Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað veldur vindgangi?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Vindgangur og ropi virðast vekja forvitni margra. Hér er einnig svarað öðrum spurningum sem borist hafa um þetta efni, en þær eru:
  • Af hverju prumpar maður?
  • Hvað veldur lyktinni sem fylgir vindgangi?
  • Hvað er hægt að gera til að stoppa vindgang?
  • Hversu oft á dag leysir manneskja vind?
  • Hvaða leið fer prumpið?
  • Af hverju ropar maður?
Spyrjendur eru: Þorsteinn Ari Þorgeirsson, Dagmar Ósk Héðinsdóttir, f. 1991, Erla Brynjarsdóttir, f. 1987, Margrét Alda Magnúsdóttir, f. 1990 og Matthías Leifsson, f. 1990.

Allir hafa loft (gas) í meltingarveginum og losna við það ýmist með því að ropa eða leysa vind (prumpa). Margir halda að of mikið loft sé í þeim þótt magnið sé fullkomlega eðlilegt. Flestir mynda hálfan til einn og hálfan lítra af lofti á dag og losa það um 14 sinnum yfir daginn.

Loftið í meltingarvegi okkar samanstendur aðallega af lyktarlausum lofttegundum — koltvíoxíði, súrefni, nitri, vetni og stundum metani. Óþægilega lyktin sem fylgir stundum vindgangi stafar af bakteríum í ristlinum sem gefa frá sér lofttegundir sem innihalda brennistein.

Þótt vindgangur sé algengur getur hann verið bæði óþægilegur og til ama. Þess vegna er jákvætt að skilja orsakir fyrir honum og leita leiða til að halda honum í skefjum og meðhöndla hann.

Orsakir

Loft í meltingarveginum, það er vélinda, maga, smáþörmum og ristli, hefur tvenns konar uppruna. Annars vegar er um að ræða loft sem er gleypt og hins vegar loft sem myndast við niðurbrot ómeltrar fæðu af völdum ristilbaktería.



Gleypt loft

Gleypt loft er algeng orsök lofts í maga. Allir gleypa svolítið loft um leið og þeir kyngja við át og drykkju, en ef borðað eða drukkið er of hratt eykst loftmagnið sem gleypt er. Aðrir þættir sem valda því að við gleypum loft eru notkun tyggigúmmís, reykingar og lausar, falskar tennur.

Mestallt það loft sem við gleypum fer sömu leið út þegar við ropum. Í því eru nitur, súrefni og koltvíoxíð. Afgangurinn berst áfram ofan í smáþarma, þar sem hluti af því er tekinn upp í blóðrásina. Lítill hluti berst áfram í ristilinn og fer síðan út um endaþarmsopið. Maginn losar reyndar einnig koltvíoxíð þegar magasýra og bíkarbónatsalt blandast, en megnið af því lofti berst í blóðið en ekki í þarma.

Niðurbrot ómeltrar fæðu

Líkaminn getur ekki melt og tekið upp sumar tegundir kolvetna í smáþörmum vegna skorts á réttum meltingarensímum. Þessi ómelta fæða berst frá smáþörmum í ristilinn. Þar eru náttúrulegar og skaðlausar bakteríur sem sundra fæðunni og mynda um leið lofttegundirnar vetni og koltvíoxíð. Í um þriðjungi manna myndast einnig metan. Þessar lofttegundir berast að lokum út um endaþarmsopið.

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á hvers vegna sumir mynda metan en aðrir ekki, en þeir sem mynda metan losa ekki endilega meiri vind en aðrir eða hafa önnur einkenni. Hægðir þeirra sem mynda metan fljóta í vatni.

Fæðutegundir sem leiða til loftmyndunar í tilteknum einstaklingi gera það ekki endilega í öðrum. Sumar algengar ristilbakteríur geta eytt vetni sem aðrar mynda. Jafnvægi á milli þessara tveggja gerða baktería gæti skýrt hvers vegna sumir leysa meiri vind en aðrir.

Vindlosandi fæðutegundir

Flestar fæðutegundir sem innihalda sykrur (kolvetni) geta valdið vindgangi. Aftur á móti valda fita og prótín litlum vindgangi.

Sykur

Sykur er samheiti yfir fásykrur sem eru sætar á bragðið, þótt flestum detti hvítur sykur (sukrósi) í hug þegar sykur er nefndur. Þær sykrutegundir sem geta leitt til vindgangs heita raffínósi, laktósi og frúktósi. Einnig má flokka gervisætuefnið sorbítól, sem er sykuralkóhól, með þessum vindlosandi sykrum.

Raffínósi er þrísykra; hver raffínósasameind er úr þremur tengdum einsykrueiningum (frúktósa, galaktósa og glúkósa). Mikið er af raffínósa í sykurrófum og einnig í bómullarfræjum og ýmsum korntegundum. Ennfremur er þó nokkuð af honum í baunum og svolítið í hvítkáli, rósakáli, brokkkáli og spergli (aspas).

Laktósi er tvísykra og náttúrulega sykurtegundin í mjólk, enda einnig kallaður mjólkursykur. Hann finnst í mjólkurafurðum og í ýmsum unnum matvælum, eins og brauði, morgunkorni og salatsósum. Meltingarensímið laktasi er nauðsynlegt til að melta laktósa. Þegar kemur fram yfir frumbernsku (eftir um það bil tveggja ára aldur) finnst lítið af þessu ensími hjá mörgum, einkum þeim sem eru af afrískum, asískum og frumamerískum (indíána-) uppruna. Almennt gildir líka að magn þessa ensíms minnkar í fólki með aldrinum. Eftir því sem fólk eldist getur það því fundið fyrir meiri vindgangi eftir að borða fæðu sem inniheldur laktósa.

Frúktósi eða ávaxtasykur er einsykra sem finnst í flestum þroskuðum ávöxtum og hunangi.

Sorbítól er gervisætuefni og telst til sykuralkóhóla. Efninu er bætt í margar sykurlausar (súkrósalausar) fæðutegundir, þar á meðal megrunarvörur, sælgæti, gosdrykki og fleira.

Sterkja

Flestar sterkjuríkar fæðutegundir, til dæmis kartöflur, korn, núðlur og hveiti, mynda loft við niðurbrot í ristli. Hrísgrjón er eina sterkjuríka fæðan sem ekki veldur vindgangi.

Trefjaefni

Margar fæðutegundir innihalda leysanleg og óleysanleg trefjaefni. Leysanleg trefjaefni leysast auðveldlega upp í vatni og fá á sig mjúka, hlaupkennda áferð í þörmunum. Þau finnast í hafraklíði, baunum, ertum og flestum ávöxtum. Leysanleg trefjaefni meltast ekki í þörmunum, heldur brotna þau niður í ristli þar sem vindgangur er fylgifiskur. Óleysanleg trefjaefni, berast aftur á móti nánast alveg óbreytt í gegnum meltingarveginn og valda litlum sem engum vindgangi. Hveitiklíð og sumt grænmeti inniheldur trefjaefni af þessari gerð.

Einkenni og vandamál tengd lofti í meltingarvegi

Helstu einkenni sem fylgja loftmyndun í meltingarvegi er vindgangur (prump), þemba í kviði, kviðverkir og ropi. Ekki finna þó allir fyrir þessum einkennum. Þættir sem hafa þar áhrif eru líklega hversu mikið loft myndast í líkamanum, hve mikið af fitusýrum er tekið upp í blóðið og hversu næmur einstaklingurinn er gagnvart lofti í ristlinum.

Ropi

Stakur ropi endrum og eins meðan borðað er, eða stuttu eftir að máltíð er lokið, er eðlilegur og losar líkamann við loft þegar maginn er fullur af fæðu. Fólk sem ropar oft gæti aftur á móti verið að gleypa of mikið loft og losa það áður en það berst til magans.

Í sumum tilvikum er fólk sem ropar þrálátlega með kvilla í efri hluta meltingarvegar, til dæmis magasár eða vélindabakflæði. Einstaka sinnum venur fólk sig á að gleypa loft og ropa til að létta á óþægindum sem það er með. Viss hætta er á að sjúklingar með vélindabakflæði sem gangast undir skurðaðgerð til að laga ástandið eigi erfitt með að losa loft með því að ropa eftir aðgerðina.

Vindgangur

Annað algengt umkvörtunarefni er of mikill vindgangur um afturendann. Flestir átta sig þó ekki á því að það er eðlilegt að leysa vind 14-23 sinnum á dag. Of mikill vindgangur getur stafað af lélegri upptöku á kolvetnum.

Þaninn kviður (uppþemba)

Margir telja að of mikið loft valdi uppþembu kviðar, en oft kvartar fólk um uppþembu þótt loftmagnið sé eðlilegt. Mögulegt er að það sé óvenjunæmt á loft í meltingarveginum. Læknar telja að oftast sé orsök uppþembunnar kvilli eða sjúkdómur í þörmum. Einnig getur neysla fitumikillar fæðu seinkað tæmingu maga og leitt til uppþembu og óþæginda.

Kviðverkir og óþægindi

Sumir finna fyrir sársauka í kviðnum þegar loft er til staðar í þörmunum. Sé sársaukinn vinstra megin er hætta á að honum sé ruglað saman við hjartasjúkdóm. Þegar sársaukinn er hægra megin getur hann líkst gallsteinum eða botnlangabólgu.

Þar sem einkenni lofts í meltingarvegi geta stafað af alvarlegum sjúkdómum er nauðsynlegt að útiloka þá sem orsakavalda. Læknir spyr sjúkling gjarnan um fæðuvenjur hans og fer fram á að hann haldi dagbók yfir neyslu sína í tiltekinn tíma. Ef grunsemd er um laktósaóþol er sjúklingur látinn sleppa mjólkurmat í ákveðinn tíma og athugað hvort greina megi bata við það. Talning á því hversu oft viðkomandi leysir vind yfir daginn gefur mikilvægar upplýsingar ásamt neysludagbók.

Meðferð við of miklu lofti í meltingarvegi

Reynslan sýnir að bestu ráðin við of miklu lofti og óþægindum sem fylgja því eru að breyta fæðuvenjum, taka inn tiltekin lyf og reyna að gleypa minna loft.

Mataræði

Erfitt getur verið að mæla með því að fólk sneiði hjá vindlosandi fæðutegundum, þar sem þær eru oft mjög hollar og æskilegar af þeim sökum, til dæmis grænmeti og ávextir, heilkorn og mjólkurafurðir.

Oft er mælt með því að takmarka neyslu á fituríkum matvælum, svo að maginn tæmist hraðar og loft berist því áfram í þarmana. Það er þó mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif fæðutegundir hafa og því reynist oft nauðsynlegt fyrir fólk að prófa sig áfram og finna sjálft út hverju er best að sleppa.

Lyf

Til eru lyf við vindgangi sem eru ekki lyfseðilskyld. Þar er um að ræða sýrubindandi lyf, ýmist tyggitöflur eða duft sem freyðir þegar því er blandað í vatn. Einnig eru til laktasalyf til að hjálpa fólki sem þolir illa laktósa. Ennfremur eru önnur lyf sem læknar verða að vísa á ef viðkomandi sjúklingur er með meltingarkvilla.

Gleypt loft

Þeir sem þjást af þrálátum ropa ættu að reyna að gleypa minna loft. Þá er mælt með því að nota ekki tyggigúmmí, borða ekki hart sælgæti eins og brjóstsykur, og borða hægt. Ef viðkomandi er með falskar tennur er mælt með því að fara reglulega til tannlæknis til að ganga úr skugga um að þær passi vel.

Lokaorð

Þótt loft í meltingarvegi geti verið óþægilegt og vandræðalegt er það ekki lífshættulegt. Með því að skilja orsakir þess, þekkja leiðir til að minnka það og kynna sér meðferðarúrræði verður það minna vandamál.

Heimild:

Hér geta þeir sem vilja reynt að líkja eftir hljóðum sem heyrast þegar rekið er við.

Höfundur

Útgáfudagur

2.5.2003

Spyrjandi

Sölvi Guðmundsson, f. 1988

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað veldur vindgangi?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2003, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3384.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2003, 2. maí). Hvað veldur vindgangi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3384

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað veldur vindgangi?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2003. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3384>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað veldur vindgangi?
Vindgangur og ropi virðast vekja forvitni margra. Hér er einnig svarað öðrum spurningum sem borist hafa um þetta efni, en þær eru:

  • Af hverju prumpar maður?
  • Hvað veldur lyktinni sem fylgir vindgangi?
  • Hvað er hægt að gera til að stoppa vindgang?
  • Hversu oft á dag leysir manneskja vind?
  • Hvaða leið fer prumpið?
  • Af hverju ropar maður?
Spyrjendur eru: Þorsteinn Ari Þorgeirsson, Dagmar Ósk Héðinsdóttir, f. 1991, Erla Brynjarsdóttir, f. 1987, Margrét Alda Magnúsdóttir, f. 1990 og Matthías Leifsson, f. 1990.

Allir hafa loft (gas) í meltingarveginum og losna við það ýmist með því að ropa eða leysa vind (prumpa). Margir halda að of mikið loft sé í þeim þótt magnið sé fullkomlega eðlilegt. Flestir mynda hálfan til einn og hálfan lítra af lofti á dag og losa það um 14 sinnum yfir daginn.

Loftið í meltingarvegi okkar samanstendur aðallega af lyktarlausum lofttegundum — koltvíoxíði, súrefni, nitri, vetni og stundum metani. Óþægilega lyktin sem fylgir stundum vindgangi stafar af bakteríum í ristlinum sem gefa frá sér lofttegundir sem innihalda brennistein.

Þótt vindgangur sé algengur getur hann verið bæði óþægilegur og til ama. Þess vegna er jákvætt að skilja orsakir fyrir honum og leita leiða til að halda honum í skefjum og meðhöndla hann.

Orsakir

Loft í meltingarveginum, það er vélinda, maga, smáþörmum og ristli, hefur tvenns konar uppruna. Annars vegar er um að ræða loft sem er gleypt og hins vegar loft sem myndast við niðurbrot ómeltrar fæðu af völdum ristilbaktería.



Gleypt loft

Gleypt loft er algeng orsök lofts í maga. Allir gleypa svolítið loft um leið og þeir kyngja við át og drykkju, en ef borðað eða drukkið er of hratt eykst loftmagnið sem gleypt er. Aðrir þættir sem valda því að við gleypum loft eru notkun tyggigúmmís, reykingar og lausar, falskar tennur.

Mestallt það loft sem við gleypum fer sömu leið út þegar við ropum. Í því eru nitur, súrefni og koltvíoxíð. Afgangurinn berst áfram ofan í smáþarma, þar sem hluti af því er tekinn upp í blóðrásina. Lítill hluti berst áfram í ristilinn og fer síðan út um endaþarmsopið. Maginn losar reyndar einnig koltvíoxíð þegar magasýra og bíkarbónatsalt blandast, en megnið af því lofti berst í blóðið en ekki í þarma.

Niðurbrot ómeltrar fæðu

Líkaminn getur ekki melt og tekið upp sumar tegundir kolvetna í smáþörmum vegna skorts á réttum meltingarensímum. Þessi ómelta fæða berst frá smáþörmum í ristilinn. Þar eru náttúrulegar og skaðlausar bakteríur sem sundra fæðunni og mynda um leið lofttegundirnar vetni og koltvíoxíð. Í um þriðjungi manna myndast einnig metan. Þessar lofttegundir berast að lokum út um endaþarmsopið.

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á hvers vegna sumir mynda metan en aðrir ekki, en þeir sem mynda metan losa ekki endilega meiri vind en aðrir eða hafa önnur einkenni. Hægðir þeirra sem mynda metan fljóta í vatni.

Fæðutegundir sem leiða til loftmyndunar í tilteknum einstaklingi gera það ekki endilega í öðrum. Sumar algengar ristilbakteríur geta eytt vetni sem aðrar mynda. Jafnvægi á milli þessara tveggja gerða baktería gæti skýrt hvers vegna sumir leysa meiri vind en aðrir.

Vindlosandi fæðutegundir

Flestar fæðutegundir sem innihalda sykrur (kolvetni) geta valdið vindgangi. Aftur á móti valda fita og prótín litlum vindgangi.

Sykur

Sykur er samheiti yfir fásykrur sem eru sætar á bragðið, þótt flestum detti hvítur sykur (sukrósi) í hug þegar sykur er nefndur. Þær sykrutegundir sem geta leitt til vindgangs heita raffínósi, laktósi og frúktósi. Einnig má flokka gervisætuefnið sorbítól, sem er sykuralkóhól, með þessum vindlosandi sykrum.

Raffínósi er þrísykra; hver raffínósasameind er úr þremur tengdum einsykrueiningum (frúktósa, galaktósa og glúkósa). Mikið er af raffínósa í sykurrófum og einnig í bómullarfræjum og ýmsum korntegundum. Ennfremur er þó nokkuð af honum í baunum og svolítið í hvítkáli, rósakáli, brokkkáli og spergli (aspas).

Laktósi er tvísykra og náttúrulega sykurtegundin í mjólk, enda einnig kallaður mjólkursykur. Hann finnst í mjólkurafurðum og í ýmsum unnum matvælum, eins og brauði, morgunkorni og salatsósum. Meltingarensímið laktasi er nauðsynlegt til að melta laktósa. Þegar kemur fram yfir frumbernsku (eftir um það bil tveggja ára aldur) finnst lítið af þessu ensími hjá mörgum, einkum þeim sem eru af afrískum, asískum og frumamerískum (indíána-) uppruna. Almennt gildir líka að magn þessa ensíms minnkar í fólki með aldrinum. Eftir því sem fólk eldist getur það því fundið fyrir meiri vindgangi eftir að borða fæðu sem inniheldur laktósa.

Frúktósi eða ávaxtasykur er einsykra sem finnst í flestum þroskuðum ávöxtum og hunangi.

Sorbítól er gervisætuefni og telst til sykuralkóhóla. Efninu er bætt í margar sykurlausar (súkrósalausar) fæðutegundir, þar á meðal megrunarvörur, sælgæti, gosdrykki og fleira.

Sterkja

Flestar sterkjuríkar fæðutegundir, til dæmis kartöflur, korn, núðlur og hveiti, mynda loft við niðurbrot í ristli. Hrísgrjón er eina sterkjuríka fæðan sem ekki veldur vindgangi.

Trefjaefni

Margar fæðutegundir innihalda leysanleg og óleysanleg trefjaefni. Leysanleg trefjaefni leysast auðveldlega upp í vatni og fá á sig mjúka, hlaupkennda áferð í þörmunum. Þau finnast í hafraklíði, baunum, ertum og flestum ávöxtum. Leysanleg trefjaefni meltast ekki í þörmunum, heldur brotna þau niður í ristli þar sem vindgangur er fylgifiskur. Óleysanleg trefjaefni, berast aftur á móti nánast alveg óbreytt í gegnum meltingarveginn og valda litlum sem engum vindgangi. Hveitiklíð og sumt grænmeti inniheldur trefjaefni af þessari gerð.

Einkenni og vandamál tengd lofti í meltingarvegi

Helstu einkenni sem fylgja loftmyndun í meltingarvegi er vindgangur (prump), þemba í kviði, kviðverkir og ropi. Ekki finna þó allir fyrir þessum einkennum. Þættir sem hafa þar áhrif eru líklega hversu mikið loft myndast í líkamanum, hve mikið af fitusýrum er tekið upp í blóðið og hversu næmur einstaklingurinn er gagnvart lofti í ristlinum.

Ropi

Stakur ropi endrum og eins meðan borðað er, eða stuttu eftir að máltíð er lokið, er eðlilegur og losar líkamann við loft þegar maginn er fullur af fæðu. Fólk sem ropar oft gæti aftur á móti verið að gleypa of mikið loft og losa það áður en það berst til magans.

Í sumum tilvikum er fólk sem ropar þrálátlega með kvilla í efri hluta meltingarvegar, til dæmis magasár eða vélindabakflæði. Einstaka sinnum venur fólk sig á að gleypa loft og ropa til að létta á óþægindum sem það er með. Viss hætta er á að sjúklingar með vélindabakflæði sem gangast undir skurðaðgerð til að laga ástandið eigi erfitt með að losa loft með því að ropa eftir aðgerðina.

Vindgangur

Annað algengt umkvörtunarefni er of mikill vindgangur um afturendann. Flestir átta sig þó ekki á því að það er eðlilegt að leysa vind 14-23 sinnum á dag. Of mikill vindgangur getur stafað af lélegri upptöku á kolvetnum.

Þaninn kviður (uppþemba)

Margir telja að of mikið loft valdi uppþembu kviðar, en oft kvartar fólk um uppþembu þótt loftmagnið sé eðlilegt. Mögulegt er að það sé óvenjunæmt á loft í meltingarveginum. Læknar telja að oftast sé orsök uppþembunnar kvilli eða sjúkdómur í þörmum. Einnig getur neysla fitumikillar fæðu seinkað tæmingu maga og leitt til uppþembu og óþæginda.

Kviðverkir og óþægindi

Sumir finna fyrir sársauka í kviðnum þegar loft er til staðar í þörmunum. Sé sársaukinn vinstra megin er hætta á að honum sé ruglað saman við hjartasjúkdóm. Þegar sársaukinn er hægra megin getur hann líkst gallsteinum eða botnlangabólgu.

Þar sem einkenni lofts í meltingarvegi geta stafað af alvarlegum sjúkdómum er nauðsynlegt að útiloka þá sem orsakavalda. Læknir spyr sjúkling gjarnan um fæðuvenjur hans og fer fram á að hann haldi dagbók yfir neyslu sína í tiltekinn tíma. Ef grunsemd er um laktósaóþol er sjúklingur látinn sleppa mjólkurmat í ákveðinn tíma og athugað hvort greina megi bata við það. Talning á því hversu oft viðkomandi leysir vind yfir daginn gefur mikilvægar upplýsingar ásamt neysludagbók.

Meðferð við of miklu lofti í meltingarvegi

Reynslan sýnir að bestu ráðin við of miklu lofti og óþægindum sem fylgja því eru að breyta fæðuvenjum, taka inn tiltekin lyf og reyna að gleypa minna loft.

Mataræði

Erfitt getur verið að mæla með því að fólk sneiði hjá vindlosandi fæðutegundum, þar sem þær eru oft mjög hollar og æskilegar af þeim sökum, til dæmis grænmeti og ávextir, heilkorn og mjólkurafurðir.

Oft er mælt með því að takmarka neyslu á fituríkum matvælum, svo að maginn tæmist hraðar og loft berist því áfram í þarmana. Það er þó mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif fæðutegundir hafa og því reynist oft nauðsynlegt fyrir fólk að prófa sig áfram og finna sjálft út hverju er best að sleppa.

Lyf

Til eru lyf við vindgangi sem eru ekki lyfseðilskyld. Þar er um að ræða sýrubindandi lyf, ýmist tyggitöflur eða duft sem freyðir þegar því er blandað í vatn. Einnig eru til laktasalyf til að hjálpa fólki sem þolir illa laktósa. Ennfremur eru önnur lyf sem læknar verða að vísa á ef viðkomandi sjúklingur er með meltingarkvilla.

Gleypt loft

Þeir sem þjást af þrálátum ropa ættu að reyna að gleypa minna loft. Þá er mælt með því að nota ekki tyggigúmmí, borða ekki hart sælgæti eins og brjóstsykur, og borða hægt. Ef viðkomandi er með falskar tennur er mælt með því að fara reglulega til tannlæknis til að ganga úr skugga um að þær passi vel.

Lokaorð

Þótt loft í meltingarvegi geti verið óþægilegt og vandræðalegt er það ekki lífshættulegt. Með því að skilja orsakir þess, þekkja leiðir til að minnka það og kynna sér meðferðarúrræði verður það minna vandamál.

Heimild:

Hér geta þeir sem vilja reynt að líkja eftir hljóðum sem heyrast þegar rekið er við.

...