Hér er um forna goðsögn að ræða, svo gamla að menn greinir á um ástæðuna fyrir henni. Sagt er að kettir eigi níu líf en hver er hugsanleg skýring á þeirri hugmynd?
Til forna var það talið heillamerki að eiga kött og ákveðin vernd fólst í því að hafa hann inni á heimilinu. Í Egyptalandi til forna var það talinn alvarlegur glæpur að drepa kött. Kettir eru mjög lífseigar skepnur, þeir geta jafnað sig óvenju hratt eftir slys eða alvarleg veikindi, svo ekki sé talað um hæfni þeirra til að lifa af fall úr mikilli hæð. Kannski er goðsögnin sprottin af þeim staðreyndum?
Hið sérstaka samband manns og kattar er ævafornt og sennilega var staða húskattarins hvergi mikilvægari en í hinu forna Egyptalandi við Nílarfljót. Elstu leifar um kattahald mannsins, eru úr gröf sem fannst á eyjunni Kýpur í Miðjarðarhafi. Hún hafði að geyma beinagrindur manns og kattar og telja fornleifafræðingar að kisan hafi verið grafin með húsbónda sínum. Með geislakolsmælingum hefur verið staðfest að gröfin sé frá því um 6000 f. Kr. Síðar hefur kötturinn notið sérstakrar stöðu í samfélögum manna víða um heim vegna veiðieðlisins, fegurðar, þrifnaðar og ýmissa annarra kosta í eðli sínu.
Talið er að almennt kattahald eigi rætur að rekja til Egyptalands fyrir um 4.000 árum. Í upphafi hafi Egyptar sótt sér villta kettlinga, alið þá upp og gert að einhvers konar veiðidýrum í nágrenni heimilisins. Þar drápu þeir mýs, rottur, snáka og önnur dýr sem voru hættuleg heilsu manna. Þannig fékk kötturinn strax að valsa um heimilið og nágrenni þess og hann hlaut hið mikla frelsi sem kettir nútímans njóta (sumum borgarbúum til armæðu!).
Þegar á leið í sögu Egyptalands til forna, áunnu kettir sér goðumlíka virðingu og voru menn dæmdir til dauða fyrir að bana ketti. Útflutningur á köttum var stranglega bannaður í Egyptalandi en sagan segir að kaupmenn frá Fönikíu hafi oft smyglað þeim úr landi og selt á mörkuðum víða í ríkjum við Miðjarðarhafið. Kannski hefur það verið ástæðan fyrir því að kettir breiddust snemma út og urðu vinsælustu dekurdýr mannsins.
Heimildir og mynd:- Wilkinson, Sir J.R. (1988). The ancient Egyptians: their life and customs. New York: Bonanza Books
- Myth and reality about cats
- Cats.Camels.com