…og lesi fram heila passíuna hvað eftir annað svo sem hún er samanlesin og útskrifuð eftir guðspjallamönnum af Doctor Johanne pomerano allt að upprisunnar historia…Í Grallaranum frá 1594 er líka talað um passíuna í þessu sambandi en í yngri þýðingu af Ordinansíunni frá því í lok 16. aldar er talað um píningarhistoríuna. (Sjá Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 136 og 190). Þessi passía eða píningarhistoría sem Ordinansían vitnar til var rit sem út kom 1558 í þýðingu Odds Gottskálkssonar og hét Historian pínunnar og upprisu Drottins vors Jesú Christí út af fjórum guðspjallamönnum af D. Johanni Bugenhagen Pommerano að nýju með athygli saman lesin. Þegar farið var að gefa út handbækur presta í lok 16. aldar var píslarsagan prentuð í þeim og allt fram á 19. öld. Síðan á 19. öld hefur píslarsagan oft verið gefin út sérstaklega, síðast með 79. útgáfu Passíusálmanna 1991. Hallgrímur Pétursson orti Passíusálma sína út frá píslarsögunni eins og hún birtist í handbók presta um hans daga. Sálmar hans hafa frá upphafi gengið undir heitinu Passíusálmar, þótt þeir hafi verið gefnir út undir mismunandi heitum í mismunandi útgáfum. Á vef Ríkisútvarpsins er að finna mjög skemmtilega samantekt Ólafs Pálmasonar um útgáfusögu og heiti Passíusálmanna. Á barokktímanum sömdu tónskáld verk sem byggðust á píslarsögu einstakra guðspjallamanna og nefndu Passion. Frægust eru að líkindum verk J.S. Bachs, St. Matthäus Passion og St. Johannes Passion sem hafa verið flutt hér á landi undir heitunum Matteusarpassían og Jóhannesarpassían.
Hvað þýðir passía?
Útgáfudagur
2.6.2003
Spyrjandi
Erna Þráinsdóttir
Tilvísun
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hvað þýðir passía?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2003, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3470.
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2003, 2. júní). Hvað þýðir passía? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3470
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hvað þýðir passía?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2003. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3470>.