Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig verðum við til?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hér er einnig svarað öðrum spurningum um sama efni:
  • Hvernig fer frjóvgun fram eftir að sæðið er komið inn í líkama konunnar?
  • Geturðu lýst fyrir mér frjóvgunarferlinu?
  • Hvernig á frjóvgun eggs sér stað í manninum?
  • Hvað getið þið sagt mér um frjóvgun hjá manninum?
  • Er það satt að ég hafi byrjaði sem fræ?
Hægt er að miða við ýmislegt þegar spurningunni um hvernig við verðum til er svarað, en oft er talið að við höfum orðið til þegar sáðfruma föður okkar frjóvgaði eggfrumu móður okkar. Þessar tvær frumur eru kynfrumur þeirra og eru þær mjög ólíkar að mest allri gerð.



Eggfruma er með stærstu frumum líkamans en sáðfruman er með þeim minnstu. Þessi munur liggur í hlutverki þeirra. Eggfruma er stór vegna allrar þeirrar næringar sem hún geymir fyrir hugsanlegan fósturvísi á fyrstu sólarhringum eftir frjóvgun, en sáðfruman er lítil og létt til að geta synt auðveldlega upp í gegnum legháls konunnar og inn eftir eggrás þar sem eggfruma bíður.

Munur á hlutverki kynfruma kemur einnig berlega í ljós ef lögun þeirra er skoðuð. Eggfruma er hnöttótt með kjarna sem geymir erfðaefni frumunnar í 23 litningum, en meginhluti eggfrumunnar er forðanæring. Yst er nokkuð þykk egghimna til varnar.

Sáðfruma skiptist aftur á móti í þrjá meginhluta. Aftast og mest áberandi er löng svipa eða hali. Hann slæst fram og til baka og knýr þannig frumuna áfram þegar hún syndir upp í gegnum kynkerfi konunnar að eggfrumunni. Fyrir framan svipuna er miðhluti eða háls sáðfrumunnar en þar raðast hvatberar sem eru orkuver frumunnar. Þeir losa orkuna sem knýr halann. Fremst er svo höfuð sáðfrumunnar. Í höfðinu er kjarni hennar, en í honum er erfðaefnið sem raðast niður á 23 litninga líkt og í eggfrumunni. Þrátt fyrir stærðarmun og mun í lögun hafa því báðar kynfrumugerðirnar jafnmikið af erfðaupplýsingum, það er í genum sem raðast niður á 23 litninga í hvorri.

Fremst á sáðfrumuhöfðinu er fyrirbæri sem kallast hjálmur og er hann fyrsti hluti sáðfrumu sem snertir eggfrumu. Við þá snertingu springur sprengihleðsla í honum og rýfur gat á egghimnuna. Það gerir kjarna sáðfrumunnar kleift að komast inn í eggfrumuna og sameinast kjarna hennar. Þetta er hinn eiginlegi getnaður og uppruni nýs einstaklings. Þegar ein sáðfruma hefur náð að rjúfa gat á egghimnuna breytist hún í frjóvgunarhimnu sem kemur í veg fyrir að aðrar sáðfrumur frjóvgi hana.

Fyrsta fruma nýs einstaklings er því frjóvguð eggfruma og kallast okfruma. Hún er með samtals 46 litninga, helmingur þeirra kemur frá föður og helmingur frá móður. Þannig sést að báðir foreldrar leggja jafn mikið af erfðaupplýsingum til afkvæmis síns.

Eins og áður segir gerist þetta í eggrás konunnar. Um 24-30 klukkutímum eftir frjóvgun skiptir okfruman sér í tvennt, þær frumur verða síðan að fjórum og svo koll af kolli. Á meðan á þessum frumuskiptingum stendur berst fósturvísirinn niður eftir eggrásinni í átt að leginu (einnig kallað móðurlíf). Þegar komið er niður í legið eftir 3-4 daga er fósturvísirinn orðinn að lítilli gegnheilli frumukúlu, sem er undanfari kímblöðru en hún er hol frumukúla sem myndast 4 ½ - 5 dögum eftir frjóvgun.

Áframhaldið er háð því hvort innri veggur legsins, legslíman, er tilbúin að taka á móti fóstrinu. Ef svo er grefur kímblaðran sig á kaf í legslímuna. Hún nærist á legmjólk sem kirtlar í legslímunni seyta. Þessi bólfesta á sér oftast stað á 6. degi frá frjóvgun. Fljótlega fer legkaka eða fylgja að myndast á milli fósturvísis og legslímu.



Þetta eru í grófum dráttum fyrstu dagar nýs einstaklings. Það er þó ekkert í útliti hans sem gefur til kynna að um mannveru sé að ræða, enda er það ekki fyrr en um 9 mánuðum seinna að hann er undir það búinn að koma í heiminn úr hinum verndaða þroskunarstað sínum, leginu.

Myndir: Westside Pregnancy Resource Center

Höfundur

Útgáfudagur

23.4.2003

Spyrjandi

Ingunn Grétarsdóttir, f. 1990
Gróa Lísa Ómarsdóttir, f. 1990
Birta Antonsdóttir
Bergrós Ólafsdóttir
Sigurður Björgvinsson
Heiðrún Þráinsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verðum við til?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2003, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3356.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2003, 23. apríl). Hvernig verðum við til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3356

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verðum við til?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2003. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3356>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig verðum við til?
Hér er einnig svarað öðrum spurningum um sama efni:

  • Hvernig fer frjóvgun fram eftir að sæðið er komið inn í líkama konunnar?
  • Geturðu lýst fyrir mér frjóvgunarferlinu?
  • Hvernig á frjóvgun eggs sér stað í manninum?
  • Hvað getið þið sagt mér um frjóvgun hjá manninum?
  • Er það satt að ég hafi byrjaði sem fræ?
Hægt er að miða við ýmislegt þegar spurningunni um hvernig við verðum til er svarað, en oft er talið að við höfum orðið til þegar sáðfruma föður okkar frjóvgaði eggfrumu móður okkar. Þessar tvær frumur eru kynfrumur þeirra og eru þær mjög ólíkar að mest allri gerð.



Eggfruma er með stærstu frumum líkamans en sáðfruman er með þeim minnstu. Þessi munur liggur í hlutverki þeirra. Eggfruma er stór vegna allrar þeirrar næringar sem hún geymir fyrir hugsanlegan fósturvísi á fyrstu sólarhringum eftir frjóvgun, en sáðfruman er lítil og létt til að geta synt auðveldlega upp í gegnum legháls konunnar og inn eftir eggrás þar sem eggfruma bíður.

Munur á hlutverki kynfruma kemur einnig berlega í ljós ef lögun þeirra er skoðuð. Eggfruma er hnöttótt með kjarna sem geymir erfðaefni frumunnar í 23 litningum, en meginhluti eggfrumunnar er forðanæring. Yst er nokkuð þykk egghimna til varnar.

Sáðfruma skiptist aftur á móti í þrjá meginhluta. Aftast og mest áberandi er löng svipa eða hali. Hann slæst fram og til baka og knýr þannig frumuna áfram þegar hún syndir upp í gegnum kynkerfi konunnar að eggfrumunni. Fyrir framan svipuna er miðhluti eða háls sáðfrumunnar en þar raðast hvatberar sem eru orkuver frumunnar. Þeir losa orkuna sem knýr halann. Fremst er svo höfuð sáðfrumunnar. Í höfðinu er kjarni hennar, en í honum er erfðaefnið sem raðast niður á 23 litninga líkt og í eggfrumunni. Þrátt fyrir stærðarmun og mun í lögun hafa því báðar kynfrumugerðirnar jafnmikið af erfðaupplýsingum, það er í genum sem raðast niður á 23 litninga í hvorri.

Fremst á sáðfrumuhöfðinu er fyrirbæri sem kallast hjálmur og er hann fyrsti hluti sáðfrumu sem snertir eggfrumu. Við þá snertingu springur sprengihleðsla í honum og rýfur gat á egghimnuna. Það gerir kjarna sáðfrumunnar kleift að komast inn í eggfrumuna og sameinast kjarna hennar. Þetta er hinn eiginlegi getnaður og uppruni nýs einstaklings. Þegar ein sáðfruma hefur náð að rjúfa gat á egghimnuna breytist hún í frjóvgunarhimnu sem kemur í veg fyrir að aðrar sáðfrumur frjóvgi hana.

Fyrsta fruma nýs einstaklings er því frjóvguð eggfruma og kallast okfruma. Hún er með samtals 46 litninga, helmingur þeirra kemur frá föður og helmingur frá móður. Þannig sést að báðir foreldrar leggja jafn mikið af erfðaupplýsingum til afkvæmis síns.

Eins og áður segir gerist þetta í eggrás konunnar. Um 24-30 klukkutímum eftir frjóvgun skiptir okfruman sér í tvennt, þær frumur verða síðan að fjórum og svo koll af kolli. Á meðan á þessum frumuskiptingum stendur berst fósturvísirinn niður eftir eggrásinni í átt að leginu (einnig kallað móðurlíf). Þegar komið er niður í legið eftir 3-4 daga er fósturvísirinn orðinn að lítilli gegnheilli frumukúlu, sem er undanfari kímblöðru en hún er hol frumukúla sem myndast 4 ½ - 5 dögum eftir frjóvgun.

Áframhaldið er háð því hvort innri veggur legsins, legslíman, er tilbúin að taka á móti fóstrinu. Ef svo er grefur kímblaðran sig á kaf í legslímuna. Hún nærist á legmjólk sem kirtlar í legslímunni seyta. Þessi bólfesta á sér oftast stað á 6. degi frá frjóvgun. Fljótlega fer legkaka eða fylgja að myndast á milli fósturvísis og legslímu.



Þetta eru í grófum dráttum fyrstu dagar nýs einstaklings. Það er þó ekkert í útliti hans sem gefur til kynna að um mannveru sé að ræða, enda er það ekki fyrr en um 9 mánuðum seinna að hann er undir það búinn að koma í heiminn úr hinum verndaða þroskunarstað sínum, leginu.

Myndir: Westside Pregnancy Resource Center...