Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver er mesti hraði sem mannvera getur náð án þess að deyja?

Þorsteinn Vilhjálmsson



Svarið er í stuttu máli það að hraði drepur engan; það er svokölluð hröðun eða hraðabreyting sem getur hins vegar vissulega verið lífshættuleg.

Þegar við sitjum í flugvél sem hefur náð fullum hraða og er komin í lárétt flug, þá finnum við yfirleitt ekkert fyrir hraða flugvélarinnar. Engu að síður er hann mörg hundruð kílómetrar á klukkustund. Hið sama gildir ef við sitjum í góðri járnbrautarlest. Þó að hún sé á fullri ferð getum við meira að segja gengið um gólf, leikið okkur með bolta og gert hvers konar kúnstir rétt eins og við værum í stofunni heima hjá okkur. Þetta á líka við um bíla ef vegurinn er nógu góður og misfellulaus, en það er hins vegar sjaldgæft, einkum hér á Íslandi.

Ef við færum í boltaleik inni í flugvél í flugtaki eða lendingu, þá mundi hreyfing vélarinnar hins vegar segja til sín í undarlegri hegðun boltans. Ef við sæjum ekkert út úr vélinni og vissum ekkert um flugáætlunina gætum við snúið dæminu við og ályktað af hreyfingu boltans og öðrum fyrirbærum inni í vélinni að nú sé hún að takast á loft eða að undirbúa lendingu.

Þegar bíll fer snöggt af stað finnum við hraðabreytinguna eða hröðunina með því að við þrýstumst niður í sætunum og á sama hátt leita lausir hlutir í bílnum fram á við þegar hemlað er snögglega. Í árekstrum verður hröðunin enn miklu meiri; hraði bílsins breytist þá mjög verulega á örskömmum tíma. Það er þessi hröðun sem veldur tjóni á mönnum og öðrum lausum hlutum í árekstrinum. Þegar við sögðum í upphafi máls að hraði drepi engan þá var það sem sé ekki meint sem hvatning til að aka hraðar því að hraðabreytingin við árekstur, til dæmis á ljósastaur eða vegg, verður auðvitað þeim mun meiri sem hraðinn var meiri fyrir áreksturinn.

Í öflugum og hraðskreiðum flugvélum, svo sem herþotum, verður hröðun oft veruleg í flugtaki og lendingu, til dæmis þegar slíkar þotur lenda á stuttum brautum á flugmóðurskipum. Þessi hröðun getur valdið verulegu álagi á líkama manna og enn meiri verða þessi áhrif í geimferðum, til dæmis þegar geimför takast á loft. Þetta er ein ástæðan til þess að geimfarar þurfa að vera afar vel á sig komnir líkamlega.

En sem sagt: Mikill hraði hefur í sjálfu sér engin áhrif á menn en breytingar á hraða geta verið varasamar. Og að lokum má minna á að við erum á stöðugri hringferð um sól með hraðanum 30 kílómetrar á sekúndu, sem er ógnarhraði miðað við flest sem við eigum að venjast. Engu að síður finnum við ekkert fyrir þessum hraða og leiðum örsjaldan hugann að honum!

Mynd af SR-71 njósnaþotu: North Eagles

Mynd af konu við hugleiðslu: Inward Bound Resources

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

19.3.2003

Spyrjandi

Kristófer Kristófersson, f. 1985

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er mesti hraði sem mannvera getur náð án þess að deyja? “ Vísindavefurinn, 19. mars 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3259.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 19. mars). Hver er mesti hraði sem mannvera getur náð án þess að deyja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3259

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver er mesti hraði sem mannvera getur náð án þess að deyja? “ Vísindavefurinn. 19. mar. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3259>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er mesti hraði sem mannvera getur náð án þess að deyja?


Svarið er í stuttu máli það að hraði drepur engan; það er svokölluð hröðun eða hraðabreyting sem getur hins vegar vissulega verið lífshættuleg.

Þegar við sitjum í flugvél sem hefur náð fullum hraða og er komin í lárétt flug, þá finnum við yfirleitt ekkert fyrir hraða flugvélarinnar. Engu að síður er hann mörg hundruð kílómetrar á klukkustund. Hið sama gildir ef við sitjum í góðri járnbrautarlest. Þó að hún sé á fullri ferð getum við meira að segja gengið um gólf, leikið okkur með bolta og gert hvers konar kúnstir rétt eins og við værum í stofunni heima hjá okkur. Þetta á líka við um bíla ef vegurinn er nógu góður og misfellulaus, en það er hins vegar sjaldgæft, einkum hér á Íslandi.

Ef við færum í boltaleik inni í flugvél í flugtaki eða lendingu, þá mundi hreyfing vélarinnar hins vegar segja til sín í undarlegri hegðun boltans. Ef við sæjum ekkert út úr vélinni og vissum ekkert um flugáætlunina gætum við snúið dæminu við og ályktað af hreyfingu boltans og öðrum fyrirbærum inni í vélinni að nú sé hún að takast á loft eða að undirbúa lendingu.

Þegar bíll fer snöggt af stað finnum við hraðabreytinguna eða hröðunina með því að við þrýstumst niður í sætunum og á sama hátt leita lausir hlutir í bílnum fram á við þegar hemlað er snögglega. Í árekstrum verður hröðunin enn miklu meiri; hraði bílsins breytist þá mjög verulega á örskömmum tíma. Það er þessi hröðun sem veldur tjóni á mönnum og öðrum lausum hlutum í árekstrinum. Þegar við sögðum í upphafi máls að hraði drepi engan þá var það sem sé ekki meint sem hvatning til að aka hraðar því að hraðabreytingin við árekstur, til dæmis á ljósastaur eða vegg, verður auðvitað þeim mun meiri sem hraðinn var meiri fyrir áreksturinn.

Í öflugum og hraðskreiðum flugvélum, svo sem herþotum, verður hröðun oft veruleg í flugtaki og lendingu, til dæmis þegar slíkar þotur lenda á stuttum brautum á flugmóðurskipum. Þessi hröðun getur valdið verulegu álagi á líkama manna og enn meiri verða þessi áhrif í geimferðum, til dæmis þegar geimför takast á loft. Þetta er ein ástæðan til þess að geimfarar þurfa að vera afar vel á sig komnir líkamlega.

En sem sagt: Mikill hraði hefur í sjálfu sér engin áhrif á menn en breytingar á hraða geta verið varasamar. Og að lokum má minna á að við erum á stöðugri hringferð um sól með hraðanum 30 kílómetrar á sekúndu, sem er ógnarhraði miðað við flest sem við eigum að venjast. Engu að síður finnum við ekkert fyrir þessum hraða og leiðum örsjaldan hugann að honum!

Mynd af SR-71 njósnaþotu: North Eagles

Mynd af konu við hugleiðslu: Inward Bound Resources...