Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða áhrif hefur það á móðurlífið að vinna á orfi?
Ættu konur ekki að vinna á orfi eða er það bara vitleysa?
Ekki er unnt að svara því á afgerandi hátt og með fullri vissu hvort hættulegt sé fyrir stúlkur að vinna með tæki sem valda titringi um allan líkamann eins og sláttuorf. Ástæðan er sú að rannsóknir, sem gerðar hafa verið á tengslum titrings og heilsufarshættu, hafa yfirleitt verið gerðar á körlum. Almennt er vitað að vélar og tæki, sem valda titringi líkamans, geta valdið heilsufarslegum skaða. Skaðinn tengist styrkleika titrings, hve lengi hann stendur yfir og hvort vélarnar og tækin uppfylla þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Mikið hefur verið skrifað um heilsufarshættur tengdar titringi en oft er um að ræða heilsuvá, ekki aðeins fyrir vöðva og ýmis líffæri heldur er hávaði oft samfara titringnum en hann getur auðvitað valdið heyrnartapi ef hann er yfir leyfilegum mörkum.
Í sænska tímaritinu Arbete och hälsa 1993:20 er fjallað um áhættu vegna titrings alls líkamans af völdum vinnutækja. Þá þegar höfðu komið fram vísbendingar um að titringur af þessu tagi leiddi til aukins blóðmagns við egglos og tíðir hjá konum. Ýmsar rannsóknir höfðu sýnt svipaða niðurstöðu en þóttu gallaðar og ekki unnt að draga áreiðanlegar ályktanir af niðurstöðum þeirra.
Í nýrra tímariti í þessari ritröð, Arbete och hälsa 1998:26, er fjallað um mismunandi áhættu fyrir konur og karla þegar þau vinna með tæki sem valda titringi alls líkamans eða tiltekinna líkamssvæða. Þar segir að rannsóknir hafi sýnt að konur virðast viðkvæmari fyrir titringi af völdum vinnutækja en karlar og að titringur í öllum líkamanum virðist geta valdið ýmis konar óþægindum frá móðurlífi svo sem tíðatruflunum, bólgum og fósturmissi. Bent er á að verkfæri af þessu tagi séu oftar en ekki hönnuð fyrir karla – en karlar séu að jafnaði stærri og sterkari en konur. Ráðleggingar og reglur, sem varða verkfæri af þessu tagi, séu einnig yfirleitt miðaðar við karla.
Sænska rannsóknastofnunin í vinnuvernd hefur unnið að víðtækum rannsóknum á áhrifum titrings á mannslíkamann. Frekari upplýsingar er að finna á vefnum, en það eru vísindamenn í Umeå sem hafa staðið að rannsóknunum. Samkvæmt upplýsingum á netinu er að vænta nýrra niðurstaðna um áhrif titrings á kvenlíkamann á þessu ári.
Í stuttu máli sagt er ekki hægt að fullyrða að sláttur með sláttuorfi sé með öllu hættulaus fyrir konur en áhættan er háð því hve lengi er staðið að slætti og hversu miklum titringi orfið veldur.
Þetta svar er stytt útgáfa af greininni „Ættu stúlkur ekki að slá með sláttuorfi?“ sem birtist í Fréttabréfi um vinnuvernd, 1. tbl. 20. árg. 2003. Útdrátturinn er unnin af ritstjórn Vísindavefsins með góðfúslegu leyfi höfundar.
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir. „Er slæmt fyrir stelpur að slá með sláttuorfi?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2003, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3466.
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir. (2003, 2. júní). Er slæmt fyrir stelpur að slá með sláttuorfi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3466
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir. „Er slæmt fyrir stelpur að slá með sláttuorfi?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2003. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3466>.