Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?

Páll Hersteinsson (1951-2011)

Vegna þess hvað hundar og úlfar eru skyldir og líkir líffræðilega geta þeir eignast afkvæmi vandkvæðalaust. Þá virðist ekki skipta máli hvaða hundakyn eða úlfastofn eiga í hlut en hins vegar geta skapast vandræði ef stærðarmunur er mikill.

Hundar og úlfar eru af hundaættinni, Canidae, sem inniheldur aðeins um það bil 35 tegundir í um það bil 10 ættkvíslum. Hér eru orðin um það bil notuð vegna þess að menn eru ekki alveg sammála um flokkun tegunda í ættkvíslir eða hversu margar ættkvíslirnar skuli teljast.

Hundaættin á fulltrúa í öllum heimsálfum og tegundir ættarinnar koma fyrir í nánast öllum mögulegum gerðum búsvæða frá túndrum norðurheimskautslanda til logandi heitra eyðimarka og regnskóga.

Allmargar tegundir hundaættarinnar eru með litningafjöldann 2n=78. Þeirra á meðal eru hundurinn (Canis familiaris), úlfur (Canis lupus), sléttuúlfur (Canis latrans), rauðúlfur (Canis rufus), sjakalategundirnar þrjár (Canis adustus, Canis mesomelas og Canis aureus) og fleiri.

Í spurningunni er talað um “hundategundir” en allir hundar teljast til einnar tegundar og því er réttara að tala um hundakyn. Fyrstu merki um hunda við fornleifagröft finnast í jarðlögum sem eru frá því fyrir 10-15 þúsund árum. Þá þegar var töluverður breytileiki fyrir hendi meðal hundanna. Alls konar kenningar hafa verið uppi um uppruna hundsins. Flestir hafa hallast að því að hundurinn sé í raun taminn úlfur en aðrir hafa bent á að hinn mikli breytileiki meðal hunda og það, hve lengi sá breytileiki hefur verið fyrir hendi, hljóti að tákna að uppruni hans sé flóknari en þetta. Einn af þeim sem aðhylltist þá kenningu var Konrad Lorenz sem stakk upp á því að sjakalar væru meðal forfeðra hunda.

Nú hefur verið sýnt fram á með rannsóknum á hvatbera-DNA (mtDNA) sjö hundakynja og 26 úlfastofna að sáralítill munur er á úlfum og hundum. Munurinn er aðeins um 0,2% sem er mjög lítið þegar haft er í huga að munurinn á úlfum og sléttuúlfum, sem eru nánustu villtu ættingjar úlfsins, er um 4% eða 20 sinnum meiri. Munurinn á úlfum og sjakölum er enn meiri. Þessar niðurstöður benda eindregið til þess að allir hundar séu komnir af úlfum. Menn kunna hins vegar að hafa tamið úlfa oft og á mismunandi stöðum í heiminum.

Hundar eru sem sé úlfar í dulargervi og líklegasta skýringin á hinum mikla útlitsmun á hundum og úlfum er að menn hafi valið fyrir breytileika í tiltölulega fáum genum hvað varðar útlit og aðra eiginleika, þar á meðal síðbúnum þroska eða þroskastöðnun. Hundar haga sér yfirleitt frekar eins og ylfingar en ekki eins og fullorðnir úlfar.

Hundar og úlfar geta æxlast innbyrðis og ekki á að skipta máli hvaða hundakyn eða úlfastofn á í hlut. Hins vegar geta vissulega skapast erfiðleikar ef mjög smáaxnir hundar vilja eðlast við úlfynjur. Sömuleiðis gæti smávaxin tík átt í erfiðleikum á meðgöngu og við got ef faðirinn er úlfur eða stórvaxinn hundur.

Sums staðar hafa úlfar og hundar náð að æxlast innbyrðis í náttúrunni og til hafa orðið villtir blendingar. Þetta hefur til dæmis gerst á Ítalíu. Þar höfðu menn í þorpum og sveitum reynt að útrýma úlfum eftir bestu getu og orðið vel ágengt víða. Hins vegar hafa hundar þess í stað tekið að ganga villtir, tekið upp búsvæði úlfanna og blandast þeim í einhverjum mæli. Á Ítalíu er löng hefð fyrir því að hundar fái að vera nánast eins mikið úti við og þeir vilja. Menn sjá það því ekki á hundi hvort hann eigi sér eiganda eða ekki og drepa ekki villta hunda sem verða á vegi þeirra, þótt úlfar séu drepnir ef minnsti möguleiki er fyrir hendi. Nú er svo komið að tugþúsundir hunda lifa villtir á Ítalíu og sækja töluvert af sínu fæði á sorphauga þorpanna. Enginn hreyfir hönd né fót vegna þess að þetta eru hundar. Hreinræktaðir úlfar eru nú aðeins til á tveim stöðum í þjóðgörðum og nærliggjandi svæðum á Ítalíu en þeir eru í töluverðri hættu vegna kynblöndunar við hunda sem lifa villtir í grenndinni.

Þess skal getið að á Ítalíu er til rúmlega 2000 ára gamalt fjárhundakyn, maremma, sem ræktað var sérstaklega til þess að verja búfé fyrir úlfum og bjarndýrum. Marcus Terentius Varro (116-27 f.Kr.) lýsti þessu hundakyni, hvernig ætti að þjálfa hundana og velja til undaneldis. Til dæmis var talið mikilvægt að hundarnir væru hvítir eða mjög ljósir svo að þeir sæjust vel í rökkri og engin hætta væri á að rugla þeim saman við úlfa.

Úlfar ráðast stundum á staka hunda og drepa þá enda líta þeir sennilega á þá sem hverja aðra ókunnuga úlfa sem séu í samkeppni við þá. Stakir úlfar eiga það hins vegar til að laðast að tíkum á lóðaríi. Ínúítar í Kanada og á Grænlandi reyna af fremsta megni að koma í veg fyrir að úlfar æxlist með sleðahundatíkum þeirra vegna þess að úlfarnir eru ekki eins hæfir til þeirra verka sem hundunum er ætlað að sinna, nefnilega að draga sleða. Aðalmunurinn á beinabyggingu úlfa og sleðahunda er sá að úlfarnir eru mun grennri og leggjalengri en hundar af svipaðri þyngd. Hundarnir eru mun sterklegri en úlfarnir eru betur byggðir til hlaupa.

Sjá einnig eftirfarandi svör um hunda:

Höfundur

Páll Hersteinsson (1951-2011)

prófessor í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

16.4.2000

Spyrjandi

Jónas Reynir Gunnarsson, f. 1987

Efnisorð

Tilvísun

Páll Hersteinsson (1951-2011). „Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?“ Vísindavefurinn, 16. apríl 2000. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=342.

Páll Hersteinsson (1951-2011). (2000, 16. apríl). Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=342

Páll Hersteinsson (1951-2011). „Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?“ Vísindavefurinn. 16. apr. 2000. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=342>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?
Vegna þess hvað hundar og úlfar eru skyldir og líkir líffræðilega geta þeir eignast afkvæmi vandkvæðalaust. Þá virðist ekki skipta máli hvaða hundakyn eða úlfastofn eiga í hlut en hins vegar geta skapast vandræði ef stærðarmunur er mikill.

Hundar og úlfar eru af hundaættinni, Canidae, sem inniheldur aðeins um það bil 35 tegundir í um það bil 10 ættkvíslum. Hér eru orðin um það bil notuð vegna þess að menn eru ekki alveg sammála um flokkun tegunda í ættkvíslir eða hversu margar ættkvíslirnar skuli teljast.

Hundaættin á fulltrúa í öllum heimsálfum og tegundir ættarinnar koma fyrir í nánast öllum mögulegum gerðum búsvæða frá túndrum norðurheimskautslanda til logandi heitra eyðimarka og regnskóga.

Allmargar tegundir hundaættarinnar eru með litningafjöldann 2n=78. Þeirra á meðal eru hundurinn (Canis familiaris), úlfur (Canis lupus), sléttuúlfur (Canis latrans), rauðúlfur (Canis rufus), sjakalategundirnar þrjár (Canis adustus, Canis mesomelas og Canis aureus) og fleiri.

Í spurningunni er talað um “hundategundir” en allir hundar teljast til einnar tegundar og því er réttara að tala um hundakyn. Fyrstu merki um hunda við fornleifagröft finnast í jarðlögum sem eru frá því fyrir 10-15 þúsund árum. Þá þegar var töluverður breytileiki fyrir hendi meðal hundanna. Alls konar kenningar hafa verið uppi um uppruna hundsins. Flestir hafa hallast að því að hundurinn sé í raun taminn úlfur en aðrir hafa bent á að hinn mikli breytileiki meðal hunda og það, hve lengi sá breytileiki hefur verið fyrir hendi, hljóti að tákna að uppruni hans sé flóknari en þetta. Einn af þeim sem aðhylltist þá kenningu var Konrad Lorenz sem stakk upp á því að sjakalar væru meðal forfeðra hunda.

Nú hefur verið sýnt fram á með rannsóknum á hvatbera-DNA (mtDNA) sjö hundakynja og 26 úlfastofna að sáralítill munur er á úlfum og hundum. Munurinn er aðeins um 0,2% sem er mjög lítið þegar haft er í huga að munurinn á úlfum og sléttuúlfum, sem eru nánustu villtu ættingjar úlfsins, er um 4% eða 20 sinnum meiri. Munurinn á úlfum og sjakölum er enn meiri. Þessar niðurstöður benda eindregið til þess að allir hundar séu komnir af úlfum. Menn kunna hins vegar að hafa tamið úlfa oft og á mismunandi stöðum í heiminum.

Hundar eru sem sé úlfar í dulargervi og líklegasta skýringin á hinum mikla útlitsmun á hundum og úlfum er að menn hafi valið fyrir breytileika í tiltölulega fáum genum hvað varðar útlit og aðra eiginleika, þar á meðal síðbúnum þroska eða þroskastöðnun. Hundar haga sér yfirleitt frekar eins og ylfingar en ekki eins og fullorðnir úlfar.

Hundar og úlfar geta æxlast innbyrðis og ekki á að skipta máli hvaða hundakyn eða úlfastofn á í hlut. Hins vegar geta vissulega skapast erfiðleikar ef mjög smáaxnir hundar vilja eðlast við úlfynjur. Sömuleiðis gæti smávaxin tík átt í erfiðleikum á meðgöngu og við got ef faðirinn er úlfur eða stórvaxinn hundur.

Sums staðar hafa úlfar og hundar náð að æxlast innbyrðis í náttúrunni og til hafa orðið villtir blendingar. Þetta hefur til dæmis gerst á Ítalíu. Þar höfðu menn í þorpum og sveitum reynt að útrýma úlfum eftir bestu getu og orðið vel ágengt víða. Hins vegar hafa hundar þess í stað tekið að ganga villtir, tekið upp búsvæði úlfanna og blandast þeim í einhverjum mæli. Á Ítalíu er löng hefð fyrir því að hundar fái að vera nánast eins mikið úti við og þeir vilja. Menn sjá það því ekki á hundi hvort hann eigi sér eiganda eða ekki og drepa ekki villta hunda sem verða á vegi þeirra, þótt úlfar séu drepnir ef minnsti möguleiki er fyrir hendi. Nú er svo komið að tugþúsundir hunda lifa villtir á Ítalíu og sækja töluvert af sínu fæði á sorphauga þorpanna. Enginn hreyfir hönd né fót vegna þess að þetta eru hundar. Hreinræktaðir úlfar eru nú aðeins til á tveim stöðum í þjóðgörðum og nærliggjandi svæðum á Ítalíu en þeir eru í töluverðri hættu vegna kynblöndunar við hunda sem lifa villtir í grenndinni.

Þess skal getið að á Ítalíu er til rúmlega 2000 ára gamalt fjárhundakyn, maremma, sem ræktað var sérstaklega til þess að verja búfé fyrir úlfum og bjarndýrum. Marcus Terentius Varro (116-27 f.Kr.) lýsti þessu hundakyni, hvernig ætti að þjálfa hundana og velja til undaneldis. Til dæmis var talið mikilvægt að hundarnir væru hvítir eða mjög ljósir svo að þeir sæjust vel í rökkri og engin hætta væri á að rugla þeim saman við úlfa.

Úlfar ráðast stundum á staka hunda og drepa þá enda líta þeir sennilega á þá sem hverja aðra ókunnuga úlfa sem séu í samkeppni við þá. Stakir úlfar eiga það hins vegar til að laðast að tíkum á lóðaríi. Ínúítar í Kanada og á Grænlandi reyna af fremsta megni að koma í veg fyrir að úlfar æxlist með sleðahundatíkum þeirra vegna þess að úlfarnir eru ekki eins hæfir til þeirra verka sem hundunum er ætlað að sinna, nefnilega að draga sleða. Aðalmunurinn á beinabyggingu úlfa og sleðahunda er sá að úlfarnir eru mun grennri og leggjalengri en hundar af svipaðri þyngd. Hundarnir eru mun sterklegri en úlfarnir eru betur byggðir til hlaupa.

Sjá einnig eftirfarandi svör um hunda:...