Nögur koma einnig fyrir í búddisma. Þar eru þær gjarnan vatnsguðir sem gæta helgirita. Til dæmis á búddíski heimspekingurinn Nagarjuna að hafa uppgötvað ritið Prajnaparamita-sutra í ríki naganna sem höfðu fengið ritið til varðveislu frá Gautama Búdda sjálfum.
Nögukonungar eru hafðir á myndum og í frásögnum af fæðingu Búdda. Einnig á nögukonungurinn Mucilinda að hafa veitt Búdda skjól fyrir óveðri þar sem hann var við hugleiðslu. Nögukonungarnir eru sagðir stjórna regni, ám og vötnum.
Ennfremur má finna nögur í goðsögnum frá Jövu og Taílandi, þar sem þær eru ýmist höggormar eða drekar, og frá Malasíu þar sem þær eru neðansjávardrekar. Í taílenskum musterum má oft finna líkneski af nögu sem dreka með fimm höfuð.
Einnig má geta þess að íslenska sagnorðið að naga er haft um að vinna á einhverju með tönnunum, samanber nagdýr. Í íslensku er
einnig til nafnorðið naga sem merkir 'biti' og fleirtöluorðið nögur er samkvæmt Orðabókinni 'mjög bitið landsvæði, graslítið beitiland' og er einnig notað yfir 'fiskæti' og 'þurrkaða hausa'.
Heimildir:- Arthur Cotterell & Rachel Storm (1999), The Ultimate Encyclopedia of Mythology, Hermes House/Anness Publishing Ltd.
- Encyclopedia Mythica