Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flest spendýr nota sjón tiltölulega mikið í daglegu lífi og stærðarmunur á augum er yfirleitt furðulítill milli tegunda. Sumar tegundir, sem eru eingöngu á ferli á nóttunni, eru með afarstór augu og treysta mikið á sjón sína þótt dimmt sé. Dæmi um þetta eru sumir lemúrar og aðrir hálfapar. Þá eru til næturdýr með þróaða heyrn sem þau nota í stað sjónar til að rata og finna bráð. Þetta á við um margar leðurblökutegundir. Meðal þessara tegunda hafa augun rýrnað að sama skapi í tímans rás.
Annar hópur spendýra með lítil augu eyðir mestöllum tíma sínum neðanjarðar í göngum sem þau grafa. Moldvörpur eru dæmi um þetta.
Eitt þessara dýra er snoðrottan (Heterocephalus glaber). Hún er stundum nefnd termítinn meðal spendýranna vegna háþróaðs félagslífs. Hún er bundin við þurrkasvæði í Sómalíu, Eþíópíu og Kenýa. Þessi dýr lifa neðanjarðar alla ævi og hafa afar lélega sjón. Augun eru lítil og nær alveg lokuð. Ytri eyru er nánast engin og þær eru næstum hárlausar. Þær eru því afskaplega vel aðlagaðar lífi neðanjarðar. Hiti í göngunum er fremur stöðugur og þegar þær eru ekki á hreyfingu, halda þær á sér hita með því að liggja í kös. Tilraunir í haldi sýna að þær geta ekki viðhaldið líkamshitanum og hann fer nánast alveg eftir umhverfishita enda safnast ekki fita undir húðina og þær hafa ekki svitakirtla. Meðalþyngd snoðrottunnar er um 30 g en breytileiki er mikill í þyngd eins og nánar verður greint frá síðar.
Á útbreiðslusvæðinu er jarðvegur leirkenndur og getur orðið svo gífurlega harður í þurrkum að snoðrotturnar geta ekki grafið, en það gera þær með framtönnunum. Þetta veldur því líka að rándýr geta ekki grafið sig niður á snoðrotturnar og því er mjög lítið afrán af þeim. Helst eru það snákar sem veiða þær sér til matar enda komast þeir um göngin. Vegna hörku jarðvegsins nota snoðrotturnar aðallega rigningartímann og tímann fyrst eftir hann til að lengja göngin. Þau eru allt að 3,5 km að lengd. Í hverjum félagshópi eru að jafnaði 70-80 einstaklingar en mest er vitað um 295 einstaklinga í einum hópi.
Í hverjum hópi æxlast á hverjum tíma aðeins eitt kvendýr og 1-3 karldýr. Drottningin, eins og nefna má ættmóðurina, er venjulega stærsta dýrið í hópnum. Hún er hlutfallslega meiri á lengdina en breiddina og ferðast því auðveldlega um göngin. Þegar hún verður drottning, lengjast hryggjarliðirnir án þess að útlimir lengist eða hún gildni. Drottningin gýtur að jafnaði á 3 mánaða fresti allt árið. Meðalfjöldi unga í goti er 14 og mest er vitað til 27 unga í einu. Því er viðkoman gífurleg, eða 50-60 ungar á ári. Rétt fyrir got hefur drottningin að jafnaði þyngst um 80-90%. Ungarnir eru vandir af spena um 4 vikna gamlir og byrja þá að hjálpa til við að halda göngunum við. Eftir það fara þeir líka að éta aðra fæðu sem er að hluta til saur annarra snoðrottna og að hluta til bitar af rótarávöxtum sem aðstoðardýrin færa þeim.
Geldrottum af báðum kynjum virðist haldið niðri með stressandi hegðun þeirra sem æxlast en þau eru sífellt á ferðinni og abbast upp á hin dýrin, einkum með því að stanga þau. Hjá kvendýrunum virðist þetta verða til þess að þau fá ekki egglos vegna breytinga á hormónaframleiðslu í heiladingli. Öll fullorðin karldýr framleiða hins vegar sæðisfrumur en það er mikill munur á sæðisfrumumagni, hreyfanleika sæðisfrumna og fjölda afbrigðilegra sæðisfrumna í þeim karldýrum sem æxlast og hinum. En séu þessi gelddýr sett ein sér, taka kvendýrin að fá egglos og sæðisframleiðsla karldýranna verður eðlileg.
Mikil verkaskipting ríkir í félagshópnum. Drottningin og karlarnir sem æxlast gera nær ekkert annað en að æxlast og abbast upp á hinar rotturnar. Vinnudýrin sjá ein um að lengja göngin og viðhalda þeim og verjast óvinum. Auk þess taka þau virkan þátt í að annast ungana.
Einstaklingarnir í hverjum hópi eru mjög misstórir og misgamlir. Auk þess er stærð mjög breytileg innan hvers aldurshóps. Minnstu rotturnar sjá að mestu um að halda göngunum við en þær stærri sjá um varnir gegn óvinum. Að þessu leyti eru snoðrotturnar ólíkar termítum; ekki er um að ræða neina líkamlega sérhæfingu aðra en stærð og fræðilega séð getur hver rotta gengið í gegnum öll þessi skeið á ævinni og orðið að lokum drottning eða kóngur. Þó er þetta ekki alveg víst í raun vegna þess að vöxtur fer mjög eftir félagslegu umhverfi og stjórnast líklega af sömu þáttum og koma í veg fyrir að þau æxlist. Þannig tekur kvendýrið sem næst er drottningunni í virðingarstiga vaxtarkipp þegar drottningin er fjarlægð. Sum dýrin vaxa mjög hægt og halda áfram að stunda viðhald á göngunum mjög lengi. Önnur vaxa hraðar og minnka vinnu við viðhald en taka að stunda varnir í staðinn. Að lokum hætta þau að vinna og eru þá líkleg til að erfa æxlunarhlutverkið.
Það eru stærstu karlarnir sem á hverjum tíma æxlast við drottninguna. Þeir einir sýna henni kynferðislegan áhuga, þefa af kynfærum hennar og svo framvegis. Þeir sýna þó enga burði til að verja drottninguna fyrir öðrum körlum. Eftir að karldýr hefur fengið þá stöðu að æxlast, verður „kóngur", léttist hann að jafnaði um 17-30% áður en þyngdin verður stöðug. Þessi dýr eru því áberandi horaðri en önnur. Sum önnur karldýr eru þyngri og þeir eiga eftir að verða kóngar síðar ef þeir lifa. Drottningin er móttækileg í um það bil sólarhring í einu og hún hefur yfirleitt frumkvæðið að mökun sem tekur að jafnaði rúmlega hálfa mínútu.
Snoðrottur geta orðið fjörgamlar, meira en 18 ára í haldi, og sennilega eru flestar drottningar og kóngar í náttúrunni orðnar 8 ára eða eldri. Aftur á móti hverfa einstaklingar tiltölulega hratt úr félagshópunum. Rannsóknir í Kenýa sýna til dæmis að meira en 98% vinnudýra hverfa á þrem árum. Aðeins 0,1% þeirra snoðrottna, sem veiddust fyrst sem vinnudýr, hefur veiðst síðar sem drottningar eða kóngar. Þetta bendir til þess að mikill meirihluti snoðrottna hverfi og deyi án þess að eiga kost á að tímgast. Þrátt fyrir þessi miklu afföll nær um það bil þriðjungur afkvæma að verða ársgamall og taka þannig þátt í að ala upp 3-4 got af yngri systkinum. Afföllin aukast eftir fyrsta árið, sem er tiltölulega sjaldgæft meðal spendýra. Aftur á móti virðast vanhöld vera mjög lítil meðal drottninga og kónga og flest þeirra virðast lifa árum saman "á toppnum."
Einstaklingar í snoðrottuhópum eru mjög skyldir innbyrðis. Meðalskyldleikastuðullinn milli hverra tveggja dýra er r = 0,81 sem er mun hærra en milli venjulegra alsystkina. Þetta stafar af því að ungar drottningar hafa fæðst í hópnum og æxlast við bræður sína, feður eða syni, kynslóð fram af kynslóð. Rannsóknir á DNA sýna enn fremur að skyldleiki nágrannahópa er mikill og að nýir hópar myndist sennilega með klofningi. Svo virðist sem nokkrar snoðrottur taki sig upp, lengi göngin í tiltekna átt og loki svo á eftir sér. Ein þeirra tekur að sér hlutverk drottningar og eitt eða fleiri karldýr verða kóngar og sagan endurtekur sig. Þær eru því allar náskyldar frá upphafi.
Þegar drottning drepst tekur önnur við, náskyld henni, og þótt flest vinnudýrin séu ekki jafnskyld nýju drottningunni og þeirri sem drapst, sem var sennilega móðir þeirra flestra, virðist ný drottning strax fá alla þá aðstoð sem hún þarfnast við umönnun unga. Hún er auðvitað náskyld þeirri sem féll frá.
Þegar drottning fellur frá, er það venjulega einhver af stærstu kvendýrunum sem tekur við. Þetta er þó ekki alger regla því að dæmi eru um að minni rotta taki að stækka og lengjast mjög hratt og sé orðin drottning innan fárra vikna. Í sumum tilvikum virðist fara fram hörð barátta milli þeirra kvendýra sem koma til greina sem drottningar og stundum liggja nokkur kvendýr í valnum áður en yfir lýkur. Þær drepast þá af bitsárum, vegna blóðmissis eða vegna ígerðar. Það getur tekið marga mánuði að ný drottning festist fullkomlega í sessi.
Snoðrottur eru ákaflega árásargjarnar gagnvart utanaðkomandi snoðrottum sem villast inn í göngin þeirra og drepa þær ef þær geta. Þær eiga ekki í nokkrum vandræðum með að þekkja utanaðkomandi dýr á lyktinni.
Snoðrottur eru jurtaætur og lifa fyrst og fremst á rótarávöxtum. Þær eru á þurrkasvæðum þar sem margar jurtategundir safna næringarforða í rætur sínar. Lítill munur er á gæðum eða magni rótarávaxtanna eftir árstíðum. Þessar jurtir eru oft hnappdreifðar. Þegar snoðrotturnar finna slíkan rótarávöxt grafa þær göng þaðan í ýmsar áttir og finna þannig fleiri. Lengd ganganna er í beinu sambandi við stærð félagshópsins og magn rótarávaxta á svæðinu. Síðan ganga rotturnar á þennan forða og því verður sífellt að lengja göngin. Oft beita þær því snjallræði að þær éta ekki rótarávextina upp til agna heldur éta innan úr þeim. Rótin drepst því ekki og heldur áfram að safna forða svo að dýrin geta gengið að þessum rótarávöxtum síðar. En þær eru ekki enn komnar upp á lag með að rækta sína eigin ávexti eins og sumir maurar. Kannski kemur að því síðar í þróunarsögu þeirra?
Snoðrottur tvímelta fæðuna. Eftir fyrsta umgang er saurinn mjúkur, rakur og ljós. Dýrið leggst á bakið og teygir sig niður á milli lappanna og étur saurinn. Þessi saur er líka vinsæll meðal unganna. Hin gerðin af saur er dökk og hörð og dýrin losa sig við hann á sérstökum stöðum, klósettum. Stundum er þessi saur étinn seinna en aldrei strax. Þessi klósett eru líka vinsæll baðstaður þar sem dýrin velta sér upp úr skítnum. Hugsanlegt er talið að þau séu þá að samhæfa lyktina.
Á þeim stutta tíma sem jarðvegurinn er rakur eftir rigningar getur snoðrottuhópur bætt kílómetra við lengd ganganna. Við gröftinn notar rottan tennurnar en sparkar svo jarðveginum aftur fyrir sig. Ef hún er ein, bakkar hún og sparkar um leið jarðveginum aftur fyrir sig, uns hún kemur að hliðargöngum sem liggja upp á yfirborðið. Þar sparkar hún jarðveginum upp og út fyrir en við gangamunnann myndast hrúgur af jarðvegi eins og gígar. Oftast hjálpast þó margar rottur að þannig að ein grefur með tönnunum og sparkar aftur fyrir sig þar sem sú næsta tekur við og svo framvegis. Yfirleitt eru það fremur litlar rottur sem grafa en stærri rottur eru nær gangamunnanum og sparka jarðveginum út. Þær eru líka eins konar varðrottur og verja munnann fyrir minni afræningjum, jafnvel snákum. En þetta er hættulegasti starfinn vegna þess að fæst rándýr geta náð snoðrottum nema við munnann. Komist snákur ofan í göngin verja snoðrotturnar fæðingardeildina hetjulega og tekst oft að hrekja hann í burtu þótt margar láti lífið í baráttunni.
Merkilegt dýr, snoðrottan. En hún er sem sé með mjög lítil augu!
Páll Hersteinsson (1951-2011). „Hvaða spendýr er með minnstu augun?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2000, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=348.
Páll Hersteinsson (1951-2011). (2000, 18. apríl). Hvaða spendýr er með minnstu augun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=348
Páll Hersteinsson (1951-2011). „Hvaða spendýr er með minnstu augun?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2000. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=348>.