Sólin Sólin Rís 10:14 • sest 17:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:55 • Sest 06:13 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:03 • Síðdegis: 13:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:24 • Síðdegis: 19:50 í Reykjavík

Hvernig gefa froskar frá sér eitur?

Jón Már Halldórsson
Fjölmargar tegundir froska eru eitraðar. Eitrið sem froskdýr hafa þróað með sér, gegnir nokkuð öðru hlutverki en hjá öðrum dýrum, svo sem snákum og köngulóm. Snákar nota eitur til að veiða bráð og eru því með eiturkirtla í kjaftinum auk þess að hafa kröftugar skögultennur til að koma eitrinu frá sér. Eiturkirtlar froska eru á hinn bóginn dreifðir víðs vegar utan á líkama þeirra og þeim er ætlað varnarhlutverk.

Eitraðir froskar tilheyra einni ætt, Dendrobatidae. Á ensku ganga froskar þessarar ættar undir heitinu poison-arrrow frogs eða eiturörvafroskar. Það heiti er upprunnið frá Choco-indíánum á Amasonsvæðinu í Kólumbíu, sem báru eitur á örvaodda sína með því að nudda þeim við froskana eftir að hafa hitað þá yfir eldi.

Innan ættarinnar eru þekktar 170 tegundir og eru fjórar af átta ættkvíslum ekki eitraðar. Tegundir innan hinna ættkvíslanna geta verið baneitraðar, eins og tegundin Phyllobates terribilis sem hefur kröftugasta eitrið. Eitur P. terribilis nefnist batrachotoxin og dugir magnið í einum froski til að drepa allt að 20 þúsund mýs eða 8 menn (sumar heimildir nefna enn hærri tölur). Aðrar tegundir af ættkvíslinni Phyllobates eru einnig baneitraðar, henni tilheyra eitruðustu froskar sem um getur á jörðinni.

Útbreiðsla ættarinnar Dendrobatidae miðast við heit og rök svæði í regnskógum Mið- og Suður-Ameríku, og er hún afar háð miklum raka og hita. Rakinn má ekki fara niður fyrir 80% og hitinn verður að vera 22°C eða hærri. Eiturmyndunin fer fram í frumum í húð froskanna og eiturkirtlar seyta eitrinu út ef þeir eru örvaðar, til dæmis við áreiti rándýrs. Sama varnarbragðið liggur að baki æpandi áberandi litum eitraðra froska, en það gefur öðrum dýrum til kynna að best sé að halda sig fjarri. Tegundir innan ættarinnar Dendrobatidae geta verið mjög skrautlegar, P. terribilis er til dæmis gyllt að lit og tegundin Dendrobates azureus skærblá. Eitraðir froskar geta því sinnt fæðuleit án þess að óttast rándýr, en sjálfir veiða þeir mest skordýr, svo sem maura og termíta.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.5.2003

Spyrjandi

Hrannar Einar, f. 1991

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig gefa froskar frá sér eitur?“ Vísindavefurinn, 16. maí 2003. Sótt 30. janúar 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=3424.

Jón Már Halldórsson. (2003, 16. maí). Hvernig gefa froskar frá sér eitur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3424

Jón Már Halldórsson. „Hvernig gefa froskar frá sér eitur?“ Vísindavefurinn. 16. maí. 2003. Vefsíða. 30. jan. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3424>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig gefa froskar frá sér eitur?Fjölmargar tegundir froska eru eitraðar. Eitrið sem froskdýr hafa þróað með sér, gegnir nokkuð öðru hlutverki en hjá öðrum dýrum, svo sem snákum og köngulóm. Snákar nota eitur til að veiða bráð og eru því með eiturkirtla í kjaftinum auk þess að hafa kröftugar skögultennur til að koma eitrinu frá sér. Eiturkirtlar froska eru á hinn bóginn dreifðir víðs vegar utan á líkama þeirra og þeim er ætlað varnarhlutverk.

Eitraðir froskar tilheyra einni ætt, Dendrobatidae. Á ensku ganga froskar þessarar ættar undir heitinu poison-arrrow frogs eða eiturörvafroskar. Það heiti er upprunnið frá Choco-indíánum á Amasonsvæðinu í Kólumbíu, sem báru eitur á örvaodda sína með því að nudda þeim við froskana eftir að hafa hitað þá yfir eldi.

Innan ættarinnar eru þekktar 170 tegundir og eru fjórar af átta ættkvíslum ekki eitraðar. Tegundir innan hinna ættkvíslanna geta verið baneitraðar, eins og tegundin Phyllobates terribilis sem hefur kröftugasta eitrið. Eitur P. terribilis nefnist batrachotoxin og dugir magnið í einum froski til að drepa allt að 20 þúsund mýs eða 8 menn (sumar heimildir nefna enn hærri tölur). Aðrar tegundir af ættkvíslinni Phyllobates eru einnig baneitraðar, henni tilheyra eitruðustu froskar sem um getur á jörðinni.

Útbreiðsla ættarinnar Dendrobatidae miðast við heit og rök svæði í regnskógum Mið- og Suður-Ameríku, og er hún afar háð miklum raka og hita. Rakinn má ekki fara niður fyrir 80% og hitinn verður að vera 22°C eða hærri. Eiturmyndunin fer fram í frumum í húð froskanna og eiturkirtlar seyta eitrinu út ef þeir eru örvaðar, til dæmis við áreiti rándýrs. Sama varnarbragðið liggur að baki æpandi áberandi litum eitraðra froska, en það gefur öðrum dýrum til kynna að best sé að halda sig fjarri. Tegundir innan ættarinnar Dendrobatidae geta verið mjög skrautlegar, P. terribilis er til dæmis gyllt að lit og tegundin Dendrobates azureus skærblá. Eitraðir froskar geta því sinnt fæðuleit án þess að óttast rándýr, en sjálfir veiða þeir mest skordýr, svo sem maura og termíta.

Heimildir og myndir:...