Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hefur útblástur álvera skaðleg áhrif á ósonlag jarðar og ef svo er eyðist ósonið ekki hraðar ef útblásturinn er nærri norðurheimskautinu?
Um 90% af ósoni í andrúmsloftinu er í heiðhvolfinu og mest af því er að finna í um 20 km hæð yfir jörðu, það er hið svokallaða ósonlag. Þegar þynning verður á ósonlaginu er það vegna efnahvarfa sem eiga sér stað í heiðhvolfinu (sjá lýsingu á þessu í svari Ágústs Kvarans við spurningunni Hvernig myndast ósonlagið og er talið að það muni einhvern tímann eyðast?).
Hreinsunarbúnaður álvera dregur nokkuð úr útblæstri þeirra, en í útblæstrinum er að finna flúor (F), ryk, brennisteinsdíoxíð (SO2), flúorkolefnissambönd (til dæmis CF4 og C2F6) og koltvísýring (CO2).
Flúor hefur hverfandi áhrif á niðurbrot ósonlagsins vegna þess að það gengur í efnasamband við vatnsgufu (H2O) eða metan (CH4) og myndar mjög stöðugt efnasamband HF.
Brennisteinsdíoxíð frá útblæstri álvera brotnar niður í veðrahvolfinu og hefur því ekki áhrif á niðurbrotsferli ósons í heiðhvolfinu. En brennisteinsdíoxíð getur borist í heiðhvolfið, til dæmis við kröftugt og langvarandi eldgos, og haft tímabundin áhrif á ósonlagið.
Flúorkolefnasamböndin hafa ekki áhrif á ósonlagið, en það stafar af því að þau innihalda ekki klór-frumeindir, sem er ein öflugasta frumeindin í niðurbroti ósons.
Koltvísýringur getur hins vegar haft áhrif á ósonlagið. Koltvísýringur er gróðurhúsagastegund, en slíkar gastegundir valda hlýnun í veðrahvolfinu en kólnun í heiðhvolfinu. Það síðarnefnda hefur áhrif á myndun glitskýja (stundum nefnd heimskautaský eða pólský), en þau myndast einungis við mjög lágt hitastig. Eins og lýst er í svari Ágústs Kvarans við spurningunni Af hverju verður þynning á ósonlaginu yfir suðurpólnum þar sem eru fáar verksmiðjur, en ekki yfir Bandaríkjunum? geta glitský verkað hvetjandi á efnaferli sem leiða til eyðingar ósonlagsins. Kólnun heiðhvolfsins getur því aukið myndun glitskýja sem aftur hafa áhrif á niðurbrotsferli ósons.
Útblástur frá álverum hefur því ekki bein efnafræðileg áhrif á ósonlagið, en getur hins vegar haft óbein áhrif vegna útblásturs á gróðurhúsagastegundinni CO2. Staðsetning álvera hefur engin áhrif í þessu sambandi.Heimildir:
R.K. Ásmundsson, H.Ö. Ólafsson, A. Ólafsson, A. Ruseckas og G.H. Guðmundsson, 1994. „Leit að CF4 í útblæstri álvers“, Eðlisfræði á Íslandi, VII ráðstefnurit Eðlisfræðifélag Íslands, Þórður Arason ritstj.
Zellner, R. (ritstj.), 1999. Global Aspects of Atmospheric Chemistry (kafli 4). Steinkopff, Darmstadt: New York Springer.
Sigrún Karlsdóttir. „Hefur útblástur álvera skaðleg áhrif á ósonlag jarðar?“ Vísindavefurinn, 18. mars 2003, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3252.
Sigrún Karlsdóttir. (2003, 18. mars). Hefur útblástur álvera skaðleg áhrif á ósonlag jarðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3252
Sigrún Karlsdóttir. „Hefur útblástur álvera skaðleg áhrif á ósonlag jarðar?“ Vísindavefurinn. 18. mar. 2003. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3252>.