Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

doktor.is

Hvernig lifir kakkalakki af kjarnorkusprengju?

Kakkalakkar þola margfalt meiri geislun en flestar aðrar lífverur og mun meiri geislun en spendýr. Mælingar sýna að þeir þola 130 sinnum meiri geislun en menn. Ekki er nákvæmlega vitað af hverju þeir þola alla þessa geislun en flestir vísindamenn telja að ástæðuna megi rekja til byggingar litninga kakkalakkanna, sem eru ólíkir litningum hryggdýra. Litningar kakkalakka virðast vernda erfðaefnið betur fyrir geislun en litningar hryggdýra og mun minni brenglun verður á frumuskiptingu kakkalakka en hryggdýra eftir geislun.
Kakkalakkar lifa ekki af kjarnorkusprengingu nálægt miðpunkti (e. ground zero), frekar en aðrar lífverur. Til þess eru þrýsti- og hitabylgjur af völdum sprengingarinnar of miklar. En lengra frá miðpunkti sprengingarinnar fer þol gagnvart geislun að skipta lífverur máli. Ef dæmi er tekið af kjarnorkusprengju með sprengikraft á við 1 megatonn af TNT (megatonn = milljón tonn, slík sprengja telst vera stór en til eru mun stærri) hefur verið reiknað út að 98% þeirra manna sem eru innan við 2,7 km frá miðpunktinum láti lífið af völdum sprengingarinnar sjálfrar nær samstundis. Í 4,3 km fjarlægð væri dánartíðnin komin niður í 50% og í 7,5 km fjarlægð væri hún 5%. Dánartíðni kakkalakka hefur ekki verið reiknuð út fyrir þessi svæði en gera má ráð fyrir að hún sé ekki mikið lægri eða svipuð.

Fyrir þá sem eftir lifa hefur geislunin hinsvegar mun víðtækari áhrif. Gera má ráð fyrir að geislunin sé banvæn fyrir fólk á svæði í um það bil 50 km radíus frá miðpunkti innan nokkurra klukkutíma, í um 150 km fjarlægð leiddi hún til dauða á 2-14 dögum. Fyrir utan þessi svæði væri geislunin líklega ekki banvæn en hún væri fyrir ofan hættumörk í allt að 400 km fjarlægð. Lífslíkur manna og dýra á svæðunum næst miðpunkti eru því bundnar því hversu vel þeim tekst að forðast geislun og hversu vel þau þola hana.

Vegna smæðar sinnar ættu kakkalakkar auðveldara með að finna skjól fyrir geislun, en auk þess hafa þeir mun meira geislunarþol eins og áður segir. Í 50 km fjarlægð frá miðpunkti yrði geislunin 3.000 rem (rem er eining fyrir geislaskammt sem veldur ákveðnum, mælanlegum skemmdum á líkamsvef). Venjuleg röntgenmyndataka af beini veldur geislun upp á 1 rem. Banvænn skammtur fyrir mann er 800 rem en ameríski kakkalakkinn (Periplaneta americana þolir allt að 67.500 rem og þýski kakkalakkinn (Blattella germanica) drepst ekki ekki fyrr en við 90-105.000 rem.

Rétt er að geta þess að til eru gerlar sem slá kakkalökkum léttilega við í geislunarþoli. Gerillinn Deinococcus radiodurans (seinni hluti nafnsins þýðir beinlínis geislunarþolinn) ræður til dæmis við 3000-falda geislun á við manninn og er ræktun hans talin möguleg leið til að losna við kjarnorkuúrgang.

Heimildir og myndir:

Útgáfudagur

14.5.2003

Spyrjandi

Gunnar Örn Stephensen, f. 1994

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir kakkalakki af kjarnorkusprengju?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2003. Sótt 20. mars 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=3415.

Jón Már Halldórsson. (2003, 14. maí). Hvernig lifir kakkalakki af kjarnorkusprengju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3415

Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir kakkalakki af kjarnorkusprengju?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2003. Vefsíða. 20. mar. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3415>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Jón Snædal

1950

Jón Snædal hefur unnið mestan sinn starfsaldur á öldrunarlækningadeild Landspítalans. Meginviðfangsefni hans hafa verið Alzheimers-sjúkdómur og aðrir sjúkdómar sem valda heilabilun.