Eru leifar af venjulegum uppþvottalegi á leirtaui hættulegar heilsunni? Er nauðsynlegt að skola leirtauið eftir uppvask?Spurningunni má svara neitandi en með nokkrum skýringum. Jafnvel hinn sterkasti uppþvottalögur er sennilega um 30-40% virkt efni, en oftast minna. Hvort sem við þvoum upp undir rennandi vatni eða upp úr vaski ætti uppþvottalögurinn því að verða orðinn það útþynntur að mjög lítið af honum loðir við leirinn. Þá kemur spurningin um það hversu hættuleg þvottaefnin í uppþvottaleginum eru. Efnum í uppþvottalegi má skipta í þrjá meginflokka, það eru anjónísk þvottaefni, ójónuð þvottaefni og amfóter þvottaefni. Algeng anjónísk þvottaefni eru súlfónöt eða súlföt af kókosfitusýru eða öðrum fitusýrum, eða svokölluð ethersúlföt af sömu fitusýrum. Allir byggingarhlutar þessara efna eru meltanlegir og efnin brotna niður í náttúrunni. Byggingarhlutar ójónaðra sápa eru fitualkóhól (algengt er að þau séu úr kókosfitusýru) sem hvörfuð eru við etoxýlat. Etoxýlatið myndar keðju sem tengist alkóhólhópi fitualkóhólsins (sem lítur þannig út: -C-C-O-C-C-O- ) en það er lengd þessarar keðju sem stjórnar eiginleikum ójónuðu sápunnar. Etoxýlat-halinn leysist út í þvottavatnið á meðan fitualkóhólhausinn leysist inn í fituóhreinindin og þannig leysir ójónaði þvottalögurinn upp óhreinindin. Allir byggingarhlutar ójónaðra sápa eru meltanlegir. Amfóteru sápurnar eru gerðar á fjölbreyttari hátt og því ekki hægt að lýsa þeim í eins stuttu máli. Því miður verður að segja að niðurbrot sumra amfótera úti í náttúrunni er það slæmt, að þá, og sumar blöndur úr þeim, verður að merkja með varnaðarmerki sem á er dauður fiskur og dautt tré. Í Evrópu mundi tæpast nokkur nota slíkan amfóter í uppþvottalög. Líklegast er því að amfóterar í uppþvottlegi séu þokkalega vel niðurbrjótanlegir í meltingarfærum manna og eins af bakteríum. Það segir ef til vill meira en þessi tæknilega útskýring hér að ofan, að ef þú drykkir uppþvottalög, er ekki mælt með að framkalla uppköst til að ná honum upp úr þér. Frekar er mælt með því að drekka mjólk til að draga úr ertingu sem þvottavirku efnin geta valdið á meltingarveginum á meðan þau eru að brotna niður í byggingarhluta sína.
Eru leifar af venjulegum uppþvottalegi á leirtaui hættulegar heilsunni?
Útgáfudagur
7.4.2003
Spyrjandi
Páll Rúnar Pálsson
Tilvísun
Níels Br. Jónsson. „Eru leifar af venjulegum uppþvottalegi á leirtaui hættulegar heilsunni?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2003, sótt 12. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3314.
Níels Br. Jónsson. (2003, 7. apríl). Eru leifar af venjulegum uppþvottalegi á leirtaui hættulegar heilsunni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3314
Níels Br. Jónsson. „Eru leifar af venjulegum uppþvottalegi á leirtaui hættulegar heilsunni?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2003. Vefsíða. 12. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3314>.