Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi?

Sigurður Sveinn Snorrason

Það er rétt athugað að hér á landi eru einungis fáar tegundir fiska í fersku vatni, nánar tiltekið fimm, það er að segja Atlantshafslaxinn, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Þetta er einungis brot af því sem þekkist á svipuðum breiddargráðum á meginlöndunum.

Ástæða tegundafæðarinnar er sú að Ísland hefur verið eyja langt frá öðrum löndum allt frá því að ísöld lauk fyrir um það bil 10 þúsund árum. Landið er umlukið söltum sjó, en flestir ferskvatnsfiskar þola ekki að vera í söltu vatni. Það er því ekki að undra að einmitt þær tegundir sem slæddust hingað og ílentust eru þekktar að því að lifa bæði í sjó og fersku vatni.

Þau skilyrði sem íslenskir ferskvatnsfiskar lifa við eru á margan hátt einstæð, bæði vegna tegundafæðarinnar og vegna jarðfræðilegrar sérstöðu því að hér er þó nokkuð af vötnum á eldvirkum svæðum. Tegundafæðin gerir það að verkum að samkeppni við aðrar tegundir vatnafiska er að líkindum miklu minni en ella. Ástæða er til þess að ætla að þessi skilyrði og hinn mikli jarðfræðilegi breytileiki í vatnakerfum Íslands hafi ýtt undir þróun aukins breytileika í líffræði ferskvatnsfiska á Íslandi. Þess konar breytileiki er afar áhugaverður frá sjónarmiði líffræðinga, meðal annars með hliðsjón af þróunarkenningu Darwins. Settar hafa verið fram hugmyndir um að öll þessi skilyrði samanlögð ættu að auka til muna líkur á myndun afbrigða sömu tegundar og jafnvel nýrra tegunda. Í raun geta þessar grundvallarhugmyndir allt eins átt við um aðrar tegundir sem numið hafa land á Íslandi.

Nýlegar rannsóknir á bleikju styðja þetta. Í ljós hefur komið að verulegur breytileiki er í útliti og lifnaðarháttum bleikju. Í nokkrum vötnum hefur bleikjan myndað auðgreinanleg afbrigði, aðlöguð að mismunandi vistum (niches) í vatninu, það er að segja að mismunandi lífsskilyrðum og hlutverkum. Þessi afbrigði æxlast lítt eða ekki saman. Með tíð og tíma gætu slík afbrigði orðið að nýjum tegundum, en það þýðir að einstaklingar af mismunandi tegundum eiga þá ekki lengur frjó afkvæmi. Athuganir á hornsílum benda til þess að þar sé sama uppi á teningnum, mikill breytileiki og afbrigðamyndun ef til vill algeng.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að margháttuð sérstaða Íslands geri það einkar forvitnilegt til rannsókna er snúa að spurningum um það, hvernig nýr breytileiki verður til og hvernig afbrigði og tegundir myndast.

Höfundur

prófessor í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

12.2.2000

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Sveinn Snorrason. „Hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi? “ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=35.

Sigurður Sveinn Snorrason. (2000, 12. febrúar). Hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=35

Sigurður Sveinn Snorrason. „Hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi? “ Vísindavefurinn. 12. feb. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=35>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi?
Það er rétt athugað að hér á landi eru einungis fáar tegundir fiska í fersku vatni, nánar tiltekið fimm, það er að segja Atlantshafslaxinn, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Þetta er einungis brot af því sem þekkist á svipuðum breiddargráðum á meginlöndunum.

Ástæða tegundafæðarinnar er sú að Ísland hefur verið eyja langt frá öðrum löndum allt frá því að ísöld lauk fyrir um það bil 10 þúsund árum. Landið er umlukið söltum sjó, en flestir ferskvatnsfiskar þola ekki að vera í söltu vatni. Það er því ekki að undra að einmitt þær tegundir sem slæddust hingað og ílentust eru þekktar að því að lifa bæði í sjó og fersku vatni.

Þau skilyrði sem íslenskir ferskvatnsfiskar lifa við eru á margan hátt einstæð, bæði vegna tegundafæðarinnar og vegna jarðfræðilegrar sérstöðu því að hér er þó nokkuð af vötnum á eldvirkum svæðum. Tegundafæðin gerir það að verkum að samkeppni við aðrar tegundir vatnafiska er að líkindum miklu minni en ella. Ástæða er til þess að ætla að þessi skilyrði og hinn mikli jarðfræðilegi breytileiki í vatnakerfum Íslands hafi ýtt undir þróun aukins breytileika í líffræði ferskvatnsfiska á Íslandi. Þess konar breytileiki er afar áhugaverður frá sjónarmiði líffræðinga, meðal annars með hliðsjón af þróunarkenningu Darwins. Settar hafa verið fram hugmyndir um að öll þessi skilyrði samanlögð ættu að auka til muna líkur á myndun afbrigða sömu tegundar og jafnvel nýrra tegunda. Í raun geta þessar grundvallarhugmyndir allt eins átt við um aðrar tegundir sem numið hafa land á Íslandi.

Nýlegar rannsóknir á bleikju styðja þetta. Í ljós hefur komið að verulegur breytileiki er í útliti og lifnaðarháttum bleikju. Í nokkrum vötnum hefur bleikjan myndað auðgreinanleg afbrigði, aðlöguð að mismunandi vistum (niches) í vatninu, það er að segja að mismunandi lífsskilyrðum og hlutverkum. Þessi afbrigði æxlast lítt eða ekki saman. Með tíð og tíma gætu slík afbrigði orðið að nýjum tegundum, en það þýðir að einstaklingar af mismunandi tegundum eiga þá ekki lengur frjó afkvæmi. Athuganir á hornsílum benda til þess að þar sé sama uppi á teningnum, mikill breytileiki og afbrigðamyndun ef til vill algeng.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að margháttuð sérstaða Íslands geri það einkar forvitnilegt til rannsókna er snúa að spurningum um það, hvernig nýr breytileiki verður til og hvernig afbrigði og tegundir myndast.

...