Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins og við mátti búast treysta byggingaverkfræðingar okkar sér ekki til að svara þessari spurningu beint. Ýmsum spurningum af þessu tagi er ekki hægt að "svara" í venjulegum skilningi, til dæmis með því að nefna tiltekna tölu í þessu tilviki. Hins vegar er hægt að ræða spurninguna og varpa ljósi á það, af hverju ekki er til svar við henni, og það ætlum við að gera.
Meginástæðan fyrir þessu er sú að hugtakið "hústegund" er ekki skilgreint og hefur aldrei verið það. Auk þess er engan veginn ljóst að við værum neinu bættari þó að til væri einhver viðtekin allsherjarskilgreining á hústegundum.
Við getum flokkað hús á margan hátt og gerum það að sjálfsögðu þegar á þarf að halda. Til að mynda getum við þá farið eftir byggingarefni: Torfhús, timburhús, steinhús, bjálkahús, stálgrindarhús, stráhús, leirhús, jarðhús ... Einnig flokkum við hús oft og tíðum eftir notkun og tölum þá um íbúðarhús (einbýlishús, parhús, raðhús, fjölbýlishús, ...), útihús (fjárhús, hesthús, fjós, hlöður, hænsnahús, svínahús, ...), gróðurhús, garðhús, skólahús, verslunarhús, skrifstofuhús, iðnaðarhús, pakkhús, þinghús, stjórnarráðshús, kirkjur, hof, kvikmyndahús, samkomuhús, frystihús, safnhús, bókhlöðuhús, dæluhús, leikhús, dómhús, sjúkrahús, hljómleikahús, stöðvarhús, ... Við getum líka flokkað hús eftir atriðum sem tengjast lögun og talað um einnar hæðar hús, tveggja hæða hús, háhýsi, burstarhús, hús með valmaþaki, hús með flötu þaki, rétthyrnd hús, kringlótt hús, kúluhús, sexstrend hús, ...
Engin sýnileg takmörk eru fyrir þeim atriðum sem við gætum lagt til grundvallar við "flokkun" húsa, auk þess sem hver flokkun um sig kann að vera endalaus. Og það er ekki einu sinni víst að þetta komi neitt að sök; sá sem þarf á einhvers konar flokkun að halda býr hana til um leið og allir skilja um leið hvað hann á við.
Mörg tegundarhugtök eru skýrar afmörkuð en hústegundirnar. Sem dæmi mætti líklega nefna bílategundir eða önnur vörumerki. Tegundir öreinda í eðlisfræði eru líka afar vel afmarkaðar. En þekktasta tegundarhugtak vísindanna er líklega tegundirnar í lífríkinu. Þó að þær séu geysimargar og alls ekki allar þekktar, þá eru þær engu að síður afmarkaðar. Tegund lífvera má til dæmis skilgreina þannig að tveir einstaklingar eru af sömu tegund ef þeir geta átt frjótt afkvæmi saman. Vegna þessarar skýru skilgreiningar hefur það merkingu að tala um fjölda tegunda og það er einmitt gert í svari Sigurðar S. Snorrasonar á Vísindavefnum við spurningunni Hvað eru til margar fisktegundir í heiminum?
Það getur vel komið fyrir að ekki sé hægt að svara spurningu á venjulegan hátt. Annað dæmi um það er að finna í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hver er sjaldgæfasta myntin sem vitað er um?
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru margar tegundir af húsum í heiminum?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2000, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=332.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 12. apríl). Hvað eru margar tegundir af húsum í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=332
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru margar tegundir af húsum í heiminum?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2000. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=332>.