Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað var Píningsdómur?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Píningsdómur er kenndur við Diðrik Píning sem var höfuðsmaður Danakonungs á Íslandi frá 1478 til 1491. Diðrik var þýskur flotaforingi.

Snemma árs 1490 gerði Hans Danakonungur (1455-1513) samning við Englendinga þar sem réttur þeirra síðarnefndu til að stunda fiskveiðar og verslun á Íslandi er viðurkenndur. Englendingar þurftu aðeins að greiða tolla og skatta og afla sér siglingarleyfis hjá konungi á sjö ára fresti til að standa við samninginn.

Aðdragandinn að samningsgerðinni voru róstur á Íslandsmiðum þar sem skip Danakonungs og Hansakaupmanna hindruðu siglingar og veiðar enskra skipa. Diðrik Píning var atkvæðamikill í þeim sjóhernaði og var Englendingum mjög í nöp við hann.

Þegar friðargerðin var samþykkt lagði Diðrik Píning hana fyrir Alþingi. Bændahöfðingjar hér á landi urðu lítt hrifnir af henni. Helsta ástæðan fyrir óánægju þeirra var að með friðargerðinni sköpuðust forsendur fyrir samkeppni um vinnuafl í landinu. Í framhaldinu settu stórbændur á Íslandi, með fulltingi Diðriks, lög sem nefnd hafa verið Píningsdómur. Í Píningsdómi eru ítrekuð bönn sem verið höfðu í gildi um vetursetu útlendinga og áréttað að þeir landsmenn sem ekki höfðu efni á að reisa sér bú væru skyldugir til að vera í vist hjá bændum. Dómurinn er ógilding á samningi konungs um fiskveiðiheimildir Englendinga og var lögtekinn á Alþingi 1. júlí 1490. Ári eftir Píningsdóm var sú fregn flutt á Alþingi að Diðrik Píning væri „dauður utanlands“.

Tæpum 20 árum fyrir Píningsdóm, eða um 1472, hafði Danakonungur sent Píning ásamt Hans Pothorst í landkönnunarleiðangur. Þeir félagar stunduðu einnig sjórán og sjóhernað með samþykki konungs. Píningur og Pothorst fóru til Grænlands og ef til vill til Ameríku.


Trérista úr Norðurlandasögu Olaus Magnus.

Í Norðurlandasögu sænska kirkjuhöfðingjans Olaus Magnus (1490-1557) sem kom út í Feneyjum árið 1555 segir af sjóræningjunum tveimur. Frásögnin er með ævintýrakenndum blæ og í kjölfarið fylgir kafli um pigmea á Grænlandi.

Samkvæmt Norðurlandasögunni (2:11) voru Píningur og Pothorst dæmdir útlægir af konungum Norðurlandanna fyrir ránskap. Í útlegðinni gengu þeir til liðs við aðra sjóræningja en lögðu einnig sitt af mörkum til samgöngumála á úthöfunum með því að reisa áttavita á skeri milli Íslands og Grænlands. Að sögn Olaus Magnus gagnaðist áttavitinn helst sjóræningjum í ránsferðum sínum.



Myndin hér að ofan er trérista úr Norðurlandasögunni og þar sést áttavitinn á klettnum Hvítserk neðarlega til hægri. Mennirnir tveir standa á Grænlandi. Sá lágvaxni er af ætt pigmea og berst óhræddur við þann stóra. Ofarlega á myndinni sést maður í húsi sem er reist úr hvalbeinum.

Sögur af pigmeum voru kunnar úr ýmsum klassískum ritum og þær er til dæmis að finna í Hómerskviðum og í Náttúrusögu (Historia naturalis) Pliníusar eldri (23-79 e.Kr.). Yfirleitt stóðu pigmearnir í mikilli baráttu við fugla af trönuætt. Í Norðurlandasögu sinni segist Olaus Magnus hafa heyrt ýmsar frásagnir af pigmeum á Grænlandi sem hann hljóti að taka trúanlegar enda hafi hann oft lesið um baráttu pigmeanna við trönur hjá klassískum höfundum. Þar fer orustan að vísu oftast fram fyrir norðan Svartahaf en það virðist ekki hafa vafist fyrir Olaus að trúa því að það sama gilti einnig um Grænland.

Einn tilgangur með riti sænska kirkjuhöfðingjans var einmitt að tengja ýmsar fornar sögur af undrum og furðum við lönd norðursins, en þær höfðu áður verið taldar eiga sér helst stað í Austurlöndum.

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Íslandssaga til okkar daga, Sögufélag, Reykjavík, 1991.
  • Gunnar Karlsson, Samband við miðaldir: Námsbók í íslenskri miðaldasögu um 870-1550 og sagnfræðilegum aðferðum, Mál og menning, Reykjavík, 1989.
  • Olaus Magnus, Description of the Northern Peoples, Rome 1555 (þýð. Peter Fisher og Humphrey Higgens), 3 bindi, Hakluyt Society, London, 1996-1998.
  • Information for Violinists. (Sótt 22.03.2016).

Myndir:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

9.5.2003

Spyrjandi

Valdimar Viggósson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var Píningsdómur?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2003. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3404.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2003, 9. maí). Hvað var Píningsdómur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3404

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var Píningsdómur?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2003. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3404>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var Píningsdómur?
Píningsdómur er kenndur við Diðrik Píning sem var höfuðsmaður Danakonungs á Íslandi frá 1478 til 1491. Diðrik var þýskur flotaforingi.

Snemma árs 1490 gerði Hans Danakonungur (1455-1513) samning við Englendinga þar sem réttur þeirra síðarnefndu til að stunda fiskveiðar og verslun á Íslandi er viðurkenndur. Englendingar þurftu aðeins að greiða tolla og skatta og afla sér siglingarleyfis hjá konungi á sjö ára fresti til að standa við samninginn.

Aðdragandinn að samningsgerðinni voru róstur á Íslandsmiðum þar sem skip Danakonungs og Hansakaupmanna hindruðu siglingar og veiðar enskra skipa. Diðrik Píning var atkvæðamikill í þeim sjóhernaði og var Englendingum mjög í nöp við hann.

Þegar friðargerðin var samþykkt lagði Diðrik Píning hana fyrir Alþingi. Bændahöfðingjar hér á landi urðu lítt hrifnir af henni. Helsta ástæðan fyrir óánægju þeirra var að með friðargerðinni sköpuðust forsendur fyrir samkeppni um vinnuafl í landinu. Í framhaldinu settu stórbændur á Íslandi, með fulltingi Diðriks, lög sem nefnd hafa verið Píningsdómur. Í Píningsdómi eru ítrekuð bönn sem verið höfðu í gildi um vetursetu útlendinga og áréttað að þeir landsmenn sem ekki höfðu efni á að reisa sér bú væru skyldugir til að vera í vist hjá bændum. Dómurinn er ógilding á samningi konungs um fiskveiðiheimildir Englendinga og var lögtekinn á Alþingi 1. júlí 1490. Ári eftir Píningsdóm var sú fregn flutt á Alþingi að Diðrik Píning væri „dauður utanlands“.

Tæpum 20 árum fyrir Píningsdóm, eða um 1472, hafði Danakonungur sent Píning ásamt Hans Pothorst í landkönnunarleiðangur. Þeir félagar stunduðu einnig sjórán og sjóhernað með samþykki konungs. Píningur og Pothorst fóru til Grænlands og ef til vill til Ameríku.


Trérista úr Norðurlandasögu Olaus Magnus.

Í Norðurlandasögu sænska kirkjuhöfðingjans Olaus Magnus (1490-1557) sem kom út í Feneyjum árið 1555 segir af sjóræningjunum tveimur. Frásögnin er með ævintýrakenndum blæ og í kjölfarið fylgir kafli um pigmea á Grænlandi.

Samkvæmt Norðurlandasögunni (2:11) voru Píningur og Pothorst dæmdir útlægir af konungum Norðurlandanna fyrir ránskap. Í útlegðinni gengu þeir til liðs við aðra sjóræningja en lögðu einnig sitt af mörkum til samgöngumála á úthöfunum með því að reisa áttavita á skeri milli Íslands og Grænlands. Að sögn Olaus Magnus gagnaðist áttavitinn helst sjóræningjum í ránsferðum sínum.



Myndin hér að ofan er trérista úr Norðurlandasögunni og þar sést áttavitinn á klettnum Hvítserk neðarlega til hægri. Mennirnir tveir standa á Grænlandi. Sá lágvaxni er af ætt pigmea og berst óhræddur við þann stóra. Ofarlega á myndinni sést maður í húsi sem er reist úr hvalbeinum.

Sögur af pigmeum voru kunnar úr ýmsum klassískum ritum og þær er til dæmis að finna í Hómerskviðum og í Náttúrusögu (Historia naturalis) Pliníusar eldri (23-79 e.Kr.). Yfirleitt stóðu pigmearnir í mikilli baráttu við fugla af trönuætt. Í Norðurlandasögu sinni segist Olaus Magnus hafa heyrt ýmsar frásagnir af pigmeum á Grænlandi sem hann hljóti að taka trúanlegar enda hafi hann oft lesið um baráttu pigmeanna við trönur hjá klassískum höfundum. Þar fer orustan að vísu oftast fram fyrir norðan Svartahaf en það virðist ekki hafa vafist fyrir Olaus að trúa því að það sama gilti einnig um Grænland.

Einn tilgangur með riti sænska kirkjuhöfðingjans var einmitt að tengja ýmsar fornar sögur af undrum og furðum við lönd norðursins, en þær höfðu áður verið taldar eiga sér helst stað í Austurlöndum.

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Íslandssaga til okkar daga, Sögufélag, Reykjavík, 1991.
  • Gunnar Karlsson, Samband við miðaldir: Námsbók í íslenskri miðaldasögu um 870-1550 og sagnfræðilegum aðferðum, Mál og menning, Reykjavík, 1989.
  • Olaus Magnus, Description of the Northern Peoples, Rome 1555 (þýð. Peter Fisher og Humphrey Higgens), 3 bindi, Hakluyt Society, London, 1996-1998.
  • Information for Violinists. (Sótt 22.03.2016).

Myndir:

...