Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Út á hvað gengur réttarlíffræði?

Gunnlaugur Geirsson (1940-2022)

Í heild sinni hljóðar spurningin svona:
Út á hvað gengur réttarlíffræði (forensic biology) og hver er munurinn á henni og réttarmannfræði?

Forensic biology táknar samkvæmt orðanna hljóðan réttarlíffræði en það hugtak er afar breitt og tekur til fleiri en einnar sérfræðigreinar. Til munu vera háskólar sem bjóða upp á kennslu í réttarlíffræði en yfirleitt öðlast menn „akademískan status“ í þrengri sérfræðigreinum.

Lífvísindi koma víða við sögu í þágu lögreglurannsókna vegna meintra afbrota. Sérfræðingar á ýmsum sviðum sem sérhæfa sig í slíku bæta titlinum „forensic“ fyrir framan sérfræðigrein sína, til dæmis:
 • Forensic medicine
 • Forensic odontology
 • Forensic hematogenetics
 • Forensic toxicology
 • Forensic anthropology
 • Forensic entomology
Elst þessara greina er réttarlæknisfræðin (forensic medicine) og innan hennar er einkum um að ræða lækna með meinafræðiþekkingu. Frá alda öðli hefur það verið hlutverk þeirra að sinna rannsóknum á óvæntum og voveiflegum dauðsföllum.

Aðrir læknar hafa það hlutverk að skoða menn sem hafa orðið fyrir ofbeldi (misþyrmingum, nauðgunum eða ársásum af öðru tagi). Til dæmis eru sérþjálfaðir barnalæknar sem rannsaka og meðhöndla börn sem orðið hafa fórnarlömb misþyrminga, kvensjúkdómalæknar starfa á neyðarmóttöku vegna nauðgunarárása og svo framvegis. Eitt nýjasta fagið á þessu sviði er forensic nursing eða réttarhjúkrunarfræði þar sem athyglinni er einkum beint að fórnarlömbum nauðgana.

Læknar og líffræðingar vinna við erfðafræðilegar rannsóknir í barnsfaðernis- og afbrotamálum og er þar talað um forensic hematogenetics (forensic genetics). Mun sú sérgrein vera stærsti þáttur líffræðinnar í þjónustu við réttarkerfið.

Einnig er stuðst við lífvísindi á sérsviðum náttúrufræði, til að mynda í rannsóknum á bólfestu lirfa í líkömum, sem finnast nokkuð löngu eftir andlátið (forensic entomology), en það er til ákvörðunar á því hversu langt er liðið frá andláti. Þá koma einnig til tannlæknar en réttartannlæknisfræði (forensic odontology) er viðurkennd sérgrein þeirra sem hlotið hafa þjálfun við greiningu líkamsleifa út frá tönnum hins látna og samanburð við tannkort frá lifanda lífi.

Sérfræðigreinin mannfræði tekur til félagslegrar mannfræði en önnur undirgrein er líkamsmannfræði (physical anthropology) sem er sérgrein þeirra sem leggja stund á að rannsaka sköpulag mannsins. Sú grein var mjög ofarlega á baugi meðal náttúruvísinda á nítjándu öldinni þegar mikill áhugi vaknaði á því að mæla líkamsbyggingu manna (anthropometry) og rannsaka hvort tengsli væru milli útlits og innrætis. Var þá meðal annars rætt um mannbætur (eugenics), en skuggi féll á þessi vísindi vegna glæpaverka þriðja ríkisins, sem kunn urðu eftir síðari heimsstyrjöldina.Þeir líkamsmannfræðingar sem starfa fyrir lögreglu vinna við það að bera kennsl á líkamsleifar. Er það einkum í Bandaríkjunum sem unnt er að öðlast sérfræðiréttindi í þeirri grein og kallast réttarmannfræðingur (forensic anthropologist). Víðast eru það þó réttarlæknar sem styðjast við líffærafræðiþekkingu sína og kunnáttu í meinafræði til þess að rannsaka líkamsleifar til þess að bera kennsl á hinn látna og greina dánarorsök hans.

Réttareiturefnafræðin (forensic toxicology) er einnig sérgrein þar sem mjög náið er starfað með réttarlæknum. Hinum síðarnefndu ber að upplýsa dánarorsök en þegar ekkert mein finnst þarf að mæla hvort hinn látni hafi tekið lyf ellegar látið ógert að taka lyf sem hann hefði þurft á að halda, eða að honum hafi verið byrlað eitur. Þar gegna réttareiturefnafræðingar stóru hlutverki. Allt þetta er unnið í samráði við tæknideildir lögreglu (criminalistics laboratories).

Mynd af beinagrindum: Emuseum

Mynd af Deon Knobel: MondayPaper - Weekly Newspaper of the University of Cape Town

Höfundur

prófessor emeritus í réttarlæknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.3.2003

Spyrjandi

Alexandra Klonowski

Tilvísun

Gunnlaugur Geirsson (1940-2022). „Út á hvað gengur réttarlíffræði?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2003. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3260.

Gunnlaugur Geirsson (1940-2022). (2003, 20. mars). Út á hvað gengur réttarlíffræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3260

Gunnlaugur Geirsson (1940-2022). „Út á hvað gengur réttarlíffræði?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2003. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3260>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Út á hvað gengur réttarlíffræði?
Í heild sinni hljóðar spurningin svona:

Út á hvað gengur réttarlíffræði (forensic biology) og hver er munurinn á henni og réttarmannfræði?

Forensic biology táknar samkvæmt orðanna hljóðan réttarlíffræði en það hugtak er afar breitt og tekur til fleiri en einnar sérfræðigreinar. Til munu vera háskólar sem bjóða upp á kennslu í réttarlíffræði en yfirleitt öðlast menn „akademískan status“ í þrengri sérfræðigreinum.

Lífvísindi koma víða við sögu í þágu lögreglurannsókna vegna meintra afbrota. Sérfræðingar á ýmsum sviðum sem sérhæfa sig í slíku bæta titlinum „forensic“ fyrir framan sérfræðigrein sína, til dæmis:
 • Forensic medicine
 • Forensic odontology
 • Forensic hematogenetics
 • Forensic toxicology
 • Forensic anthropology
 • Forensic entomology
Elst þessara greina er réttarlæknisfræðin (forensic medicine) og innan hennar er einkum um að ræða lækna með meinafræðiþekkingu. Frá alda öðli hefur það verið hlutverk þeirra að sinna rannsóknum á óvæntum og voveiflegum dauðsföllum.

Aðrir læknar hafa það hlutverk að skoða menn sem hafa orðið fyrir ofbeldi (misþyrmingum, nauðgunum eða ársásum af öðru tagi). Til dæmis eru sérþjálfaðir barnalæknar sem rannsaka og meðhöndla börn sem orðið hafa fórnarlömb misþyrminga, kvensjúkdómalæknar starfa á neyðarmóttöku vegna nauðgunarárása og svo framvegis. Eitt nýjasta fagið á þessu sviði er forensic nursing eða réttarhjúkrunarfræði þar sem athyglinni er einkum beint að fórnarlömbum nauðgana.

Læknar og líffræðingar vinna við erfðafræðilegar rannsóknir í barnsfaðernis- og afbrotamálum og er þar talað um forensic hematogenetics (forensic genetics). Mun sú sérgrein vera stærsti þáttur líffræðinnar í þjónustu við réttarkerfið.

Einnig er stuðst við lífvísindi á sérsviðum náttúrufræði, til að mynda í rannsóknum á bólfestu lirfa í líkömum, sem finnast nokkuð löngu eftir andlátið (forensic entomology), en það er til ákvörðunar á því hversu langt er liðið frá andláti. Þá koma einnig til tannlæknar en réttartannlæknisfræði (forensic odontology) er viðurkennd sérgrein þeirra sem hlotið hafa þjálfun við greiningu líkamsleifa út frá tönnum hins látna og samanburð við tannkort frá lifanda lífi.

Sérfræðigreinin mannfræði tekur til félagslegrar mannfræði en önnur undirgrein er líkamsmannfræði (physical anthropology) sem er sérgrein þeirra sem leggja stund á að rannsaka sköpulag mannsins. Sú grein var mjög ofarlega á baugi meðal náttúruvísinda á nítjándu öldinni þegar mikill áhugi vaknaði á því að mæla líkamsbyggingu manna (anthropometry) og rannsaka hvort tengsli væru milli útlits og innrætis. Var þá meðal annars rætt um mannbætur (eugenics), en skuggi féll á þessi vísindi vegna glæpaverka þriðja ríkisins, sem kunn urðu eftir síðari heimsstyrjöldina.Þeir líkamsmannfræðingar sem starfa fyrir lögreglu vinna við það að bera kennsl á líkamsleifar. Er það einkum í Bandaríkjunum sem unnt er að öðlast sérfræðiréttindi í þeirri grein og kallast réttarmannfræðingur (forensic anthropologist). Víðast eru það þó réttarlæknar sem styðjast við líffærafræðiþekkingu sína og kunnáttu í meinafræði til þess að rannsaka líkamsleifar til þess að bera kennsl á hinn látna og greina dánarorsök hans.

Réttareiturefnafræðin (forensic toxicology) er einnig sérgrein þar sem mjög náið er starfað með réttarlæknum. Hinum síðarnefndu ber að upplýsa dánarorsök en þegar ekkert mein finnst þarf að mæla hvort hinn látni hafi tekið lyf ellegar látið ógert að taka lyf sem hann hefði þurft á að halda, eða að honum hafi verið byrlað eitur. Þar gegna réttareiturefnafræðingar stóru hlutverki. Allt þetta er unnið í samráði við tæknideildir lögreglu (criminalistics laboratories).

Mynd af beinagrindum: Emuseum

Mynd af Deon Knobel: MondayPaper - Weekly Newspaper of the University of Cape Town...