta tíðni afbrota einsog hún birtast í opinberum gögnum. Skýringar á afbrotum (e. etiology of crime) leitast við að varpa ljósi á hvers vegna afbrot eru framin. Hinn þverfaglegi bakgrunnur afbrotafræðinnar kemur hér skýrt fram. Sem dæmi má taka að sál-, líf- og læknisfræðin gefa einkum gaum að einstaklingsbundnum einkennum brotamanna, meðan félagsfræðin beinir sjónum sínum einkum að félagstengslum þeirra og félagslegu umhverfi.
Hvað gera eigi við lögbrjóta og hvernig bæta eigi fyrir afbrot er annað sérsvið (e. penology). Í meginatriðum snúast rannsóknir á þessu sviði um áhrif refsinga og mat á ólíkum úrræðum til að sporna við afbrotum. Fórnarlambafræði (e. victimology) er vaxandi svið innan afbrotafræðinnar sem beinir sjónum sínum að þolendum afbrota og einkennum þeirra. Fleiri undirsvið má nefna til viðbótar einsog rannsóknir á afbrotum ungmenna, hlutdeild kvenna í afbrotum og samanburðarafbrotafræði þar sem leitast er við að bera afbrot saman milli landa.
Frekari upplýsingar um afbrotafræðina og sérsvið hennar má finna í bókinni Afbrot og Íslendingar eftir Helga Gunnlaugsson (2000) sem kom út á vegum Háskólaútgáfunnar.
Myndir:
Helgi Gunnlaugsson. „Hver eru sérsvið afbrotafræðinnar?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2003, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3242.
Helgi Gunnlaugsson. (2003, 14. mars). Hver eru sérsvið afbrotafræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3242
Helgi Gunnlaugsson. „Hver eru sérsvið afbrotafræðinnar?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2003. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3242>.