Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu?

Hrafnkell Tjörvi Stefánsson

Stjórnmálaflokkar eru ólíkir öðrum samtökum að því leyti að þeir bjóða fram í almennum kosningum. Þeir hafa líka oftast nær það yfirlýsta markmið að vilja stjórna ríkisvaldinu. Í þessari merkingu eru hugtökin stjórnmálaflokkur og stjórnmálahreyfing notuð á víxl yfir það sama. Þegar talað er um stjórnmálahreyfingar er þó yfirleitt átt við annars konar samtök heldur en eiginlega stjórnmálaflokka. Það geta verið félög sem berjast fyrir ákveðnum málstað eða hin ólíkustu hagsmunasamtök. Þau bjóða ekki fram í kosningum en reyna að hafa áhrif á almenningsálitið eða stjórn ríkisvaldsins með öðrum hætti.

Hagsmunagæsla er óaðskiljanlegur hluti stjórnmála vegna þess að þegar teknar eru ákvarðanir í stjórnmálum, þá snerta þær yfirleitt hópa og hagmuni í samfélaginu með ólíkum hætti. Ólíkir hópar reyna því að hafa áhrif á ákvarðanir og koma sjónarmiðum sínum á framfæri, til dæmis við ríkisstjórnir, þjóðþing eða stjórnmálaflokkana sjálfa. Sum stjórnmálasamtök reyna á hinn bóginn fyrst og fremst að hafa áhrif á almenningsálitið. Í mörgum vestrænum löndum er rík hefð fyrir því að ríkisvaldið leiti til hagsmunasamtaka þegar teknar eru ákvarðanir eða stefna mótuð, og í mörgum tilvikum eru hagsmunasamtök formlegur hluti af ákvarðanatökuferlinu.

Dæmi um hagsmunasamtök sem líta má á sem stjórnmálahreyfingar eru launþegasamtök og samtök neytenda. Evrópusamtökin og félagið Heimssýn eru einnig dæmi um stjórnmálahreyfingar á Íslandi, en þau beita sér í Evrópumálum. Þegar talað er um stjórnmálahreyfingar er líka stundum átt við enn víðtækari baráttu sem ekki lýtur neinu formlegu skipulagi og nær jafnvel til margra landa. Dæmi um slíkar hreyfingar eru friðarhreyfingin og kvennréttindahreyfingin.

Munurinn á stjórnmálaflokki og hagsmunasamtökum er ekki alltaf skýr. Í mörgum löndum þróuðust verkalýðshreyfingar yfir í stjórnmálaflokka og það sama hefur gerst þar sem umhverfisverndarsamtök hafa þróast yfir í græna flokka. Hagmunasamtök geta líka ákveðið að bjóða fram í kosningum. Þá er tilgangurinn ekki endilega sá að komast í ríkisstjórn heldur frekar að nota framboðið til þess að vekja athygli á ákveðnum baráttumálum. Þetta geta verið hreyfingar á borð við samtök ellilífeyrisþega, félög bifreiðaeigenda eða trúarhópar. Dæmi eru um að slíkir flokkar hafi komist í ríkisstjórnir landa sinna.

Höfundur

stjórnmálafræðingur

Útgáfudagur

4.4.2003

Spyrjandi

Sigríður Ásta, f. 1988

Tilvísun

Hrafnkell Tjörvi Stefánsson. „Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2003, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3311.

Hrafnkell Tjörvi Stefánsson. (2003, 4. apríl). Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3311

Hrafnkell Tjörvi Stefánsson. „Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2003. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3311>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu?
Stjórnmálaflokkar eru ólíkir öðrum samtökum að því leyti að þeir bjóða fram í almennum kosningum. Þeir hafa líka oftast nær það yfirlýsta markmið að vilja stjórna ríkisvaldinu. Í þessari merkingu eru hugtökin stjórnmálaflokkur og stjórnmálahreyfing notuð á víxl yfir það sama. Þegar talað er um stjórnmálahreyfingar er þó yfirleitt átt við annars konar samtök heldur en eiginlega stjórnmálaflokka. Það geta verið félög sem berjast fyrir ákveðnum málstað eða hin ólíkustu hagsmunasamtök. Þau bjóða ekki fram í kosningum en reyna að hafa áhrif á almenningsálitið eða stjórn ríkisvaldsins með öðrum hætti.

Hagsmunagæsla er óaðskiljanlegur hluti stjórnmála vegna þess að þegar teknar eru ákvarðanir í stjórnmálum, þá snerta þær yfirleitt hópa og hagmuni í samfélaginu með ólíkum hætti. Ólíkir hópar reyna því að hafa áhrif á ákvarðanir og koma sjónarmiðum sínum á framfæri, til dæmis við ríkisstjórnir, þjóðþing eða stjórnmálaflokkana sjálfa. Sum stjórnmálasamtök reyna á hinn bóginn fyrst og fremst að hafa áhrif á almenningsálitið. Í mörgum vestrænum löndum er rík hefð fyrir því að ríkisvaldið leiti til hagsmunasamtaka þegar teknar eru ákvarðanir eða stefna mótuð, og í mörgum tilvikum eru hagsmunasamtök formlegur hluti af ákvarðanatökuferlinu.

Dæmi um hagsmunasamtök sem líta má á sem stjórnmálahreyfingar eru launþegasamtök og samtök neytenda. Evrópusamtökin og félagið Heimssýn eru einnig dæmi um stjórnmálahreyfingar á Íslandi, en þau beita sér í Evrópumálum. Þegar talað er um stjórnmálahreyfingar er líka stundum átt við enn víðtækari baráttu sem ekki lýtur neinu formlegu skipulagi og nær jafnvel til margra landa. Dæmi um slíkar hreyfingar eru friðarhreyfingin og kvennréttindahreyfingin.

Munurinn á stjórnmálaflokki og hagsmunasamtökum er ekki alltaf skýr. Í mörgum löndum þróuðust verkalýðshreyfingar yfir í stjórnmálaflokka og það sama hefur gerst þar sem umhverfisverndarsamtök hafa þróast yfir í græna flokka. Hagmunasamtök geta líka ákveðið að bjóða fram í kosningum. Þá er tilgangurinn ekki endilega sá að komast í ríkisstjórn heldur frekar að nota framboðið til þess að vekja athygli á ákveðnum baráttumálum. Þetta geta verið hreyfingar á borð við samtök ellilífeyrisþega, félög bifreiðaeigenda eða trúarhópar. Dæmi eru um að slíkir flokkar hafi komist í ríkisstjórnir landa sinna....