Í Norðurlandasögu sænska kirkjuhöfðingjans Olaus Magnus (1490-1557) sem kom út í Feneyjum árið 1555 segir af sjóræningjunum tveimur. Frásögnin er með ævintýrakenndum blæ og í kjölfarið fylgir kafli um pigmea á Grænlandi. Samkvæmt Norðurlandasögunni (2:11) voru Píningur og Pothorst dæmdir útlægir af konungum Norðurlandanna fyrir ránskap. Í útlegðinni gengu þeir til liðs við aðra sjóræningja en lögðu einnig sitt af mörkum til samgöngumála á úthöfunum með því að reisa áttavita á skeri milli Íslands og Grænlands. Að sögn Olaus Magnus gagnaðist áttavitinn helst sjóræningjum í ránsferðum sínum.
Myndin hér að ofan er trérista úr Norðurlandasögunni og þar sést áttavitinn á klettnum Hvítserk neðarlega til hægri. Mennirnir tveir standa á Grænlandi. Sá lágvaxni er af ætt pigmea og berst óhræddur við þann stóra. Ofarlega á myndinni sést maður í húsi sem er reist úr hvalbeinum. Sögur af pigmeum voru kunnar úr ýmsum klassískum ritum og þær er til dæmis að finna í Hómerskviðum og í Náttúrusögu (Historia naturalis) Pliníusar eldri (23-79 e.Kr.). Yfirleitt stóðu pigmearnir í mikilli baráttu við fugla af trönuætt. Í Norðurlandasögu sinni segist Olaus Magnus hafa heyrt ýmsar frásagnir af pigmeum á Grænlandi sem hann hljóti að taka trúanlegar enda hafi hann oft lesið um baráttu pigmeanna við trönur hjá klassískum höfundum. Þar fer orustan að vísu oftast fram fyrir norðan Svartahaf en það virðist ekki hafa vafist fyrir Olaus að trúa því að það sama gilti einnig um Grænland. Einn tilgangur með riti sænska kirkjuhöfðingjans var einmitt að tengja ýmsar fornar sögur af undrum og furðum við lönd norðursins, en þær höfðu áður verið taldar eiga sér helst stað í Austurlöndum. Heimildir:
- Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Íslandssaga til okkar daga, Sögufélag, Reykjavík, 1991.
- Gunnar Karlsson, Samband við miðaldir: Námsbók í íslenskri miðaldasögu um 870-1550 og sagnfræðilegum aðferðum, Mál og menning, Reykjavík, 1989.
- Olaus Magnus, Description of the Northern Peoples, Rome 1555 (þýð. Peter Fisher og Humphrey Higgens), 3 bindi, Hakluyt Society, London, 1996-1998.
- Information for Violinists. (Sótt 22.03.2016).
- Mynd af Hans Danakonungi: Danske konger ...og deres historie
- Mynd úr Norðurlandasögu Olaus Magnus: Database for norske sjøormer