Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aðalviðfangsefni unglingsáranna er að skapa sér sjálfsmynd: finna út hver maður er. Til þess reynir unglingurinn að brjóta sér leið frá fjölskyldunni, að lúta ekki lengur boðum og bönnum, og brjóta gegn siðum og venjum. Unglingurinn vill að foreldrarnir láti hann í friði og finnst erfitt ef þeir gera það ekki. Ef foreldrarnir láta unglinginn hins vegar afskiptalausan reynist það jafnvel enn erfiðara. Í ljós kemur að unglingum líður í raun best ef foreldrarnir hætta ekki að skipta sér af þeim, heldur halda áfram að halda uppi aga eins og vanalega. Samt finnst þeim það óréttlátt. Þetta er líka erfitt fyrir foreldrana. Eðlilegt er að eitthvað sé að breytast, en það er ekki hlaupið að því að finna taktinn í þeim breytingum.
Fræðimaðurinn Erik Erikson reyndi að skilgreina þroskaferli mannsins frá vöggu til grafar og kenning hans er að unglingsárum sínum verji fólk til sjálfsmyndarleitar. James Murcia útfærði síðan enn betur hvernig sjálfsmyndarleitin fer fram. Samkvæmt honum hefur það ferli 4 stig:
Forgefin sjálfsmynd. Gildi foreldranna eru meðtekin, unglingurinn er enn ekki farinn að kanna eigin gildismat.
Hlutverkaruglingur. Unglingurinn er kominn að þeirri niðurstöðu að hann geti ekki samþykkt allt gildismat foreldranna, en veit ekki enn hvert hans eigið gildismat er. Þetta er oft ruglingslegur og erfiður tími fyrir alla fjölskylduna.
Gerjun. Sjálfskönnun unglingsins er í gangi án þess að niðurstaða hafi fengist. Nú eru ýmis konar sjálfsmyndir mátaðar, sem reynir oft mjög á þolinmæði foreldranna.
Heildstæð sjálfsmynd. Unglingurinn hefur gengið í gegnum sjálfskönnun og eftir það hefur hann komist að niðurstöðu um eigið gildismat og markmið.
Ekki tekst öllum jafn vel til við þetta viðfangsefni og sumir festast jafnvel í hlutverkaruglingi og uppreisn um lengri eða skemmri tíma. En margt verður til þess að unglingsárin eru erfiður tími. Hér skulum við taka saman það sem er að gerast:
Unglingur með mjög brothætta sjálfsmynd þarf að komast að niðurstöðu um það, hver hann eiginlega er.
Hann verður að þola ákafar geðsveiflur, sem verða að hluta til vegna þess að hormónastarfsemin er að breytast og líkaminn þarf tíma til að aðlagast henni.
Einmitt á sama tíma og líkamlegt útlit skiptir hvað mestu máli er líkaminn alltaf að breytast, og sumar breytingarnar eru ekki til bóta, unglingabólur, gríðarlega langir fætur, allt of stórt nef, og svo framvegis.
Þótt þetta sé erfiður tími og flestir þurfi á því að halda að fjölskyldan styðji þá meðan á erfiðleikatímum stendur, þá er þetta einmitt tíminn þegar unglingnum finnst að hann verði að finna sjálfstæði sitt gagnvart fjölskyldunni. Samt flýtir hann sér nú oft beint inn í enn kröfuharðari hóp, það er vinahópinn.
Umheimurinn gerir æ meiri kröfur. Skólinn verður erfiðari, en ef hætt er í skóla er ekki auðveldara að standa sig í vinnunni og enn erfiðara að standa undir útgjöldum, því að á meðan ekki er gengið í skóla verða flestir að borga heim.
Alls kyns tilfinningar flækja málin ennþá meira, svo sem vaknandi kynhvöt, réttlætiskennd, og hugsjónir sem erfitt er að koma í framkvæmd. Á unglingsaldrinum verður til ný, hugræn færni, sem felst meðal annars í því að á sama tíma er hægt að hafa hugann annars vegar við það sem er, og hins vegar það sem gæti verið. Þetta opnar ýmsa möguleika og nú er hægt að velta fyrir sér stórum spurningum um lífið og tilveruna.
Hvernig á eiginlega að standa undir þessu öllu? Það er svo merkilegt að flestir unglingar gera það með miklum sóma og ganga í gegnum þennan tíma nokkurn veginn óskemmdir. Það sem helst getur truflað þetta eðlilega ferli, er að unglingurinn taki þá ákvörðun að deyfa sig fyrir þeirri vanlíðan sem óhjákvæmilega fylgir sumu af ferlinu. Því meira sem neytt er af vímuefnum meðan á þessu stendur, þeim mun hægar gengur ferlið að finna sjálfsmyndina. Þeir sem reka meðferðarstofnanir hitta stundum fyrir eilífðarunglinga, um og yfir fertugt, sem aldrei luku við leitina að sjálfsmynd sinni og sitja enn á uppreisnartímabilinu, í samfelldum hlutverkaruglingi. Það er því full ástæða til að óska ungu fólki sem vímulausastra unglingsára.
Sjá ennfremur svör sama höfundar við spurningunum Hvað eru gelgjustælar og af hverju fá krakkar þá en ekki fullorðnir? og Hvers vegna byrja unglingar að drekka?
Sigurlína Davíðsdóttir. „Af hverju eru unglingsárin svona erfið?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2003, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3255.
Sigurlína Davíðsdóttir. (2003, 19. mars). Af hverju eru unglingsárin svona erfið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3255
Sigurlína Davíðsdóttir. „Af hverju eru unglingsárin svona erfið?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2003. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3255>.