Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Er afsökun möguleg?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Vissulega hljómar íslenska orðið afsökun undarlega þegar við rýnum í það. Ef einhver er sekur um eitthvað, getur hann þá hætt að vera sekur ef hann er af-sakaður? Er sök viðkomandi eitthvað minni en þess sem hefur brotið af sér á sama hátt en hefur ekki hlotið afsökun? Varla getur það verið að hægt sé að breyta staðreyndum aftur í tímann?

Þetta er kannski dæmi um það sem kalla má orðhengilshátt eða útúrsnúning. Auðvitað felur afsökun það ekki í sér að staðreyndum verði breytt. Væntanlega vitum við öll að manneskja sem biðst afsökunar er að gefa til kynna að hún iðrist gjörða sinna og er að óska eftir því að hinn aðilinn áfellist hana ekki og sé henni ekki reiður. Flestum þykir okkur það skipta máli ef einhver gerir eitthvað á hlut okkar að fá að vita að viðkomandi sjái eftir því og í því felst einmitt tilgangurinn með afsökunarbeiðni. Sú sem biðst afsökunar lætur í ljós þá ósk sína að hún hefði breytt öðruvísi.

Sú sem afsakar eða fyrirgefur tekur hinn aðilann í sátt þrátt fyrir að hann hafi gert á hluta hennar. Því má kannski segja að afsökun feli í sér að báðir aðilar séu sáttir þrátt fyrir að sökin sé enn til staðar þar sem hún verður ekki aftur tekin. Afsökun af þessu tagi er því, strangt til tekið, ekki af-sökun heldur einhvers konar sáttargjörð.

Hér að ofan var orðið afsökun meðhöndlað sem samheiti orðsins fyrirgefning. Orðið afsökun er svo líka til í annarri merkingu sem felur kannski í sér raunverulega af-sökun. Það er merkingin sem við höfum í huga þegar við spyrjum hvort einhver hafi eitthvað sér til afsökunar eða segjum "æ, reyndu nú ekki að afsaka þig". Hér snýst málið um að einhver sem virðist hafa gert eitthvað rangt eigi í rauninni ekki sök á því sem gerðist ef hann hefur einhverja afsökun.

Svo er til nokkuð sem er kallað afsökunarþverstæðan (e. apology paradox) (Thompson, 2000). Tilefni hennar eru afsökunarbeiðnir hinna ýmsu stjórnvalda vegna gjörða þáverandi stjórnvalda mörgum áratugum eða jafnvel öldum fyrr, til dæmis afsökunarbeiðni Vatíkansins vegna þess að það fordæmdi ekki aðgerðir nasista fyrir meira en hálfri öld og afsökunarbeiðni japanskra stjórnvalda vegna kóreskra kvenna sem voru neyddar í vændi á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þverstæðan er svona:

 1. Við ættum að biðjast afsökunar vegna þess sem forfeður okkar gerðu á hlut annarra þjóða, þjóðflokka, kynþátta eða annarra minnihlutahópa.
 2. Ef við iðrumst raunverulega gjörða forfeðra okkar þá iðrumst við þess að þeir gerðu það sem þeir gerðu.
 3. Ef við iðrumst illgjörða forfeðra okkar þá óskum við þess að þessir hlutir hefðu ekki gerst.
 4. Ef forfeður okkar hefðu ekki gert það sem þeir gerðu þá væri heimurinn talsvert öðruvísi en hann er nú og við værum að öllum líkindum ekki til.
 5. Flest okkar eru ánægð með að vera til. Okkur finnst gott að við höfum orðið til og viljum frekar að heimurinn sé þannig að við séum til.
 6. Samkvæmt þessu getum við ekki séð eftir þeim atburðum sem leiddu til þess að við urðum til; ef þeir hefðu ekki átt sér stað hefði heimurinn (líklega) orðið þannig að við værum ekki til.
 7. Þar af leiðandi getum við ekki af einlægni beðist afsökunar á röngum gjörðum forfeðra okkar.

Eins og sjá má eru 1. og 7. liður ósamrýmanlegir. Ein möguleg lausn er að hafna fyrsta lið og draga þá ályktun að ástæðulaust sé að biðjast afsökunar á gjörðum forfeðra okkar. Gallinn á þessari lausn er sá að hún virðist ganga gegn siðferðiskennd okkar: Mörgum okkar finnst einmitt full ástæða til að iðrast og biðjast afsökunar á illvirkjum forfeðra okkar.

Annar möguleiki er að hafna 2. lið og segja sem svo að það að biðjast afsökunar þurfi ekki að fela í sér ósk um að viðkomandi atburður hefði ekki átt sér stað heldur beri að skilja afsökunarbeiðni sem einhvers konar yfirlýsingu um að sambærilegur atburður verði ekki endurtekinn eða sem viðurkenningu á að bæta skuli fyrir atburðinn. Gallinn við þessa lausn er sá að eðli afsökunarbeiðna er slíkt að þær eru harla máttlausar ef ekki er hægt að skilja þær þannig að þær feli í sér iðrun eða eftirsjá.

Mögulegt svar við þessu er að það sé einfaldlega þannig að stundum getum við borið í brjósti mótsagnakenndar óskir. Við mannfólkið erum ekki fullkomnar skynsemisverur og kannski getur bara vel verið að stundum óskum við einhvers sem gengur þvert á einhverja aðra ósk sem við höfum.

Annar möguleiki er að þegar við biðjumst afsökunar á gjörðum forfeðra okkar þá feli það í sér þá ósk að aðdragandi tilveru okkar hefði verið með öðrum hætti, það er að hann hefði ekki falið í sér þau illvirki sem hann gerði (Thompson, 2000).

Enn annar möguleiki er svo að notast við tímatengd sjónarhorn (Levy, 2002). Þegar ég gleðst yfir minni eigin tilvist geri ég það á árinu 2003 og sjónarhorn mitt er þaðan. En þegar ég biðst afsökunar á einhverri athöfn forfeðra minna er ég að meta viðkomandi athöfn út frá þeim upplýsingum sem voru fyrir hendi þegar ákvörðun um hana var tekin og þannig að nota sjónarhorn liðins tíma.

Eins og sjá má eru til ýmsar mögulegar lausnir á afsökunarþverstæðunni og ef til vill er hún, þegar öllu er á botninn hvolft, engin raunveruleg þverstæða.

Heimildir:
 • Neil Levy (2002), “The Apology Paradox and the Non-Identity Problem”, í The Philosophical Quarterly, 52, nr. 208, bls. 358-368
 • Janna Thompson (2000), “The Apology Paradox”, í The Philosophical Quarterly, 50, nr. 201, bls. 470-475

Spurningin hljóðaði svona í fullri lengd:
Get ég beðist afsökunar? Getur hinn aðilinn virkilega afsakað mig? Getur hann fellt niður ásakanir gegn mér fyrir eitthvað sem ég hef framið?

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

2.6.2003

Spyrjandi

Þór Matthíasson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er afsökun möguleg?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2003. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3467.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 2. júní). Er afsökun möguleg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3467

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er afsökun möguleg?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2003. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3467>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er afsökun möguleg?
Vissulega hljómar íslenska orðið afsökun undarlega þegar við rýnum í það. Ef einhver er sekur um eitthvað, getur hann þá hætt að vera sekur ef hann er af-sakaður? Er sök viðkomandi eitthvað minni en þess sem hefur brotið af sér á sama hátt en hefur ekki hlotið afsökun? Varla getur það verið að hægt sé að breyta staðreyndum aftur í tímann?

Þetta er kannski dæmi um það sem kalla má orðhengilshátt eða útúrsnúning. Auðvitað felur afsökun það ekki í sér að staðreyndum verði breytt. Væntanlega vitum við öll að manneskja sem biðst afsökunar er að gefa til kynna að hún iðrist gjörða sinna og er að óska eftir því að hinn aðilinn áfellist hana ekki og sé henni ekki reiður. Flestum þykir okkur það skipta máli ef einhver gerir eitthvað á hlut okkar að fá að vita að viðkomandi sjái eftir því og í því felst einmitt tilgangurinn með afsökunarbeiðni. Sú sem biðst afsökunar lætur í ljós þá ósk sína að hún hefði breytt öðruvísi.

Sú sem afsakar eða fyrirgefur tekur hinn aðilann í sátt þrátt fyrir að hann hafi gert á hluta hennar. Því má kannski segja að afsökun feli í sér að báðir aðilar séu sáttir þrátt fyrir að sökin sé enn til staðar þar sem hún verður ekki aftur tekin. Afsökun af þessu tagi er því, strangt til tekið, ekki af-sökun heldur einhvers konar sáttargjörð.

Hér að ofan var orðið afsökun meðhöndlað sem samheiti orðsins fyrirgefning. Orðið afsökun er svo líka til í annarri merkingu sem felur kannski í sér raunverulega af-sökun. Það er merkingin sem við höfum í huga þegar við spyrjum hvort einhver hafi eitthvað sér til afsökunar eða segjum "æ, reyndu nú ekki að afsaka þig". Hér snýst málið um að einhver sem virðist hafa gert eitthvað rangt eigi í rauninni ekki sök á því sem gerðist ef hann hefur einhverja afsökun.

Svo er til nokkuð sem er kallað afsökunarþverstæðan (e. apology paradox) (Thompson, 2000). Tilefni hennar eru afsökunarbeiðnir hinna ýmsu stjórnvalda vegna gjörða þáverandi stjórnvalda mörgum áratugum eða jafnvel öldum fyrr, til dæmis afsökunarbeiðni Vatíkansins vegna þess að það fordæmdi ekki aðgerðir nasista fyrir meira en hálfri öld og afsökunarbeiðni japanskra stjórnvalda vegna kóreskra kvenna sem voru neyddar í vændi á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þverstæðan er svona:

 1. Við ættum að biðjast afsökunar vegna þess sem forfeður okkar gerðu á hlut annarra þjóða, þjóðflokka, kynþátta eða annarra minnihlutahópa.
 2. Ef við iðrumst raunverulega gjörða forfeðra okkar þá iðrumst við þess að þeir gerðu það sem þeir gerðu.
 3. Ef við iðrumst illgjörða forfeðra okkar þá óskum við þess að þessir hlutir hefðu ekki gerst.
 4. Ef forfeður okkar hefðu ekki gert það sem þeir gerðu þá væri heimurinn talsvert öðruvísi en hann er nú og við værum að öllum líkindum ekki til.
 5. Flest okkar eru ánægð með að vera til. Okkur finnst gott að við höfum orðið til og viljum frekar að heimurinn sé þannig að við séum til.
 6. Samkvæmt þessu getum við ekki séð eftir þeim atburðum sem leiddu til þess að við urðum til; ef þeir hefðu ekki átt sér stað hefði heimurinn (líklega) orðið þannig að við værum ekki til.
 7. Þar af leiðandi getum við ekki af einlægni beðist afsökunar á röngum gjörðum forfeðra okkar.

Eins og sjá má eru 1. og 7. liður ósamrýmanlegir. Ein möguleg lausn er að hafna fyrsta lið og draga þá ályktun að ástæðulaust sé að biðjast afsökunar á gjörðum forfeðra okkar. Gallinn á þessari lausn er sá að hún virðist ganga gegn siðferðiskennd okkar: Mörgum okkar finnst einmitt full ástæða til að iðrast og biðjast afsökunar á illvirkjum forfeðra okkar.

Annar möguleiki er að hafna 2. lið og segja sem svo að það að biðjast afsökunar þurfi ekki að fela í sér ósk um að viðkomandi atburður hefði ekki átt sér stað heldur beri að skilja afsökunarbeiðni sem einhvers konar yfirlýsingu um að sambærilegur atburður verði ekki endurtekinn eða sem viðurkenningu á að bæta skuli fyrir atburðinn. Gallinn við þessa lausn er sá að eðli afsökunarbeiðna er slíkt að þær eru harla máttlausar ef ekki er hægt að skilja þær þannig að þær feli í sér iðrun eða eftirsjá.

Mögulegt svar við þessu er að það sé einfaldlega þannig að stundum getum við borið í brjósti mótsagnakenndar óskir. Við mannfólkið erum ekki fullkomnar skynsemisverur og kannski getur bara vel verið að stundum óskum við einhvers sem gengur þvert á einhverja aðra ósk sem við höfum.

Annar möguleiki er að þegar við biðjumst afsökunar á gjörðum forfeðra okkar þá feli það í sér þá ósk að aðdragandi tilveru okkar hefði verið með öðrum hætti, það er að hann hefði ekki falið í sér þau illvirki sem hann gerði (Thompson, 2000).

Enn annar möguleiki er svo að notast við tímatengd sjónarhorn (Levy, 2002). Þegar ég gleðst yfir minni eigin tilvist geri ég það á árinu 2003 og sjónarhorn mitt er þaðan. En þegar ég biðst afsökunar á einhverri athöfn forfeðra minna er ég að meta viðkomandi athöfn út frá þeim upplýsingum sem voru fyrir hendi þegar ákvörðun um hana var tekin og þannig að nota sjónarhorn liðins tíma.

Eins og sjá má eru til ýmsar mögulegar lausnir á afsökunarþverstæðunni og ef til vill er hún, þegar öllu er á botninn hvolft, engin raunveruleg þverstæða.

Heimildir:
 • Neil Levy (2002), “The Apology Paradox and the Non-Identity Problem”, í The Philosophical Quarterly, 52, nr. 208, bls. 358-368
 • Janna Thompson (2000), “The Apology Paradox”, í The Philosophical Quarterly, 50, nr. 201, bls. 470-475

Spurningin hljóðaði svona í fullri lengd:
Get ég beðist afsökunar? Getur hinn aðilinn virkilega afsakað mig? Getur hann fellt niður ásakanir gegn mér fyrir eitthvað sem ég hef framið?
...